Halldór Hansen og Hjálmar H. Ragnarsson, rektor Listaháskóla Íslands. Fyrir aftan þá standa Árni Tómas Ragnarsson læknir og Björn Bjarnason sem vottuðu gjafarsamkomulag Halldórs og Listaháskólans.
Halldór Hansen og Hjálmar H. Ragnarsson, rektor Listaháskóla Íslands. Fyrir aftan þá standa Árni Tómas Ragnarsson læknir og Björn Bjarnason sem vottuðu gjafarsamkomulag Halldórs og Listaháskólans.
HALLDÓR Hansen barnalæknir hefur ákveðið að gefa Listaháskóla Íslands tónlistarsafn sitt, sem er eitt stærsta slíkra safna á Íslandi. Auk safnsins ánafnar Halldór skólanum, eftir sinn dag, fasteign sína á Laufásvegi 24.
HALLDÓR Hansen barnalæknir hefur ákveðið að gefa Listaháskóla Íslands tónlistarsafn sitt, sem er eitt stærsta slíkra safna á Íslandi. Auk safnsins ánafnar Halldór skólanum, eftir sinn dag, fasteign sína á Laufásvegi 24.

Safn hans var afhent skólanum við hátíðlega athöfn í gærdag.

Við athöfnina í gær undirrituðu Halldór Hansen og Hjálmar H. Ragnarsson rektor samkomulag um afhendingu safnsins og stofnun styrktarsjóðs í nafni Halldórs. Björn Bjarnason menntamálaráðherra flutti ávarp og nemendur í tónlistardeild Listaháskólans fluttu tónlist.

Átta þúsund hljómplötur, bækur og myndir í safni Halldórs

Halldór Hansen er þjóðþekktur barnalæknir og starfaði lengi á Heilsuverndarstöðinni við Barónsstíg. Hann er ennfremur mikill áhugamaður um tónlist og plötusafn hans telur um átta þúsund hljómplötur og geisladiska auk bóka um tónlist, myndbanda og annarra hljóðritana. Við athöfnina í gær kynnti Hjálmar H. Ragnarsson listaháskólarektor samkomulagið sem skólinn og Halldór Hansen gera með sér. Við undirritun þess tryggir skólinn að að tónlistarsafn Halldórs verði notað í þágu nemenda skólans, kennara og annarra þeirra sem leggja stund á rannsóknir og kynningu á tónlist. Jafnframt stofnar skólinn styrktarsjóð er ber nafn Halldórs Hansens. Hlutverk sjóðsins verður að byggja upp og styðja tónlistarsafn skólans. Jafnframt veitir sjóðurinn árlega styrk í nafni Halldórs Hansens til eins af tónlistarnemendum skólans sem náð hefur framúrskarandi árangri að mati sjóðsstjórnar. Sjóðurinn tekur við fasteign Halldórs eftir hans dag og mun nýta hana eða andvirði hennar í þágu starfsemi sjóðsins.

Hin beina og milliliðalausa tjáning dró hann að sönglistinni

Í ávarpi sínu þakkaði Björn Bjarnason menntamálaráðherra Halldóri þessa höfðinglegu gjöf og óskaði Listaháskóla Íslands til hamingju. Hann sagði frá kynnum Halldórs af tónlistinni í bernsku og ást hans á sönglistinni þegar fram liðu stundir, og vitnaði í orð Halldórs sjálfs: "Ég held að það sé þessi beina og milliliðalausa tjáning, sem dró mig að söngnum."

Björn sagði að Halldór væri hlustandi sem hefði gegnt einstöku og skapandi hlutverki með aðstoð sinni við íslenska söngvara og með því að stuðla að því að hingað til lands hefðu komið margir vina hans úr röðum heimsþekktra tónlistarmanna. "Við viljum að þannig sé búið um hnúta í Listaháskóla Íslands, að nemendur skólans geti hlotið menntun sem stenst samanburð við það besta, og gerir þeim kleift að njóta sín í hinu opna alþjóðlega samfélagi lista og menningar. Sá árangur næst ekki nema gerðar séu kröfur, sýnd umhyggja og hvatning. Starfað sé af sömu hógværð í krafti mikillar þekkingar og einkennt hlut Halldórs Hansens í íslensku tónlistarlífi."

Hjálmar H. Ragnarsson rektor þakkaði Halldóri gjöfina, og sagði að nú þegar yrði hafinn undirbúningur að því að flokka og skrá safnið svo það geti sem fyrst orðið aðgengilegt þeim sem koma til með að nota það. Hann sagði að safnið yrði hluti af bókasafni Listaháskólans, en að það yrði merkt sérstaklega sem safn Halldórs Hansens. Hann sagði styrktarsjóðnum sem stofnaður verður, ætlað að byggja upp og bæta kost safnsins, auk þess sem úr honum rynni árlega styrkur í nafni Halldórs til eins tónlistarnema við skólann, sem náð hefði framúrskarandi árangri í námi sínu.

Hefur þegar lagt mikið af mörkum

Halldór Hansen fæddist í Reykjavik árið 1927. Hann stundaði nám á Íslandi, fyrst við Menntaskólann í Reykjavík og síðan við læknadeild Háskóla Íslands. Að loknu námi hér heima fór hann til Bandaríkjanna þar sem hann sérhæfði sig í barnalækningum. Heimkominn réðst hann til starfa við barnadeild Heilsuverndarstöðvarinnar í Reykjavík sem hann veitti forstöðu frá 1961 þar til hann lét af störfum fyrir nokkrum árum. Halldór hefur allt frá æskuárunum fylgst náið með tónlistarlífinu, bæði hér heima og í helstu löndum Evrópu og í Bandaríkjunum, og þannig kynnst mörgum þeim söngvurum og hljóðfæraleikurum sem staðið hafa fremst á sínu sviði. Fyrir milligöngu hans hefur margt af þessu fólki fengist til að heimsækja Ísland og haldið hér tónleika og kennt á námskeiðum.

Halldór hefur þannig gegnt lykilhlutverki í því að tengja Ísland við hið alþjóðlega tónlistarlíf og um leið átt þátt í því að hækka þær viðmiðanir sem íslenskir tónlistarmenn mæla sig við. Halldór hefur alla tíð verið íslenskum söngvurum mjög innan handar með ráðleggingar og uppörvun hvað varðar hvaðeina sem snertir sönglistina og komið þeim í kynni við góða kennara erlendis til að sækja sér framhaldsmenntunar.

Halldór Hansen er ekki tónlistarmaður í eiginlegum skilningi orðsins. Hann hvorki syngur né leikur á hljóðfæri, stjórnar ekki tónlist né semur. En sem tónlistarunnandi þykir hann hafa lagt meira af mörkum til íslensks tónlistarlífs en þekkist meðal venjulegra tónlistarunnenda. Yfirburðaþekking hans á tónlist hefur verið fjölmörgum ómetanlegur brunnur og óeigingjarnt starf hans í þágu íslenskra tónlistarmanna og íslenskrar tónlistar verður seint að fullu metið.

Þegar búið var að undirrita samkomulag Listaháskólans og Halldórs, steig hann í pontu og óskaði eftir að fá að leika fyrir viðstadda lítið lag úr safni sínu í flutningi kærs vinar, hins mikla franska söngvara Gérards Souzay. Halldór valdi Nacht und Träume eftir Schubert, og var það mál manna að það vel valda sýnishorn hafi gefið vísbendingar um einstakt verðmæti þess mikla sjóðs tónlistar sem Halldór hefur nú lagt í hendur Listaháskóla Íslands.