[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ljóst er, segir Guðmundur G. Þórarinsson, að árangurinn af kerfinu er dapurlegur.
Í MEIRA en einn og hálfan áratug höfum við stjórnað fiskveiðum okkar eftir kvótakerfi. Nokkur meginatriði lágu til grundvallar þeirri ákvörðun að taka þetta kerfi upp. Við vildum varðveita fiskistofnana og hámarka þannig veiðarnar, við vildum koma á aukinni hagkvæmni við veiðarnar þannig að sem mestur arður fengist með lágmarksfjárfestingu. Fleiri atriði komu inn í þessa umræðu. Nú hefur þetta kerfi verið það lengi í notkun að fyllilega er réttlætanlegt og tímabært að meta árangurinn.

Fiskveiðarnar

Árangurinn af varðveislu stofnanna veldur vonbrigðum. Þegar kerfið var sett á voru þorskveiðar komnar niður fyrir 300 þ. tonn á ári en höfðu um árabil þar á undar verið milli 4 og 500 þ. tonn árlega. Nú eru heimilaðar þorskveiðar undir 200 þ. tonnum og um 35% minni en við upphaf tímabilsins og virðist leyfilegur afli hafa minnkað nokkuð reglulega allt tímabilið.

Ýsuaflinn lá við upphaf tímabilsins við 50 þ. tonn á ári en er nú um 30 þ. tonn. Minnkun um 40%.

Ufsaaflinn var við upphaf tímabilsins um 60 þ. tonn á ári en er nú rúm 20 þ. tonn. Minnkun um nær 60%.

Stærð fiskiskipastóls

Mér hefur ekki gengið nógu vel að sundurliða fiskiskipaflotann eftir tegundum. Myndin hér að neðan sýnir flotann í heild og stækkun flotans fyrir uppsjávarfiska er sennilega veruleg. Eigi að síður bendir allt til að áætluð hagræðing í minnkun flotans hafi ekki skilað sér.

Við þetta er að bæta að vélarafl flotans hefur aukist verulega og veiðarfæri hafa tekið miklum framförum á tímabilinu. Með stærri flota, öflugri vélum og stórbættum veiðarfærum veiða menn mun minna en áður.

Skuldir sjávarútvegs

Eins og sjá má af myndinni hafa skuldir sjávarútvegs aukist mjög á föstu verðlagi. Einkum hafa þær aukist frá 1995 og má ætla að kvótakaup valdi þar miklu. Í fréttum hefur nú komið fram að skuldir sjávarútvegs séu nú um stundir um 60 milljarðar umfram eignir. Hér virðist um mjög alvarlega þróun að ræða. Eiginfjárstaða hefur stórlega versnað (sjá mynd).

Framleiðniaukning

Því hefur verið haldið fram að framleiðniaukning hafi verið í útgerðinni. Ég fæ ekki séð að um geti verið að ræða framleiðniaukningu fjármagns. Fjárþörf í útgerð hefur stóraukist með kvótakerfinu og veiðar minnkað. Varla er um að ræða framleiðniaukningu fiskiskipastólsins. Hann hefur vaxið og veiðar minnkað. Því hefur verið haldið fram að eðlileg fjárbinding í útgerð sé 150-170 milljarðar, skip, tæki, byggingar o.s.frv. Nú er líklegt að fjárþörf útgerðar verði 300-350 milljarðar með tilkomu kvótakaupanna eða enn meiri.

Áhrif á byggðarlög

Áhrif kvótakerfisins á byggðarlög við sjávarsíðuna hafa verið veruleg. Fólk sem hefur sett sig niður mann fram af manni við sjávarsíðuna vegna þess að þar er unnt að draga fisk úr sjó situr eftir með sárt ennið. Kvótinn flyst, byggðin hefur ekki rétt til veiða, eignir verða verðlausar og atvinna minnkar. Hér er um að ræða atriði sem er gríðarlegt umhugsunarefni.

Eignatilfærsla

Hrikaleg eignatilfærsla hefur átt sér stað. Einstaklingar hafa getað selt kvóta sem er samkvæmt lögum þjóðareign og gengið út úr útgerð með hundruð milljóna og jafnvel milljarða króna. Talsverður hluti þessara fjármuna hefur runnið úr landi en vaxta- og afborganagreiðslur sitja eftir hjá útgerðinni. Söluhagnaður af kvóta hefur lítt verið skattlagður.

Veðsetning útflutningsverðmæta

Skuldaaukning útgerðarinnar vegna m.a. kvótakaupa þýðir líklega um 5 milljarða vaxtagreiðslur árlega og getur átt eftir að aukast. Ljóst er að talsverður hluti útflutningsverðmæta okkar á næstu árum mun fara í að greiða vexti og afborganir þessara skulda.

Brottkastið

Allir viðurkenna að brottkast sé mjög mikið á miðunum. Þótt brottkast hafi líklega allaf viðgengist er enginn vafi að kvótakerfið á sinn þátt í aukningu brottkastsins. Nýlegar upplýsingar sýna að vandamálið er jafnvel enn alvarlegra en áður var álitið.

Innbyggður galli kvótakerfisins

Margt bendir til að kvótamark á einstakar tegundir standist ekki. Menn geta ekki farið á sjó til þess að veiða bara eina ákveðna tegund nema þá helst í uppsjávarfiskum, loðnu, síld o.s.frv.

Krókabátur fær ýmsar tegundir á krókana og hefur ekki kvóta nema fyrir sumum. Allir vita að stundum róta menn upp þorski og ýsu en verða að henda miklu af kola af því þeir hafa ekki kvóta. Þeir sem fiska kola fá stundum mikið af þorski og ýsu og mega ekki koma með þann afla að landi. Felur þetta ekki í sér innbyggt brottkast? Sumir höfundar kvótakerfisins telja nú að kerfið gangi ekki upp. Miða verði við hámarksafla á ákveðnum svæðum án tillits til tegundaskipta og fæðuástand ráði mestu.

Nýliðun

Kerfið kemur mjög í veg fyrir nýliðun vegna gríðarlegs verðs á kvóta. Framkvæmd kerfisins stangast á við jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Hér er um að ræða gríðarlega mikilvægt atriði fyrir framtíðaþjóðfélag okkar. Allar greinar atvinnulífsins sýna hve mikilvægt er að nýjir menn með nýjar mugmyndir komist að og þróun verði.

Auðlindaskattur - endurskoðun

Endurskoðun sú sem fram hefur farið hefur snúist um skattlagningu útgerðarinnar. Þar eru menn á villugötum. Kerfið sjálft, framkvæmd þess og árangur eru höfuðatriðin. Skattlagning eftir að framlegð hefur náð 20% er einungis nokkurs konar hátekjuskattur á útgerð og á ekkert skilt við galla og kosti kerfisins.

Árangurinn

Ljóst er að árangurinn af kerfinu er dapurlegur. Ástæður geta verið margar. Það er hins vegar uppgjöf að horfast ekki í augu við þessar staðreyndir. Sagnfræðingar framtíðarinnar munu horfa undrandi á þetta tímabil minnkandi veiða, stækkandi fiskiskipastóls með auknu vélarafli og stórvirkari veiðarfærum, stórauknar skuldir útgerðar, hrikalega eignatilfærslu í þjóðfélaginu, gríðarlegan byggðavanda samfara lénsskipulagi fiskveiðanna o.s.frv. Mál er að þeir sem harðast styðja þetta kerfi taki málefnalega á þeim atriðum sem hér eru nefnd að ofan. Ekki dugar í þessu sambandi að segja endalaust: Aðeins er einn guð, Allah, og Múhameð er spámaður hans.

Höfundur er verkfræðingur.