RÚMLEGA tvítugur maður hefur í Héraðsdómi Reykjavíkur verið dæmdur í 250 þúsund króna sekt til ríkissjóðs og sviptur ökurétti í tvö ár fyrir að aka undir áhrifum áfengis og á gangandi vegfaranda sem slasaðist.
RÚMLEGA tvítugur maður hefur í Héraðsdómi Reykjavíkur verið dæmdur í 250 þúsund króna sekt til ríkissjóðs og sviptur ökurétti í tvö ár fyrir að aka undir áhrifum áfengis og á gangandi vegfaranda sem slasaðist.

Maðurinn játaði fyrir dómi að hafa ekið að næturlagi í júlí undir áhrifum áfengis frá Seilugranda í Reykjavík í miðborgina, en við mælingu reyndist vínandamagn í blóði vera 2,03 prómill. Hann hélt því hins vegar fram að kona, sem fyrir bifreiðinni varð á mótum Hafnarstrætis og Pósthússtrætis, hefði gengið í veg fyrir bifreiðina og bæri ábyrgð á slysinu að hluta. Framburður vitna var með öðrum hætti og því þótti ákeyrslan hafa verið afleiðing af óvarlegum akstri mannsins um gatnamótin.

Konan, sem fædd er 1982, hlaut kúpubotnsbrot og blæðingu inn á vinstra eyra, sem olli heyrnartapi. Við ákeyrsluna kastaðist hún í götuna og skall á hnakkann. Hlaut hún við þetta brot á höfuðkúpubotni sem leiddi til heyrnarskerðingar, svimakasta og truflunar á bragðskyni. Fyrir dómi bar hún að einkennin væru óðum að ganga til baka.

Maðurinn á að baki nokkurn sakaferil sem nær aftur til ársins 1994, er hann var 16 ára. Honum hefur verið refsað sex sinnum fyrir umferðarlagabrot, tvisvar sinnum fyrir fíknilagabrot og fjórum sinnum fyrir hegningarlagabrot.

Dómurinn var kveðinn upp af Pétri Guðgeirssyni héraðsdómara. Verjandi ákærða var Örn Clausen hrl. Sturla Þórðarson sótti málið fyrir ákæruvaldið.