Sigurður Magnússon
Sigurður Magnússon
Afl sjávarins mætti nýta, segir Sigurður Magnússon, til raforkuframleiðslu.

Í FRÉTTUM sjónvarpsins mánudaginn 27. ágúst 2001 sagði þulur frá að íhugað væri að stækka álverið í Straumsvík. Í morgunfréttum útvarps (rás 1) var fréttin ýtarlegri þar sem talað var um að reisa þyrfti þrjá kesrskála til viðbótar svo framleiðslan ykist. Enn fremur eru hugleiðingar um stækkun álversins í Hvalfirði.

Þá koma upp spurningar um raforku til álveranna.

Sjávarfallavirkjanir eru ótæmandi

Sjávarfallavirkjanir eru vistvænar og vænlegastar til að ná í ómælanlegt afl úr föllum sjávar. Í Sjómannablaðiunu Víkinmgi (8. tölublað 1986, bls. 232-237) skrifar Sven-Aage Malmberg, merkilega grein sem hann nefnir: "Hafstraumar við Íslandsstrendur." Í grein þessari kemur ýmislegt fróðlegt fram. Þar stendur m.a.: "Alþjóðahafrannsóknarráðið var stofnað 1902 og stuðlaði ráðið mjög að auknum hafrannsóknum á norðanverðu Atlantshafi. Íslendingar gengu í samtökin 1938." Síðar í greininni segir: "Árið 1947 hefja Íslendingar sjálfir mælingar á ástandi sjávarins og strauma við strendur landsins. Mælingar voru gerðar á vegum fiskideildar atvinnudeildar háskólans, sem hóf starfsemi sína 1937." Einnig segir hann í greininni að dr. Unnsteinn Stefánsson hafi stundað mælingar á árabilinu 1949 til 1960. Í bókinni "Hafið" skrifuð af dr. Unnsteini Stefánssyni árið 1999 á bls. 293 hefst ritgerð um sjávarföll og orsakir þeirra. Ekki er unnt í stuttri grein að kafa djúpt í ritgerðina en benda má á að straummælingar hafa verið gerðar á nokkrum stöðum m.a. í Hvammsfirði. Þar segir (bls. 313): "Hliðstæðum nálgunarreikningum var beitt (Unnsteinn Stefánsson og Pétur Þorsteinsson) til að áætla rennsli um Hvammsfjarðarröst. Yfirborðsflatarmál Hvammsfjarðar er um 350 ferkílómetrar. Samkvæmt Leiðsögubók fyrir sjómenn við Ísland (1949), svo og upplýsingum frá vita- og hafnarmálastjóra og forstöðumanni Sjómælinga Íslands, var áætlað að meðalmismunur flóðs og fjöru sé 2,5 m í stórstreymi en 1,0 m. Í smástraumi og þverskurðarflatarmál sundsins þar sem það er þrengst við Steinaklett 7.500 fermetrar." Það er mikið afl sem má fá í svona straumsundum með svo miklu vatnsmagni. Margir tala um að sjávarfallavirkjanir séu þeim annmörkum háðar að um fallaskipt sé straumlaust í viðkomandi sundi.

Fallaskipti!

Vilji orkuveitur beisla hafstraumana sem streyma með landinu inn og út flóa og firði þarf að líta á strönd landsins í heild. Sem dæmi þegar háflóð er í Reykjavík er enn að falla að í Hvammsfirði og þegar haflóð er í Hvammsfirði er enn að falla að í Hrútafirði. Þegar háflóð er orðið í Hrútafirði er komið útfall í Hvammsfirði. Til að auka krafta útfallsstraumsins í Hvammsfirði mætti láta útfallsstraum Hrútafjarðar falla í Hvammsfjörðinn með tilheyrandi mannvirkjum. Þar þyrftu að koma jarðgöng á milli fjarðanna. Vissulega verður að byggja mikil mannvirki til að beisla hafið. En þar er óþrjótandi vatn og vatnsmagn sem fer kerfisbundið eftir afstöðu tungls og sólar við jörðina. Einnig þarf að byggja á einkennum sjávarfallanna.

Dæmi um virkjunarstaði

Fyrst má nefna þann stað sem næstur er álverunum hér á suðvesturhorninu eru. Þar mætti sem best virkja Kollafjörð norðan Viðeyjar, firðina í Hvalfirði, mynni Borgarfjarðar, síðan kemur Breiðafjörður með urmul fjarða þar sem Hvammsfjörður er sennilega aflmestum, sérstaklega ef hann yrði tengdur Hrútafirði. Í þessari upptalningu hef ég sleppt sjávarröstunum sem eru við hvert annnes og þeirri stærstu vestanlands sem er Látraröstin (hún er mjög áhugaverður aflgjafi). Með þessum hugleiðingum vil ég vekja athygli á afli sjávarins sem mætti nýta til raforkuframleiðslu.

Höfundur er fyrrverandi yfirrafmagnseftirlitsmaður.