LÍKLEGT er talið að skyndilegt haglél hafi verið ráðandi þáttur þegar Metro-flugvél Flugfélags Íslands hlekktist á í lendingu á Hornafirði á sunnudag.
LÍKLEGT er talið að skyndilegt haglél hafi verið ráðandi þáttur þegar Metro-flugvél Flugfélags Íslands hlekktist á í lendingu á Hornafirði á sunnudag. Þegar flugvélin kom inn til lendingar brast á él sem virðist hafa leitt til þess að vélin lenti með vinstra hjól um 7 metrum frá miðlínu og rann síðan til þegar flugmaðurinn hemlaði og reyndi að ná jafnvægi á brautinni.

Haukur Hauksson, varaflugmálastjóri, segir að notuð séu ákveðin mælitæki til að kanna hálku á flugbrautum og sambærilegir mælar og sú sem var á Hornafirði hafi verið notaðir áratugum saman hér á landi. Hálkumæling fer þannig fram að bíl er ekið eftir brautinni með mælitæki og síðan er hemlað til að kanna viðnámið. Mælingin á brautinni á Hornafirði á sunnudag fyrir lendingu Metro-vélarinnar sýndi að hálkuskilyrði voru á milli þess að teljast sæmileg og góð á brautinni, en voru heldur lakari eftir lendingu. Að sögn Hauks var hálkumælirinn á Hornafirði fluttur til Reykjavíkur og borinn saman við öflugra og nákvæmara mælitæki af annarri gerð sem notað er á Reykjavíkurflugvelli. "Og þeim bar nokkurn veginn alveg saman," segir Haukur.

Hann segir að flugbrautin á Hornafirði hafi bæði verið rudd og sópuð út að ljósalínu brautarinnar og síðan borinn á hana sandur, samkvæmt því sem venja er við slík skilyrði. Hins vegar sé oft erfitt, þegar snjór og ísing eru til staðar, að koma alveg í veg fyrir hálkubletti.

Vélin lenti tveimur metrum frá austurjaðri klæðningar

Samkvæmt mælingum á hjólförum eftir lendinguna lenti vélin 7,1 metra með vinstra hjól austan við miðlínu brautarinnar, þannig að hægra hjólið lenti um 2 metrum frá austurjaðri klæðningarinnar, en hún er um 30 metra breið. Haukur segir að ýmsar skýringar hafi komið upp varðandi orsakir þess að vélin rann til en élið sem skall á í aðfluginu sé væntanlega ráðandi þáttur í þeirri atburðarás og þá hafi sest snjófilma ofan á brautina.

"Og síðan var bremsumælt aftur eftir lendinguna og sú mæling sýndi nokkuð lakari skilyrði og voru þegar mælt var fyrir lendingu. Þannig að élið sem slíkt og hugsanlega einhver vindsveipur með því í lendingunni getur hafa haft einhver áhrif þarna," segir Haukur.

Að sögn Hauks er mjög svipaður búnaður notaður til hreinsunar og hálkumælinga á flugvöllum hérlendis, þar sem er reglubundið áætlunarflug. Þá er markvisst unnið að því að endurnýja snjóruðningstækin og ákveðið hafi verið fyrir nokkru að endurnýja snjóplóginn á flugvellinum á Hornafirði. Hann segir hins vegar að snjóruðningstækið á Hornafirði hafi ekki skipt sköpum í þessu tilviki.

Haukur segir að óhappið á flugvellinum á Hornafirði sé nú til rannsóknar hjá Rannsóknarnefnd flugslysa. Nefndin þurfi að fara yfir öll gögn í málinu og leggja fram sitt mat á orsökum óhappsins.