Jóhann Friðgeir Valdimarsson
Jóhann Friðgeir Valdimarsson
Jóhann Friðgeir Valdimarsson tenórsöngvari fer mikinn í íslenzku sönglífi. Nú er komin út hans fyrsta geislaplata, þar sem hann syngur íslenzk lög og ítölsk og óperuaríur. Freysteinn Jóhannsson hitti Jóhann Friðgeir að máli.
"AÐDRAGANDI þessa disks nær aftur til ársins 1999, en þá hélt ég einsöngstónleika í Íslensku óperunni. Það var mjög gaman að halda þessa tónleika; það var húsfyllir, og við tókum hluta þeirra upp niðri í Óperu, bæði fyrir og eftir tónleikana. Meiningin var nú að gefa diskinn út þá. En ég var ekki sáttur við nokkur lög og því var útgáfunni frestað.

Ég fór svo niður á Ítalíu til náms og starfs og það var ekki fyrr en ég var kominn heim aftur, að tími vannst til þess að klára diskinn. Það gerðum við í Víðistaðakirkju í ágúst síðastliðnum.

Ég vildi bara gera þetta almennilega, fyrst ég var að því á annað borð."

Á plötunni; Jóhann Friðgeir Valdimarsson & Ólafur Vignir Albertsson, eru tíu íslenzk lög, sex eftir Sigvalda Kaldalóns og hin eftir Jón Ásgeirsson, Eyþór Stefánsson, Inga T. Lárusson og Sveinbjörn Sveinbjörnsson.

Í kynningu með plötunni segir Jón Ásgeirsson um íslenzku verkin: "Í þessum verkum birtist marglitt efni íslenskra sönglaga og segja má að fyrir íslenska hlustendur sé um prófstein að ræða á sviði túlkunar, mótunar hendinga, nákvæmni í framburði og í fögru tóntaki. Í Heimi er það dramatísk saga, fegurðardýrkunin í Þú eina hjartans yndið mitt, ljóðrænn treginn í Ég lít í anda liðna tíð, glæsileikinn í Hamraborginni, ástarsorgin í Vor hinsti dagur, náttúrudýrkunin í Lindin og fjörið í Sprettur."

"Þessi lög eru í miklu uppáhaldi hjá mér," segir söngvarinn. "En þau eru bara brot af öllum mínum uppáhaldslögum."

-Hamraborgin verður náttúrlega að vera með á svona plötu?

"Já, já," samsinnir hann með bros á vör. "Þetta er lag sem er meira svona fyrir stórar raddir. Ég sé það síður fyrir mér í munni hálýrísks tenórs. Annars söng hún Diddú Hamraborgina í Salnum með Jónasi Ingimundarsyni. Þannig að það er allt hægt. En þetta lag er mikið fyrir tenóra!"

-Lagið, sem allir áheyrendur vilja heyra tenórinn spreyta sig á?

"Jú, jú. Það heyrist alltaf úti í sal, þegar maður er kominn í aukalögin: Hamraborgina, Hamraborgina!"

Um seinni hluta geislaplötunnar; ítölsku söngvana, segir Jón Ásgeirsson: "Raddgerð Jóhanns Friðgeirs fellur einstaklega vel að ítalskri óperutónlist og seinni hluti hljómdisksins er ítölsk söngtónlist. Þar getur að heyra söngva eftir Tosti, Donaudy, Cardillo, Cilea, Leoncavallo og Puccini. Söngverk á borð við L'ultima canzone og Ideale eftir Tosti, Core 'ngrato eftir Cardillo, E la solita storia eftir Cilea, Vesti la giubba eftir Leoncavallo, Recondita arminia og E lucevan le stelle eftir Puccini eru allt stóraríur þar sem reynir á allt tónsvið raddarinnar og víðfeðmt túlkunarsvið sem er öllum söngvurum vegvísar til musteris sönggyðjunnar."

"Þetta er meira svona mín deild," segir söngvarinn.

Meðleikari Jóhanns Friðgeirs á plötunni er Ólafur Vignir Albertsson.

"Ólafur hefur staðið við bakið á mér allar götur síðan í Söngskólanum. Ætli það séu ekki ein 80% af síðustu lögum fyrir fréttir, sem Ólafur Vignir spilar með.

Svo sá Halldór Víkingsson um upptöku og hljóðvinnslu og hann er vandvirkur í sínum vinnubrögðum."

-Fleiri plötur í bígerð?

"Já, það eru tveir diskar í sigtinu, ef ekki þrír."

-Meira af íslenzk-ítalskri blöndu, eða...

"Ég vil sem minnst um þá segja að svo komnu máli.

Þetta á allt eftir að koma í ljós."

Jóhann Friðgeir hefur nú verið heima í hálft annað ár, reyndar "á flækingi milli Íslands og Ítalíu". Og landar hans hafa tekið honum vel.

"Ég get ekki kvartað undan Íslandsverunni. Satt að segja hef ég haft rosalega mikið að gera.

Þetta er vinna að útgáfum, eins og þessum diski, tónleikahald og svo jarðarfarir og giftingar.

Íslendingar eru mjög söngelskir. Mér er til efs að annars staðar tíðkist jafn mikill söngur við jarðarfarir og hér. Að minnsta kosti ekki á Ítalíu. Hér syngur maður þetta þrjú lög í jarðarför og það eru alls konar lög. Meira að segja Nessun dorma er sungið við jarðarfarir á Íslandi."

En nú vill Jóhann Friðgeir hleypa heimdraganum öðru sinni.

"Já, það er í bígerð að fara aftur utan.

Hér heima finnst mér ég ekki geta kallað mig óperusöngvara. Aðstæður eru bara þannig, að ég er fyrst og fremst söngvari og skemmtikraftur. Og það er ekki takmarkið að stoppa í því. Ég vil komast lengra. Þess vegna er stefnan sett á að komast út með fjölskylduna á næsta ári."

-Ítalíu?

"Já. Mér hafa boðizt fastráðningar í Þýzkalandi en ég hef hafnað þeim vegna launanna. Það lifir engin fjölskylda á þeim launum, sem þar eru í boði.

En með minni rödd gæti ég náð árangri á Ítalíu og þegar sungið er á ítölsku er númer eitt, tvö og þrjú að málið sé hundrað prósent."

-Jón Ásgeirsson segir að þú hafir burði til þess að syngja þig inn í íslenzk hjörtu og verða "Jóhann okkar". Hvernig líður þér með þá einkunn í nestismalnum?

"Mér finnst hún fyrst og fremst mikill heiður, sem ég á vonandi eftir að standa undir.

En eins og Jón bendir á þarf mikla og þrotlausa vinnu til þess að ná árangri. Ég veit að ég hef allt til þess og að framhaldið er undir mér komið.

Ég geri mér líka grein fyrir því, að þetta er stórgrýtt braut, en enginn dans á rósum."

Jóhann Friðgeir segir meiri mun á Ítölum og Íslendingum en sem nemur söng við jarðarfarir.

"Ítalir eru miklu heitari áheyrendur. Á Ítalíu hafa myndast biðraðir eftir tónleika, þar sem ég hef verið beðinn um eiginhandaráritanir og að senda myndir af mér. Þetta þekkist ekki hér heima.

Ég man eftir tónleikum á Ítalíu, þar sem ég endaði á Nessun dorma og varð að tvítaka aríuna. Það varð allt vitlaust í salnum.

Íslendingar eru miklu þyngri, þótt þakklátir séu. Á tónleikum hér heima söng ég Hamraborgina. Og ég veit að ég gerði það vel. En það var bara einn þriðji, sem stóð upp og hrópaði bravó. Hinir sátu sem fastast, eins og ekkert væri!

Á Ítalíu er það allt eða ekkert. Það er öðruvísi hér á Íslandi."

-Og nú bíður sönggyðjan eftir þér með opinn faðminn.

"Ég vil vera hógvær. Það er því bezt að segja sem minnst.

Ég vil að söngurinn tali mínu máli."

freysteinn@mbl.is