Einar Jónsson fæddist á Setbergi í Fellum í N-Múlasýslu 7. júní 1918. Hann lést á Landspítala í Fossvogi mánudaginn 12. nóvember síðastliðinn. Einar var einn þrettán barna Katrínar Jónsdóttur, f. 28. maí 1889, d. 5.mars 1955, og Jóns Friðriks Guðmundssonar, f. 18. feb. 1881, d. 20. mars 1964, en 12 þeirra komust á legg. Einar átti einnig einn hálfbróður samfeðra, Karl og er hann sá eini sem nú er á lífi af þessum hópi. Eftirlifandi eiginkona Einars er Guðlaug Lillý Ágústsdóttir, f. 16. ágúst 1918. Foreldrar Guðlaugar voru Ingibjörg Einarsdóttir og Friðrik Ágúst Hjörleifsson. Börn Einars og Guðlaugar Lillýar eru: 1) Gunnar, f. 18. maí 1948, kvæntur Guðrúnu Sigríði Kristjánsdóttur. Börn þeirra eru Elísabet, Reynir og Birkir og synir Guðrúnar og Jóns Ólafssonar, Kristján Ingi og Ólafur Daníel. Kona Ólafs Daníels er Jóna Sigurðardóttir. 2) Hjörleifur, f. 5. apríl 1954, kvæntur Sigurbjörgu Sigurðardóttur. Börn þeirra eru Vala, Anna og Einar. Maður Völu er Óliver Hilmarsson. 3) Þóra, f. 5. júní 1955, gift Helga Guðbjörnssyni. Börn þeirra eru Róbert Styrmir og Linda. Sambýliskona Róberts er Elín Heimisdóttir og sonur þeirra Alexander Fannar. Sambýlismaður Lindu er Björn Eiríksson.

Á yngri árum vann Einar við ýmis störf, aðallega við landbúnað, sjósókn, fiskverkun og bar út póst á Héraði. Hann útskrifaðist sem búfræðingur frá Bændaskólanum á Hólum árið 1941. Seinna hóf hann nám við Iðnskólann á Ísafirði og lærði trésmíðar hjá Óskari Ólafssyni í Stykkishólmi og unnu þeir saman við smíðar víða á Vesturlandi. Einar vann lengst af við smíðar og viðhald í Hafnarfjarðar Apóteki og m.a. að uppbyggingu Hafnaborgar.

Útför Einars fór fram í kyrrþey.

Einar Jónsson var tengdafaðir minn í rúmlega 25 ár. Ég átti ekki því að venjast að karlmenn tækju þátt í svo kölluðum inniverkum til jafns eða á móti konum sínum. Því kom það mér á óvart fyrstu dagana sem ég dvaldi þar á heimilinu, þegar hann kom heim í hádeginu til að útbúa snarlmáltíð handa mér, fullorðinni stúlkunni sem hafði séð um mig sjálf í nokkur ár. Þetta var maður sem var vanur að dekra við börnin sín og nú var ég orðin ein af þeim. Hann kynnti fyrir mér rétti sem ég hafði ekki prófað áður, en oft síðar, t.d. fiskbúðing í dós með bökuðum baunum og fleira á fljótlegu nótunum.

Ég var lengi að venjast því að hann kallaði börnin mín hrúgöld þar til þau fóru að tala, hann var frekar stríðinn, en það fyrirgafst fljótt. Hann hafði afar góða nærveru, sagði vel frá og var notalegt að sitja í rólegheitum og heyra frásagnir af æsku hans og uppvexti á Ísafirði og austur á Héraði. Einnig var hann vel ættfróður. Á heimilinu var gott safn bóka og fletti hann því upp sem á vantaði og bætti um betur næst þegar við hittumst.

Fáar kynslóðir hafa upplifað eins miklar breytingar og þeir sem fæddir eru í byrjun síðustu aldar. Foreldrar Einars voru leiguliðar á jörðinni Setbergi í Fellum, en árið 1921 ákváðu eigendur jarðarinnar að selja ættingjum sínum jörðina og var þá ekki annað jarðnæði að hafa. Leystist heimilið upp og voru systkinin alin upp víða á Héraði og einnig á Ísafirði. Einar fylgdi föður sínum næstu 2 árin, en um vorið 1923 fór hann til móðursystur sinnar Þóru og manns hennar Bjarna Hávarðarsonar sem bjuggu á Ísafirði. Þóra var fyrsta íslenska konan sem lærði hjúkrun og rak um tíma sjúkrahúsið á Ísafirði fyrir eigin reikning. Þegar fjárframlög dugðu ekki lengur fyrir rekstrinum söðlaði hún um og hóf rekstur veitingahúss ásamt billjardstofu. Einar sagði sjálfur stundum svo frá að hann hefði verið alinn upp á billjarðstofu og voru þetta góðir tímar í lífi lítils drengs, enda naut hann ástríkis hjá móðusystur sinni og jafnframt frjálsræðis. Bergrín systir hans ólst einnig upp á Ísafirði og eignaðist seinna með Gísla manni sínum 3 dætur, Láru, Katrínu og Maríu og sýndu Bergrín og dætur hennar Einari alltaf mikla ræktarsemi. Einnig var Björn bróðir hans alinn upp á Ísafirði og systur hans þær Sigríður og Þóra komu einnig vestur og var alltaf kært með þeim systkinum. Eftir fermingu fór Einar aftur austur á Hérað og þá kynntist hann betur þeim systkinum sínum sem þar bjuggu. Á þessum árum voru fermdir einstaklingar teknir í "fullorðinna manna tölu" og eftir 14 ára aldur sá Einar að mestu um sig sjálfur. Lengi vel var hann heimilisfastur á Litla Sandfelli í Skriðdal. Á þessum árum var hann m.a. póstur og átti kolsvartan hund sem hét Bjartur. Einhvern veginn hef ég á tilfinningunni að hann hafi fengið góða yfirsýn yfir fólk og bæi á Héraði á þessum árum og það síðan lifað í minningunni alla tíð. Einar hafði gaman af ferðalögum um Ísland og lagði ýmislegt á sig til þess að kynnast landinu. Sjálfur sagði hann frá því þegar hann, ungur að árum, rak stóð úr Skagafirði austur á Hérað og var greinilega stoltur af. Einnig frá ferðalagi þeirra systkina, Gunnars og Sigríðar er þau fóru fótgangandi frá Vík í Mýrdal austur á Hérað. Eftir að Einar tók bílpróf urðu ferðalögin um landið fleiri og auðveldari.

Þau ár sem við bjuggum í Svíþjóð komu Einar og Lillý nokkrum sinnum í heimsókn og árið 1982 fórum við í þriggja vikna ferðalag á bíl með tjald um Evrópu. Við fórum m.a. til Sviss, Parísar, Versala og út á Bretagne skaga og sáum hvaðan frönsku Íslandssjómennirnir komu. Ég held honum hafi þótt við fara heldur hratt yfir, hann hefði viljað dvelja lengur við og skynja hvern stað meira en úr bílglugga eða af tjaldstæði. Hefði sjálfsagt farið fótgangandi um Evrópu hefði hann haft tækifæri til á sínum yngri árum. Engu að síður naut hann ferðarinnar og rifjaði oft upp ýmslegt viðvíkjandi þeirri ferð.

Árið 1946 þegar Einar var við smíðar á Lundi í Lundarreykjadal ásamt Óskari vini sínum kynntist hann eftirlifandi eiginkonu sinni, en hún vann þá í sumarbústað í Lundarhólmanum. Fyrstu búskaparárin bjuggu þau Einar og Lillý í kjallaranum hjá Önnu systur Lillýjar í Hafnarfirði. Eftir það vann Einar lengst af við smíðar og viðhald hjá Sverri Magnússyni apótekara í Hafnarfjarðar Apóteki og síðustu árin m.a. við uppbyggingu Hafnarborgar.

Einar og Lillý byggðu tvisvar sinnum, fyrst í Kópavogi og seinna í Garðabæ. Hann sá að mestu leyti um það sjálfur með hjálp vina og skyldmenna eins og tíðkaðist þá. Í Kópavogi bjó fjölskyldan 1956 til 1969 en svo í Garðabænum frá 1971. Þar á milli tímabundið í Hafnarfirði. Lagði hann mikla vinnu í að koma upp görðum við húsin, plantaði, hirti og hlúði að svo lengi sem heilsan leyfði.

Það voru mikil forréttindi að eiga Einar fyrir afa. Eftir að hann komst á eftirlaunaaldur og hafði rýmri tíma tók hann til við að rækja afahlutverkið með miklum ágætum, tefldi, spilaði og keypti snúða ýmist með súkkulaði eða glassúr eftir því hvaða barn var um að ræða. Börnin okkar Vala, Anna og Einar nutu þess í ríkum mæli og ekki síður við, sem aldrei þurftum að vera frá vinnu vegna veikra barna eða keyra milli staða í hádeginu, alltaf voru afi og amma boðin og búin að koma til hjálpar. Fyrir rúmlega ári tók svo heilsu hans að hraka og náði hann sér aldrei til fulls líkamlega, en andinn var alltaf sá sami og var gaman að sitja hjá honum og ræða gamla og nýja tíma alveg fram á síðasta dag. Minningin verður ekki frá okkur tekin sem þekktum hann. Hans er sárt saknað.

Sigurbjörg Sigurðardóttir.

Mikið verður tómlegt að koma í heimsókn í Reynilundinn og hitta afa ekki fyrir, sitjandi í stóra brúna leðurstólnum sínum. Ég man eftir honum, sitjandi í þessum sama stól, alveg frá því að ég var lítil. Þá spiluðum við stundum rússa og þjóf á fótskemlinum. Ég held að afi hafi nú oftast leyft mér að vinna.

Þegar fjölskyldan mín fluttist heim frá Svíþjóð bjuggum við einn vetur hjá afa og ömmu í Reynilundinum. Þá sagði afi mér stundum frá því hvernig var hjá honum þegar hann var að alast upp. Ég man sérstaklega eftir því þegar hann lýsti því þegar hann fór í heimsókn til fjölskyldunnar sinnar á Egilsstöðum með hjól sem frænka hans hafði gefið honum. Hann hélt að það hefði verið fyrsta hjólið sem kom á Egilsstaði. Honum fannst skemmtilegast að hjóla á brúargólfinu, enda var það slétt, en ekkert nema malarvegir á þeim tíma á Egilsstöðum.

Stundum þegar var vont veður kom afi og sótti mig í tónlistarskólann. Þá komum við oft við í Gullkorninu og keyptum súkkulaðisnúða og vínartertu og fórum með heim til ömmu til að hafa með kaffinu. Seinna komum við Óliver stundum í heimsókn í kvöldkaffi sem er alltaf stundvíslega klukkan 10.10 í Reynilundinum. Við sögðum afa frá síðustu ferðalögum okkar um landið og alltaf þekkti hann til, enda hafði hann ferðast mikið og lesið sér til um land og þjóð.

Systkini mín, Anna og Einar, voru líka mikið í Reynilundinum og var afi stundum held ég í fullu starfi við að keyra þau um Garðabæinn á Opelnum, enda voru þau dugleg að láta hann dekra við sig. En upp á síðkastið var afi orðinn mjög veikur. Eftir langa ævi og mikla erfiðisvinnu var hjartað farið að gefa sig, og oft voru læknarnir búnir að bjarga honum af ystu nöf. Við vorum öll mjög þakklát fyrir að fá að hafa afa aðeins lengur, en ég held að hann hafi verið orðinn þreyttur á að vera svona veikur.

Okkur Óliver finnst mjög erfitt að vera svona fjarri fjölskyldunni þegar svona stendur á, en við sendum ykkur hugheilar samúðarkveðjur og kveikjum á kerti fyrir afa í glugganum hér í Pasadena.

Vala Hjörleifsdóttir.

Sigurbjörg Sigurðardóttir.