PÉTUR Kjartansson, formaður kjörnefndar Sjálfstæðisflokksins á Seltjarnarnesi, segir mikilvægt að byrja með rafrænar kosningar í sveitarstjórnarkosningum á næsta ári, þar sem öryggið sé meira en í kosningum með hefðbundnum hætti auk þess sem miklir...
PÉTUR Kjartansson, formaður kjörnefndar Sjálfstæðisflokksins á Seltjarnarnesi, segir mikilvægt að byrja með rafrænar kosningar í sveitarstjórnarkosningum á næsta ári, þar sem öryggið sé meira en í kosningum með hefðbundnum hætti auk þess sem miklir peningar séu í húfi hjá íslenskum hugbúnaðarfyrirtækjum.

Í prófkjöri sjálfstæðismanna á Seltjarnarnesi fyrir skömmu kusu 1.622 manns, þar af 1.085 rafrænt. Pétur segir að hjá þeim sem kusu rafrænt hafi enginn seðill verið ógildur en 55 af 537 hjá þeim sem kusu handvirkt. Hann segir að mjög mikið öryggi sé í rafrænni kosningu, kjörskráin sé mun öruggari en með gamla laginu og algjör leynd hvíli yfir kosningu hvers og eins. Þessi kosning á Seltjarnarnesi hafi gengið betur fyrir sig en áður og almenn ánægja hafi verið með rafrænar kosningar varðandi Reykjavíkurflugvöll og kosningu í miðstjórn Alþýðusambandsins.

Á 34. landsfundi Sjálfstæðisflokksins, sem fór fram ekki alls fyrir löngu, var m.a. samþykkt tillaga, sem ekki kom frá nefnd heldur einstaklingi á síðasta degi þingsins, þess efnis að landsfundurinn lýsti sig andsnúinn hugmyndum um að hætta að nota kjörseðla við almennar alþingis- og sveitarstjórnarkosningar. "Fundurinn telur að framkvæmd kosninga á Íslandi sé nær hnökralaus og engin rök séu til þess að breyta þeirri aðferð við kosningar, sem hingað til hefur verið notuð. Þvert á móti hafi hún sýnt sig að vera örugg, fljótvirk, traust og auðveld í framkvæmd, bæði fyrir kjörstjórnir og ekki síst kjósendur," segir í ályktuninni. Einn viðmælandi Morgunblaðsins segir að þetta sé dæmi um hvernig "vitlausar" tillögur nái fram að ganga. Annar bendir á að kertin hafi gagnast vel þar til ljósaperurnar hafi komið á markað og það þýði ekki að berjast gegn þróuninni auk þess sem miklir fjármunir séu í húfi. Sjálfstæðismenn virðast því ekki taka þessa ályktun alvarlega en "við sitjum uppi með vitleysuna", eins og einn viðmælandi orðaði það.

Pétur Kjartansson segir að sjálfstæðisfélögin í Hafnarfirði, Kópavogi og Garðabæ hafi skoðað hvernig rafræna kosningin hafi gengið fyrir sig á Seltjarnarnesi með það í huga að beita sömu aðferð í prófkjörum sínum. Íslensku hugbúnaðarfyrirtækin EJS og Skýrr hafi hannað kerfi sem sé síðan mikilvægt að láta reyna á í bæjarstjórnarkosningunum, ekki aðeins vegna þess að það sé öruggara og fljótvirkara en ríkjandi fyrirkomulag heldur vegna þess að hafi kerfið sannað sig á heimamarkaði sé auðveldara að selja það til útlanda.