Mendelssohn: Complete Works for Violin and Piano nefnist þriðja geislaplata Nínu Margrétar Grímsdóttur píanóleikara, sem kemur út á Íslandi á vegum hljómplötufyrirtækis NAXOS Classical.
Mendelssohn: Complete Works for Violin and Piano nefnist þriðja geislaplata Nínu Margrétar Grímsdóttur píanóleikara, sem kemur út á Íslandi á vegum hljómplötufyrirtækis NAXOS Classical. Diskurinn inniheldur fyrstu heildarútgáfu á verkum Felix Mendelssohn fyrir fiðlu og píanó. Þar er að finna þrjár sónötur tónskáldsins frá 1838, Op. 4 frá 1823 og frá 1820. Einnig eru á plötunni fimm stutt verk fyrir fiðlu og píanó sem ekki hafa verið áður útgefin. Nína Margrét leikur þessi verk ásamt ástralska fiðluleikaranum Nicholas Milton en þau hafa unnið saman undir nafninu Nomos Duo, sem þau stofnuðu í New York 1993. Milton hefur komið fram á tónleikum hér á landi tvisvar ásamt Nínu Margréti og meðlimum Blásarakvintetts Reykjavíkur. Hann starfar nú sem konsertmeistari og aðstoðarhljómsveitarstjóri Sinfóníuhljómsveitar Adelaideborgar í Ástralíu og einnig sem aðalhljómsveitarstjóri Sinfóníuhljómsveitarinnar í Dubrovnik og gestastjórnandi Zagreb Fílharmóníunnar.

Platan hefur hlotið góða dóma í erlendum fagtímaritum og ber þar hæst lofsamlega umfjöllun í hinu virta tímariti Gramophone - Awards Issue 2001 / Vol. 79 / Nr. 947 og segir þar m.a.: "Geisladiskur Milton og Grímsdóttur hefur vinninginn - vegna snilldar og léttleika í síðasta kafla sónötunnar frá árinu 1838, og einnig vegna glæsilegrar hendingamótunar á óperulaglínum sónötunnar ópus 4 frá árinu 1820, adagio....Þessi diskur er sannarlega tilvalinn upphafspunktur til að kynnast minna þekktum verkum Mendelssohn."

Platan kom út á alþjóðlegum markaði í júlí sl., en NAXOS er í dag ein stærsta hljómplötuútgáfa klassískra hljómdiska hvað varðar sölu og dreifingu á heimsvísu.

Platan var hljóðrituð í Digraneskirkju í Kópavogi í janúar 1998 undir stjórn Halldórs Víkingssonar, tónmeistara. Skífan - Norðurljós sér um dreifingu disksins hér á landi. (NAXOS 8.554725).