Þorsteinn Gunnarsson
Þorsteinn Gunnarsson
Óformlegur hópur stuðningsmanna háskólans, segir Þorsteinn Gunnarsson, vinnur nú að því að stofna samtök sem bera nafnið "Góðvinir Háskólans á Akureyri".
Í ÞESSARI grein verður fjallað um samstarf fyrirtækja og annarra velunnara og Háskólans á Akureyri um uppbyggingu upplýsingatækni við háskólann. Mikilvægi upplýsingatækni fyrir metnaðarfullt háskólastarf eykst sífellt og stöðugt eru gerðar meiri kröfur til háskóla um að þessum þætti sé sinnt meira en áður. Þekking í upplýsingatækni þróast mjög hratt og fjárfesting í upplýsingatækni er kostnaðarsöm. Fyrir háskóla er mikilvægt að hafa samstarf við framsækin fyrirtæki um uppbyggingu þekkingar á þessu sviði og að fá fjárhagslegan stuðning við þá þætti sem háskólinn ræður ekki einn við. Ekki er um að ræða að fyrirtæki fjármagni uppbyggingu sem ætti að vera á könnu ríkisvaldsins heldur er verið að leita eftir fjármagni til að styðja sérstök átaksverkefni sem skila sér til atvinnulífsins í landinu í einu eða öðru formi.

Samvinna Háskólans á Akureyri og fyrirtækja á sviði upplýsingatækni hefur beinst að eftirfarandi sviðum: Að byggja upp nýja fræðilega þekkingu, auka útbreiðslu þekkingar sem fyrir er, m.a. með fjarnámi, og styrkja innviði háskólans til að standa undir fyrrnefndum verkefnum.

Ný fræðileg þekking

Samstarf Háskólans á Akureyri og Íslenskrar erfðagreiningar (ÍE) undir forystu Kára Stefánssonar hefur leitt til þess að ný deild, upplýsingatæknideild, hóf starfsemi sína við háskólann í ágúst sl. Í deildinni er fyrst um sinn um að ræða nám í tölvunarfræði til B.Sc.-gráðu. Námstími eru 6 misseri eða 3 ár og um 30 nemendur stunda nám við deildina. Í náminu er megináhersla lögð á forritun, kerfishönnun, gagnagrunna, stýrikerfi og raunhæf verkefni.

Auk deildarforseta, dr. Mark O'Brien, hafa verið ráðnir þrír háskólakennarar að deildinni. Þeir eru allir frá Bretlandi og hafa flutt þaðan til Akureyrar til að taka þátt í uppbyggingu deildarinnar. Sérstakur samningur var gerður milli háskólans og ÍE um aðkomu ÍE að uppbyggingu kennslu og rannsókna við deildina. Þar kemur m.a. fram að ÍE sér til þess að fastráðnir kennarar við deildina séu á markaðslaunum hverju sinni. ÍE greiðir því hluta af launum kennara en samhliða störfum sínum fyrir háskólann vinna þeir að rannsóknum fyrir ÍE. Á þennan hátt næst mikil samvirkni milli kennslu og rannsókna. Framlög einstaklinga hafa ennfremur skipt miklu máli um uppbyggingu upplýsingatæknideildarinnar. Hæst ber þar að nefna framlag Björns Rúrikssonar en hann gaf háskólanum fimm milljónir kr. til að koma á fót stöðu háskólakennara í upplýsingatækni. Forsvarsmenn tölvufyrirtækja, m.a. á Akureyri, hafa einnig veitt hinni nýju deild mikilvæga ráðgjöf.

Fjarnám og gagnasmiðja

Haustið 1998 var ákveðið að hefja fjarnám í hjúkrunarfræði á Ísafirði og Egilsstöðum þar sem notast yrði við gagnvirkan myndfundabúnað til að miðla kennslu. Sífellt bætist við þá möguleika sem ný tækni færir kennurum við að miðla þekkingu til nemenda sinna og nú eru kennarar Háskólans á Akureyri í síauknum mæli farnir að nýta þessa fjölbreyttu möguleika.

Fyrirtæki og stofnanir víða um land hafa látið í té mikilsverðan fjárstuðning sem nýttur hefur verið til að útvega sérhæfðan búnað til fjarnáms við háskólann.

Í fjarnáminu er vefurinn notaður í sívaxandi mæli samhliða fjarfundabúnaði. Má þar nefna notkun WebCT námsumhverfis á vef þar sem kennarar geta bæði sett inn flest það námsefni sem þeir nýta í kennslu sinni og verið í netsamskiptum við nemendur, hvort sem er í gegnum umræðuvef eða tölvupóst.

Fræðigreinar sem kenndar eru til fjarnámsstaða víða um land eru:

Hjúkrunarfræði, BS

Leikskólakennaranám, BEd

Rekstrarfræði, BS

Auk þessa er meistaranám í hjúkrunarfræði og kennaradeild og kennsluréttindanám rekið að hluta til með fjarnámssniði. Í fjarnáminu er ýmist um að ræða fullt nám í dagskóla eða nám sniðið að þörfum þeirra sem stunda vilja nám samhliða starfi. Í mörgum tilvikum er fjarnám Háskólans á Akureyri rekið í samstarfi við fræðslumiðstöðvar í héraði sem starfrækja öflugt stuðningskerfi fyrir fjarnemendur á viðkomandi svæði. Í eftirfarandi töflu koma m.a. fram upplýsingar um staðsetningu fjarnáms og fjölda nemenda.

Til að auðvelda störf kennara og nemenda sem tengjast upplýsingatækni hefur gagnasmiðju verið komið á fót við háskólann. Meginhlutverk gagnasmiðjunnar er að veita nemendum og starfsfólki háskólans aðgang að sérhæfðum tækjakosti, hugbúnaði og leiðsögn sem gerir þeim kleift að hagnýta upplýsingatækni við nám, kennslu og rannsóknir. Gagnasmiðjan gegnir lykilhlutverki við starfrækslu fjarkennslu háskólans. Mikið af búnaði gagnasmiðjunnar hefur verið útvegað með fjárframlögum frá fyrirtækjum og stofnunum.

Góðvinir Háskólans á Akureyri

Í ársbyrjun 2000 hófst söfnunarátak til að efla notkun upplýsingatækni við Háskólann á Akureyri. Söfnunarátakið nefnist "háskólanám til fólksins í landinu". Forystumenn átaksins eru Björn Jósef Arnviðarson, sýslumaður, og Pétur Bjarnason, framkvæmdastjóri. Undirtektir fyrirtækja og einstaklinga hafa verið afar góðar. Söfnunarfénu hefur verið varið til að styðja þróunarverkefni á sviði fjarkennslu og upplýsingatækni, útvega fullkomnari búnað til fjarkennslu og efla tölvukost háskólans. Í söfnuninni kom í ljós mikill áhugi á því að til væri formlegur félagsskapur sem einbeitti sér að því að efla enn frekar vöxt og viðgang Háskólans á Akureyri. Óformlegur hópur stuðningsmanna háskólans vinnur nú að því að stofna samtök sem munu bera nafnið "Góðvinir Háskólans á Akureyri". Markmið góðvina eru annars vegar að auka tengsl háskólans við brautskráða nemendur og aðra þá sem bera hag hans fyrir brjósti og hins vegar að styrkja og efla háskólann eftir fremsta megni, fjárhagslega og faglega. Stefnt er að því að starfsemi góðvina háskólans verði formlega hafin í ársbyrjun 2002.

Höfundur er rektor Háskólans á Akureyri.