Trausti Björnsson fæddist í Brennu í Nesi í Norðfirði 6. júlí 1925. Hann lést á Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað 12. nóvember síðastliðinn og fór útför hans fram frá Norðfjarðarkirkju 19. nóvember.

Elsku afi. Þegar við settumst niður til að skrifa þessar minningar um þig þá vissum við bara einfaldlega ekki á hverju við ættum að byrja. Það er svo margt gott sem við gætum sagt um þig og svo margar skemmtilegar sögur sem þú hefur sagt okkur krökkunum í gegnum tíðina.

Eins og söguna um græna köttinn sem bjó uppi á lofti hjá þér, sem þú sagðir okkur aftur og aftur og okkur þótti hún alltaf jafn skemmtileg. Enn varstu að segja yngstu barnabörnunum þessa sögu sem þú sagðir okkur þegar við vorum litlar og þau voru jafn spennt og við yfir henni.

Alltaf þótti okkur gaman að fá þig í heimsókn, því ætíð varstu að segja okkur frá fólki sem þú hafðir dáleitt og sýndir okkur alls konar töfrabrögð. Eins og þegar allt í einu var tíkall á bak við eyrað á þér eða í skónum. Okkur þótti það nú líka aldeilis flott að þú gætir hreyft eina tönnina þína upp og niður. Það vildum við sjá aftur og aftur.

Alltaf varstu eitthvað að gantast í okkur og stríða og það þótti okkur nú aldeilis ekki leiðinlegt. Þegar það voru matarboð eða jólaboð og þú búinn að borða alltof mikið þá fórstu að trimma og alltaf vorum við krakkarnir komin á eftir þér í röð að trimma í stofunni.

Allar sögurnar sem þú ert búinn að segja í gegnum ævina eiga eftir að lifa og fólk á eftir að segja þessar sögur margoft.

Það er sko ekki hægt að segja að þú hafir ekki lifað lífinu lifandi, því þúi gerðir það svo sannarlega.

Allt það sem þú hafðir upplifað og allar ferðirnar með togurunum til útlanda og fleira sem þú sagðir okkur frá.

Þú kvartaðir aldrei þótt eitthvað væri að hjá þér, ekki einu sinni þegar þú varst sem veikastur, þá varstu sterkur allan tímann og við erum öll stolt af þér.

Elsku afi, þín er sárt saknað af okkur öllum hér og við söknum þess að fá ekki að hitta Trausta afa okkar lengur, en við vonum að þér líði vel þar sem þú ert núna og við elskum þig öll.

Sigurveig, Sara Lind

og Sandra Sif.

Sigurveig, Sara Lind og Sandra Sif.