[ Smellið til að sjá stærri mynd ]

Þorsteinn Elton Jónsson fæddist í Reykjavík 19. október 1921. Hann lést á Landspítalanum við Hringbraut 30. desember síðastliðinn. Foreldrar hans voru Annie Florence Wescott Jónsson, f. 23. maí 1893, d. 10. júní 1936, og Snæbjörn Jónsson bóksali, f. 19. maí 1887, d. 9. mars 1978. Bróðir Þorsteins er Bogi Jón Jónsson skipstjóri, f. 6. apríl 1926. Systur Þorsteins eru Betty Amelia Lillie, f. 7. ágúst 1924, og Sigríður Kristín Lister hjúkrunarfræðingur, f. 17. október 1933.

Fyrsta kona Þorsteins var Marianne, þau giftust 1946 og skildu 1952. Sonur þeirra er Andrew Elton Leif, f. 26. mars 1949, giftur Lyn. Önnur kona Þorsteins var Margrét Þorbjörg Thors, f. 16. janúar 1929. Þau giftust 1952 og skildu 1967. Börn þeirra eru: Ingibjörg, f. 27. desember 1952, d. 22. júní 1998, gift Páli Herberti Þormóðssyni, f. 1. janúar 1951, Anna Florence, f. 2. mars 1954, gift Paul Masselter, f. 13. maí 1954, Margrét Þorbjörg, f. 9. febrúar 1956, gift Aðalgeiri Arasyni, f. 22. apríl 1957, Ólafur Tryggvason, f. 13. júlí 1960, í sambúð með Auði Sigríði Kristinsdóttur, f. 1. október 1962. Þriðja kona Þorsteins var Katrín Þórðardóttir, f. 6. september 1941, d. 21. september 1994. Þau giftust 1969. Sonur þeirra er Björn Davíð, f. 17. júlí 1971, í sambúð með Kristrúnu Bragadóttur, f. 11. ágúst 1976. Þorsteinn á einnig Hall Örn Jónsson, f. 14. ágúst 1980. Móðir hans er Ingunn Hallsdóttir, f. 6. apríl 1947.

Þorsteinn lifði viðburðaríka ævi eins og hann tíundaði í ævisögum sínum sem hann skrifaði sjálfur. Þær voru "Dansað í háloftunum", 1992, "Viðburðarík flugmannsævi", 1993, sem og "Dancing in the Skies", 1994 og "Lucky no. 13", 1995. Þorsteinn hóf flugnám hjá Konunglega breska flughernum í apríl 1940 og lærði til orrustuflugmanns. Hann lauk atvinnuflugmannsprófi á Englandi 1946. Þorsteinn var orrustuflugmaður í breska flughernum frá apríl 1940 fram í desember 1946 og flaug aðallega Hurricane-, Spitfire- og Mustang-orrustuvélum fram til 1945 en síðan Douglas DC-3 fram í desember 1946. Ýmsum öðrum flugvélum flaug hann á löngum ferli og má þar á meðal nefna Douglas DC-4, DC-6B, DC-8 og Boeing 747. Frá janúar 1947 fram í maí 1967 var Þorsteinn flugstjóri hjá Flugfélagi Íslands og Loftleiðum, en var í leyfi frá þeim störfum 1957 til 1960 og flaug þá sem flugstjóri hjá belgíska flugfélaginu Sabena, aðallega í Afríku. Þorsteinn var flugstjóri hjá Transavia í Hollandi 1968-1970, þar af yfirflugmaður í Biafra-fluginu 1968-1970. Alls fór hann 423 ferðir með hjálpargögn til nauðstaddra í Biafra. Frá 1970 var Þorsteinn flugstjóri hjá Cargolux í Lúxemborg. Hann hætti störfum árið 1987 og hafði þá flogið 36 þúsund flugtíma. Þorsteini var margt til lista lagt og þá ekki síst myndlist og ritlist, en hann var afbragðs listmálari og góður penni eins og ævisögur hans bera með sér. Hann var kylfingur af miklum áhuga, stang- og skotveiðimaður mikill og útivistar- og íþróttamaður góður. Þorsteinn hafði unun af ferðalögum og fiskveiðum og átti enda hluta í trillum sem hann gerði út með vinum sínum til margra ára.

Þorsteinn var formaður Félags íslenskra atvinnuflugmanna nokkrum sinnum á tímabilinu 1945-1956. Hann var hvatamaður að stofnun Flugbjörgunarsveitarinnar og fyrsti formaður hennar 1956-1957. Þá var hann formaður Félags atvinnuflugmanna í Lúxemborg 1974-1986.

Útför Þorsteins fer fram frá Hallgrímskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.30.

Ég losnað hefi jarðarfjötrum frá í frelsi kannað leiðir himingeims mót sólu klifrað, klofið loftin blá og komist inn í fögnuð æðra heims. (John G. Maggee, flugliðsforingi.)

Steini flug. Maðurinn hennar Möbbu móðursystur. Fyrstu minningarnar frá Þingvöllum þegar hann geystist á eftir okkur skríkjandi krakkaskaranum í ljótukallaleik. Við flugum æpandi yfir þúfurnar, stikluðum hraðar en fót festi yfir í litla hólma þar sem við vorum stikk. Hann vomaði ískyggilegur á bakkanum og beið þess að næsta fórnarlamb hætti sér í land. Rosalega spennandi pabbi - enginn annar nennti að leika svona við okkur. Hann fór líka með okkur út á bát, kenndi okkur að veiða, gogga og rota silunginn og gera að. Og það var hann sem tók kvikmyndirnar af okkur á vegasaltinu um miðja síðustu öld, þar sem fjórir, fimm krakkar héngu hver utan í öðrum á hvorum enda, og tókust allir hátt á loft þegar plankinn skall í jörð hinum megin. Í þá daga átti enginn kvikmyndavél nema Steini flug.

Hann var gersamlega sjálfsagður hluti tilverunnar, bara til fyrir okkur, eins og börnum finnst yfirleitt um þá fullorðnu. Löngu síðar áttaði maður sig á því, að hann átti aldeilis líf óháð okkur! Hægt og hægt rann það upp fyrir manni hver þessi maður var. Hvílíku ævintýralífi hann lifði. Litríkur lífsnautnamaður, ómótstæðilegur sjarmör. Hugaður og ósérhlífinn lagði hann líf sitt ítrekað í stórhættu fyrir aðra án þess að hafa nokkur orð þar um. Óljósar fregnir bárust af því, að hann hefði barist í Royal Air Force í stríðinu, en enginn í fjölskyldunni hafði hugmynd um að kóngurinn hefði sæmt hann orðu fyrir hugprýði - né yfirhöfuð nokkur afreksverk hans, því hann var ekki að hafa orð á þessu. Hann lifði í núinu og framtíðinni og var lítið að velta upp fortíðinni, hvað þá að stæra sig af dáðum sínum. Þess vegna prísum við okkur sæl fyrir bækurnar hans tvær, þar sem hann segir lífssögu sína af slíku látlausu hispursleysi og húmor, að það hlýtur að heilla hvern mann - og örugglega hverja konu - upp úr skónum.

Einhver albesta sagan í fyrri bókinni segir frá því þegar ungu flugmönnunum leiddist að bíða eftir aksjón í flughernum, og brugðu sér í flugtúr á sunnudagsmorgni í blíðskaparveðri. Þeir gátu ekki á sér setið að skoða stúlkurnar á baðströndinni og þyrla yfir þær svolitlum sandi í leiðinni, en varð ekki um sel þegar þeir geystust fram hjá gömlum fyrirmanni í einkennisbúningi flughersins, borðalögðum frá öxlum niður á úlnliði. Nú var eins gott að láta sig hverfa umsvifalaust. Það dugði ekki til, því þegar heim kom var þeim snúið við á vellinum til að svara til saka í höfuðstöðvum flughersins! Nú voru þeir sannfærðir um að flugferlinum væri lokið áður en hann var byrjaður, og lögðu í hann heldur framlágir. En veðrið var dásamlegt og útsýnið svo fallegt að það var freistandi að leika sér svolítið, þetta var hvort sem er síðasta flugferðin. Svo þeir fara að teikna mynstur í akrana með hjólunum á litlu tvíþekjunni og syngja svo hástöfum að þeir taka ekki eftir símalínunni sem flækist utan um annan vænginn, fyrr en hún rykkir í og rífur vænginn um leið og hún slitnar. Nú voru góð ráð dýr, því það var eiginlega ekki hægt að mæta í höfuðstöðvarnar með símalínu vafða um vænginn. Steini reynir að skríða út á vænginn til að losa línuna, fallið niður var hvort eð er ekki svo hátt eins og menn muna. En þetta gengur ekki, svo ekki er um annað að ræða en lenda. Þeir slá sér niður á engi og tekst að losa draslið af, en þegar þeir líta upp er vélin umkringd forvitnum kúm, sem sleikja hana hátt og lágt og engin leið að fá þær með góðu til að færa sig. Nú verður Steini að reka kýrnar veifandi beltinu sínu og æpandi hástöfum meðan félaginn kemur vélinni í loftið. Steini hleypur svo á eftir og vegur sig um borð. Þegar sá gamli borðalagði hefur þungbrýnn talið upp fyrir þeim þann tug paragraffa í reglum um flug og flugöryggi sem þeir höfðu brotið, spyr hann hvort þeir hafi gaman af að fljúga og játar að hann hafi mátt til að sjá framan í þessa skúrka. Svo bauð hann þeim í hádegisverð og sagði þeim að drífa sig svo í vinnuna.

Steini er sko ekki að fegra sinn hlut, segir hiklaust frá efasemdum og ótta andspænis hættunni og þakkar lán sitt verndarenglunum sínum, sem hann segir að hafi oft þurft að vera á sólarhringsvakt, enda orðnir ansi slæptir og þreytulegir undir lokin. En ég verð nú að segja að þeir stóðu sig vel fram á síðasta dag, því þessi maður sem laðaðist að hættunum, smeygði sér milli sprengna og kúlna eins og James Bond í loftbardögum við Þjóðverja og síðar í borgarastríðinu í Biafra, í glórulausum byljum á Grænlandi í dauðaleit að bletti að lenda á, flaug með Lúmúmba á átakatímum í Kongó, fyrir utan ýmislegt annað smálegt eins og að sofna undir stýri á fjallvegi og missa allan farangurinn niður þverhnípið - hann fékk að njóta ævikvöldsins fram yfir áttrætt og lét aldrei í minni pokann fyrir krabbanum: fór ekki fyrr en það var bókstaflega ekkert eftir af honum nema hás hláturinn.

Guði sé lof fyrir bækurnar hans og fyrir að hann skyldi skrifa þær sjálfur, því þessi lífssaga hefði ekki mátt hverfa með honum og enginn viðtalshöfundur hefði náð að segja þessa sögu af sama lítillæti og hispursleysi og hann sjálfur. Nú lifir hann í bókunum, og svo í minningum allra þeirra sem kynntust honum. Á Grænlandi, þar sem Steini dvaldi langdvölum, er hann elskuð þjóðsagnapersóna. Í haust hittum við Ólafur grænlenskan ráðamann á heimavelli, sem ljómaði eins og sól þegar minnst var á Steina, og kunni af honum margar sögur. Einu sinni mætti hann Steina ríðandi á fjallvegi, sjálfur var hann gangandi leiðsögumaður danskrar konu á besta aldri. Hispurslaus að vanda eys Steini gullhömrum þar sem hann horfir úr hnakknum niður á förufólkið: "Þú hefur aldeilis krækt þér í eina góða þarna, Kaj, þetta er kvenmaður sem segir sex! Hvar fannstu hana eiginlega?" Kaj Egede vafðist tunga um tönn og stundi svo upp: Det, det er Hendes Majestet Dronning Margarethe... Það eru forréttindi að fá að eiga svona mann innan seilingar í sínu lífi, og fyrir það er ég þakklát. Ég er líka þakklát fyrir það hversu náin tengslin eru innan fjölskyldunnar við afkomendur Steina og hlakka til að fylgjast með honum í þeim.

Guðrún Pétursdóttir.

Með fáum orðum viljum við hér í fjölskyldunni á Vatnsleysu þakka Þorsteini E. Jónssyni samfylgdina síðastliðin ár. Þegar við tengdumst fjölskylduböndum tók hann okkur opnum örmum og myndaðist með okkur mikill kærleikur.

Við hugsum til samverustundanna á hátíðadögum í fjölskyldunni og heimsókna hans hingað. Sérstaklega var ánægjulegt er hann dvaldi hér hjá okkur síðastliðið sumar. Hann kom sjálfur akandi beint af sjúkrahúsinu og naut þess að vera einn úti í náttúrunni að mála eða hann sat úti í garði með bók í hendi og naut veðurblíðunnar. Eigum við mjög fallega mynd sem hann málaði hér uppi í hlíðinni. Er hann kom næst með myndina fullbúna sagði hann: "Ég vildi endilega festa á mynd gömlu fjárhúsin, Bragi minn, áður en þau fjúka."

Í einni af fyrstu heimsóknum hans hingað hafði hann verið úti við en kom svo inn glaður í bragði og sagði: "Hér líður öllum skepnum auðsjáanlega vel." Þetta skipti hann sýnilega miklu máli því hann var mikill dýravinur eins og lesa má í bókum hans.

Það var ekki mikill vandi að taka á móti Steina, hann var hógvær og lítillátur og vildi sem minnst láta hafa fyrir sér. Hafði gaman af að sitja með bjórglas í hendi og rabba um daginn og veginn en gat einnig dregið sig í hlé og gat jafnvel vottað fyrir feimni.

Aldrei gortaði hann af afrekum sínum, talaði lítið um fortíðina nema hann væri inntur eftir henni. Hann var einstakur í að njóta augnabliksins, hann lifði í núinu ef svo má segja.

Lærdómsríkt var að kynnast sambandi hans og Möbbu, vinátta og gagnkvæm virðing var milli þeirra enda er Mabba einstök kona og kallar Kata litla hana alltaf ömmu Möbbu.

Steini háði hetjulega baráttu við hinn illvíga sjúkdóm sem felldi hann að lokum. Sáum við að hverju stefndi er hann dvaldi hér um jólin "helsjúkur". Það var eitthvað slokknað í augum hans. Hann lifði í tvo sólarhringa á sjúkrahúsinu eftir að hann fór héðan.

Dóttir mín sagði að hann hefði verið ósköp fallegur látinn "friður yfir honum og jafnvel örlítið bros lék um varir hans". Verndarenglarnir hans hafa ekki yfirgefið hann, en á þá trúði hann alla ævi. Steini var hetja til hinstu stundar og engum líkur.

Ég losnað hefi jarðarfjötrum frá

í frelsi kannað leiðir himingeims

mót sólu klifrað, klofið loftin blá

og komist inn í fögnuð æðra heims.

(John G. Maggee, flugliðsforingi.)

Fjölskyldan Vatnsleysu 2,

Biskupstungum.

Nú er hann horfinn okkur, flugstjórinn og ævintýramaðurinn, dáður og virtur að verðleikum og mannkostum. Hér verða ekki rakin, svo nemi, starfs- og ævispor þessa víðförla og að mörgu leyti einstaka ævintýramanns og farsæla flugstjóra, en það hefur hann sjálfur gert, vel og skilmerkilega, í tveimur bókum, sem hvarvetna fengu frábærar viðtökur. Undirritaður minnist hans fyrst, á fjórða áratugnum, þegar báðir þreyttu próf í Menntaskólanum á Akureyri. Síðan skildu leiðir, þegar hann, í upphafi heimsstyrjaldarinnar 1940, sótti um og gekk til liðs við konunglega breska flugherinn og hóf flugnám sama ár. Að því loknu tók hann þátt í hernaðarátökum, allt til stríðsloka og gat sér góðan orðstír fyrir hæfni og hugrekki. Honum mun jafnan hafa farnast betur en þeim, sem hann átti í höggi við, og segir það sína sögu.

Steini, eins og við vinir hans kölluðum hann, réðst til starfa hjá Flugfélagi Íslands h.f. árið 1947 og starfaði þar með okkur sem flugstjóri um tveggja áratuga skeið. Hann þótti strax liðtækur vel, var ötull og vílaði ekkert fyrir sér.

Á þeim frumbýlingsárum flugsins hér, tók hann drjúgan þátt í baráttunni við óblíð náttúruöfl á norðurslóðum, lengi á vanbúnum flugvélum og á frumstæðum flugvöllum. Steini var mjög traustur flugstjóri og áræðinn, í hófi þó, enda farnaðist honum ávallt vel og naut verðskuldaðs trausts allra, sem ferðuðust og störfuðu með honum. Hann lagði ávallt gott til mála, var vel liðinn og vandaður í allri umgengni. Yrði Steina eitthvað á, reyndi hann aldrei að skjóta sér undan ábyrgð, var heill, sannur og svikalaus.

Seinni hluta flugævinnar starfaði hann erlendis, allt frá því að glíma við skuggalega myrkviði frumskóga Afríku og að vera yfirflugstjóri í forsvari á vegum hjálparstofnana, við flutning varnings og vista til stríðshrjáðra Nígeríumanna í Biafra. Þar lá Steini ekki á liði sínu fremur en endranær og hlaut verðskuldaða viðurkenningu fyrir. Ófrið þennan kallaði hann stundum "Mickey-Mouse war", mun hafa séð það svartara fyrr á árum. Að lokum starfaði hann hjá Cargolux og lauk þar glæstum flugferli 65 ára að aldri.

Ógleymanlegar eru fjölmargar samverustundir með þessum góða félaga og samstarfsmanni, í óbyggðum og öræfum Íslands, í einstakri ævintýraferð til norð-austur Grænlands, sumarið 1960, þar sem við lentum Katalínaflugbátnum á undurfögru fjallavatni, sem var kvikt af silungi. Ég minnist fyrstu ferðanna til Ikateq, þar sem Steini lenti fyrstur og til Angmagssalik, svo og ótal ferða til Vestur-Grænlands, allt norður til Thule. Grænland heillaði Steina frá fyrstu kynnum og hann sóttist ávallt eftir ferðum þangað, stundum til langdvala.

Við áttum saman litla fiskibáta um áratuga skeið og rerum þegar gaf og við höfðum tóm til. Ég minnist Steina í ólgusjó, þegar braut í Reykjanesröstinni, og hann Herjólfur, uppáhaldið okkar beggja, stóð næstum upp á endann og stór-ufsar á hverjum krók, þá skemmti Þorsteinn Jónsson sér vel.

Steini var listrænn í betra lagi, málaði mikið, bæði með olíu- og vatnslitum. Margar gullfallegar myndir málaði hann og myndi án efa hafa náð langt í þeirri listgrein, hefði hann haft til þess tóm og aðstöðu fyrr á árum. Þegar líkamlegri heilsu hans tók að hnigna hin síðari ár, þótti honum gott að geta notið hæfni og umhyggju lækna og hjúkrunarfólks hér heima. Hann bar mikið traust til allra á þeim vettvangi. Andlegu atgervi hélt hann óskertu til hinstu daga.

Lát hans kom okkur vinum hans ekki á óvart. Hann hafði um árabil barist hetjulega gegn illvígum sjúkdómi, tók hverju áfallinu af öðru með þeirri karlmennsku og hugarró, sem einkenndi þennan skarpgreinda drengskaparmann.

Þegar yfir lauk, hrönnuðust upp minningar um samferð í lofti, á legi og á ferð um óravíddir öræfa Íslands, um undurfagra og hrikalega náttúru Grænlands, sem Steini unni svo mikið og dáði.

Í svefnrofunum lít ég bjarma kvöldroðans í vestri og dumbrautt skýjafar með sígandi sól, þar sem Grænland kúrir eins og kaldur kristall handan hafsins. Hátt uppi í bláma heiðloftsins lýstu síðustu geislar kvöldsólarinnar upp hvítan feril háfleygs loftfars, sem stefndi norðvestur yfir Grænlandshafið. Þetta er hann Steini, á leið til Draumalandsins. Ég sé hann horfa haukfránum augum yfir hafið, jökulbreiðuna, núnatakana og fjólubláu fjöllin á ströndum Draumalandsins.

Sólin var sest í hafið við Norðurskaut, hann ætlar ekki að lenda í þetta sinn og hann hækkar flugið og ég fæ ekki fylgt honum eftir, hann flýgur svo hátt og hann hverfur mér inn í nóttina og tindrandi stjörnusali og norðurljósahaf ... Góða ferð gamli vinur, Góða ferð ... ég þakka þér samfylgdina, ... góða ferð.

Jóhannes R. Snorrason.

Eftir harða baráttu við ólæknandi sjúkdóm varð Þorsteinn loks að lúta í lægra haldi og eflaust verða margir til að minnast hans.

Undirritaður getur ekki látið hjá líða að þakka Steina fyrir meira en 50 ára einlæga vináttu. Hann var mikill vinur vina sinna, umtalsgóður um alla menn og gjörsamlega laus við allt sjálfshól. Hann var einn þeirra fáu sem Winston Churchill átti við þegar hann minntist orustuflugmannanna sem vörðu Bretland og sagði "Never have so many owed so much to so few". Þetta tímabil svo og önnur á farsælli og langri flugmannsævi Steina, svo sem Biafra hjálparflugið, þótti honum sjálfum ekki umtalsvert.

Fyrir órofa vináttu í leik og starfi þakka ég og bið Guð að blessa minningu góðs drengs og sendi börnum hans og öðrum aðstandendum samúðarkveðjur.

Karl Eiríksson.

Nú hefur Þorsteinn Elton Jónsson, Steini Jóns, kvatt okkur, en hann var tvímælalaust mesti ævintýramaður íslenskra flugmála.

Snemma skyggði Steini hjá mér og mörgum öðrum, á kempur kvikmyndanna, þeirra afrek voru tjaldsins, en hans veruleikans í stríði og friði um heim allan, eins og lesa má í hans ágætu sjálfsævisögu. Þótt ég hafi verið samstarfsmaður hans og félagi stóran hluta starfsævi minnar væri þýðingarlaust að reyna að endurtaka eða bæta þar nokkru við, maðurinn þjóðkunnur, enda ekki á hvers manns færi að ná hans frásagnargleði og stíl, þar sem stutt var í glettnina, bak alvörunni.

Þó er rétt að segja frá hetjulegri baráttu við sjúkdóminn, sem Steini hafði að vísu sigrað tvisvar, en féll samt fyrir að lokum. Þar var hann óbugaður, því andlegri reisn hélt hann í áralangri baráttu sinni og þar til yfir lauk, án þess að segja æðruorð.

Steini var íþróttamaður af guðs náð. Göngugarpur mikill um fjöll og firnindi og annað eftir því, en eftirlætisíþrótt hans var golfið, enda lék hann það, eins og annað, með ágætum og um heim allan. Golfpokinn var partur af farangrinum. Hann hafði lengi á veggnum hjá sér stóreflis heimslandakort, þar var flöggum stungið á hvern stað, þar sem hann hafði leikið og líklega var víðar en nokkur annar golfari heims.

Eftir að hann hætti flugi bjó hann að mestu í Reykjavík, en lék mest á Hvaleyrinni. Þar var ég morgunfélagi hans í golfinu. Hann hélt ætíð einbeitni sinni, en það lýsir vinsældum hans, að þegar hann var að semja og seinna að snúa ævisögunni á ensku, var svo mikill hugur í honum að komast heim í ritverkið fyrir hádegi, að aðrir á vellinum, sem vissu hvað til stóð, viku kurteislega úr vegi, en að vísu var okkur skikkað nafnið "morgunhraðlestin".

Tómlegt verður að lifa án Steina eftir hálfrar aldar vináttu í starfi og leik um víða veröld, en víst er, að á næsta stigi tilveru, sem vonandi er til, verður hann tilbúinn að leiðbeina okkur vinum sínum, þegar við eltum hann þangað, eins og hann hefur gert hingað til. Aðstandendum Steina vottum við Hrefna samúð okkar og þakklæti fyrir vináttuna öll þessi ár.

Ragnar G. Kvaran.

Ég losnað hefi jarðarfjötrum frá,

í frelsi kannað leiðir himingeims,

mót sólu klifrað, klofið loftin blá

og komist inn í fögnuð æðra heims.

Ég dansað hefi' við sólsprengd skúraský,

sem skinu eins og þúsund lita glóð,

og gert svo margt, sem enginn skilur í

og aldrei fyrri dreymdi nokkra þjóð.

Ég svifið hefi, sveiflast, hvolfst og steypst,

og svifið aftur hærra og lengra en fyrr;

mér allir vegir lífsins hafa leyfst

í ljóssins ríki - opnar hverjar dyr.

Ég svifið hefi' um sumarhlýjan geim,

þar sólbjört þögnin eins og draumsæng lá,

og þaðan inn í kaldan hrikaheim,

við hryðjustorma glímt og flogist á.

Upp hærra en fleygum fugli væri kleift

ég flaug í gegn um himinloftin blá;

og miklu fleira en fyrr var nokkrum leyft

á ferðum þeim ég heyrði, skildi og sá.

Er hljóður sveif ég, hvergi eygði strönd

um heilagleikans veldi, engilfrjáls,

ég út í loftið rétti hægri hönd

og hafði snortið andlit drottins sjálfs.

(Þýð. Sig. Júl. Jóhannesson.)

Ljóð þetta, Háflug, orti ungur flugliðsforingi í konunglega breska flughernum, John G. Magee að nafni. Hann flaug Spitfire-vélum og féll í orrustu í desember árið 1941. Í boðskap þessa ljóðs kaus Þorsteinn E. Jónsson að sækja heiti fyrra bindis æviminninga sinna, Dansað í háloftunum.

Við sendum Þorsteini vini okkar hinstu kveðju með ljóðinu fallega er blés honum svo viðeigandi í brjóst nafnið á æviminningum sínum.

Þóra Guðmundsdóttir

Arngrímur Jóhannsson.

Það er óneitanlega erfitt að skrifa kveðjuorð um góðan vin, Þorstein, sem kvaddi þennan heim þann 30. desember sl. Ólíkt léttara var að skrifa um hann afmælisgrein áttræðan fyrir aðeins rúmum tveimur mánuðum. Þar rifjaði ég upp meira en aldarfjórðungs kynni okkar og vináttu sem aldrei bar skugga á. Kynni okkar urðu við Sandá í Þistilfirði árið 1974. Hvert ár síðan áttum við saman ógleymanlegar stundir með góðum veiðifélögum, Viktori Aðalsteinssyni, Lárusi Jónssyni, Garðari heitnum Svavarssyni, Hauki Geir syni hans, og seinna Arngrími Jóhannssyni, og eiginkonum okkar. Það verður vissulega skarð fyrir skildi næsta sumar og framvegis þegar Steina vantar í hópinn. Hann var svo einstakur félagi við ána og svo heima í veiðihúsi að loknum æfintýrum dagsins. Þægilegri mann og betri félaga við þær aðstæður, og raunar hvar sem var, er vart hægt að hugsa sér.

Steini batt sérstaka tryggð við Sandá, eins og við raunar öll gerðum. Hann naut náttúrunnar þarna við ysta haf, fuglanna í mónum, lynggróðurs og blómanna, laxanna í ánni, og veðurfarsins, hvernig sem það nú var hverju sinni. Tvisvar fórum við þangað á síðasta sumri. Þá var Steini orðinn veikur. En kjarkurinn og seiglan var sem jafnan fyrr.

Í byrjun október átti ég erindi í Þistilfjörð að hitta bændur og veiða lax í klak. Steini vildi koma með til Akureyrar. Þar gistum við tvær nætur á heimili systur minnar og mágs, Lúllý og Gísla Eyland, en þar gisti Steini jafnan á ferðum sínum norður.

Hann færði þeim málverk sem hann hafði gert í þeirri fögru sveit, Fljótum í Skagafirði. Og ég fór með fjögur málverk í veiðihúsið við Sandá til viðbótar þeim mörgu sem hann hafði gert af helstu veiðistöðum Sandár og gefið veiðifélagi okkar. Þau prýða nú öll veggi veiðihússins. Hann var ágætur málari, sjálflærður að því er ég best veit. Sagði mér þó að faðir sinn hefði sent sig ungan drenginn til Kjarvals en ekkert varð úr tilsögn þar, aðeins skoðuð málverk meistarans. Hann sinnti þessari tómstundaiðju meira á seinni árum og málaði mest með olíulitum. Þó gerði hann einnig vatnslitamyndir. Hann hafði þann háttinn á að senda ýmsum kunningjum sínum jólakort þar sem hann málaði litla vatnslitamynd. Á ég mörg slík kort sem öll minna á veiðarnar við ána, það síðasta frá nýliðnum jólum. Þau eru öll geymd. Ég skynjaði það í síðustu ferðinni norður, þótt ekkert væri sagt, og þó betur nú, að þessa ferð vildi Steini fara til þess að kveðja, kveðja vini sína fyrir norðan, og þennan hluta landsins. Þess vegna vildi hann líka að við færum suður Kjöl á heimleiðinni, sem við og gerðum, í björtu og góðu veðri. Ég er þakklátur fyrir að hafa átt þessa daga með honum. Hann lifði langa og viðburðaríka æfi, sem orrustuflugmaður í seinni heimsstyrjöldinni, Biafrastríðið á árunum 1968 til 1970 , þar sem hann stjórnaði hjálparfluginu, og svo öll hin ævintýrin á 47 ára flugmannsferli.

En hann háði líka annað stríð, sem stóð í meira en ellefu ár, við erfiðan sjúkdóm. Orrusturnar urðu þrjár í því stríði. Þeirri síðustu, sem stóð allt síðasta ár, tapaði hann. Við kvöddumst á sjúkrahúsinu tveimur sólarhringum áður en hann dó. Hann var þá þreyttur og átti erfitt um mál. Við héldumst í hendur góða stund, vissum held ég báðir að það yrði síðasta handtakið okkar í þessu lífi. Í nafni okkar veiðifélaganna er Þorsteinn E. Jónsson kært kvaddur og honum þakkaðar allar ánægjustundirnar. Við söknum hans. En af nýjum veiðilendum fylgist hann kannske með okkur gömlu félögunum þegar við egnum næst fyrir laxinn.

Við Stella, Lúllý og Gísli sendum börnum hans og öðrum aðstandendum okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Ólafur G. Einarsson.

Steini

Nú ertu allur

en þú verður aldrei

aldrei að eilífu

gleymdur og horfinn

okkur sem máttum

kalla þig vin

og gafst okkur

þá dýru gjöf

að mega lifa með þér

ótrúlegu ævintýrin

þín.

Þú sem varst svo hlýr

þótt þú segðir öllum

siðum og venjum stríð á hendur

og færir fremst þeirra

sem unnu mannhelgi

jafnt í svörtustu Afríku

og hjá okkur hinum hvítu.

Ótrauður gekkst þú á hólm

við örlög þín

og hafðir jafnan sigur.

Enginn gat lifað eins og þú,

enginn gat gefið eins og þú,

og enginn var vinur eins og þú.

Þú varst stíðshetja

friðar og farsældar,

og við vitum

að hún bíður okkar

vina þinna

enn

Sandáin

þín og mín

svo himintær og hrein,

fögur eins og fuglinn,

frjáls

eins og þú ert núna

fullhugi

sem flýgur með guði

um eilífð himingeimsins.

Innilegar samúðarkveðjur til aðstandenda,

Rúna og Lárus.

Fréttin um andlát Þorsteins, vinar míns, kom vissulega ekki á óvart, því að þessu sinni reyndist óvinurinn óviðráðanlegur. Þó hafði ég reynt að halda í vonina um að Steini myndi sigra þessa lotu eins og hann hafði gert svo oft áður á mörgum ólíkum sviðum. Til dæmis hafði hann tvisvar haft betur í baráttu við krabbamein, hann hafði líka sem ungur orrustuflugmaður skotið niður fleiri þýskar vélar en greint var frá og viðurkennt og svo allir sigrarnir á golfvellinum.

Leiðir okkar Steina lágu saman þegar ég byrjaði að fljúga hjá Cargolux í Luxemburg á haustmánuðum 1971. Þá var Þorsteinn búinn að vera þar í nokkra mánuði og byrjaður að plægja akurinn sem átti eftir að bera góðan ávöxt fyrir þá sem á eftir komu, eins og mig og marga, marga aðra. Það var lærdómsríkt að fá að fljúga með þessum þrautreynda flugmanni sem miðlaði okkur sem yngri vorum af reynslu sinni. Samt komu sumir hlutir mér á óvart þegar ég flaug með Steina. Það skipti hann til dæmis engu máli þó við gætum ekki fengið veðurspár fyrir ákvörðunarstað og varavöll. Hann sagði einfaldlega: "Við förum þangað hvort sem er. Spá er bara spá. Það þýðir ekki að það verði að veruleika." Sem sagt: Ekki að hafa áhyggjur af einhverju sem aldrei verður. Mér fannst að þessi hugsun ætti að eiga heima meðal boðorðanna.

Hópurinn hjá Cargolux stækkaði ört og fyrr en varði vorum við komnir í flugmannafélagið og að sjálfsögðu var Þorsteinn í forsæti eins og hann hafði verið í flugmannafélaginu á Íslandi. Það var oft með ólíkindum hverju hann fékk áorkað í samningum fyrir okkar hönd með framsýni og lipurð. Það fór heldur ekkert á milli mála hvað hann var fastur fyrir þegar það átti við.

Í frístundum veiddi Steini lax og silung, fór á rjúpna- og gæsaveiðar og einnig var hann mjög liðtækur í tennis, badminton og veggjabolta að ótöldu golfinu, sem hann hafði meira en gaman að. Þegar Steini stóð á sjötugu spiluðum við á einum degi 54 holur hér í Luxemburg. Að vísu tókum við eldsneyti eftir hverjar níu holur, því Steini sagði að flugmenn mættu aldrei verða eldsneytislausir. Þegar við lukum við síðustu holuna þennan dag var farið að skyggja og þá sagði Steini: "Pétur minn, ef við værum á Íslandi, þá gætum við farið níu í viðbót".

Þorsteinn flaug hjá Cargolux til ársins 1986. Hann var þá 65 ára og flutti heim til Íslands ásamt Katrínu eiginkonu sinni og Birni syni þeirra. Eftir þetta kom Steini oft til Lux og bjó þá oftast á heimili okkar Bjargeyjar. Einnig fór hann í margar ferðir með mér á seinni árum bæði til Bandaríkjanna og Austurlanda nær og fjær og spiluðum við þá á golfvöllum sem hann var vanur að fara á meðan hann flaug sjálfur.

Steini skrifaði tvær bækur um einstæðan flugmannsferil sinn. Þær eru bæði skemmtilegar og fróðlegar og sýna vel hversu ritfær hann var. Einnig málaði Steini í tómstundum, olíu á striga og eftir hann eru margar fallegar myndir.

Yfirvegun og æðruleysi var Steina mikil hjálp þegar hann missti Kötu sína fyrir nokkrum árum.

Við Bjargey og dætur okkar sendum Bjössa, Önnu, Margréti og Ólafi og öðrum ástvinum innilegar samúðarkveðjur. Minningin um ljúfan dreng og góðan félaga og vin mun lengi lifa. Við söknum hans sárt.

Pétur Valbergsson,

Luxemburg

Ég varð hryggur og dapur þegar ég frétti um jólahátíðina að vinur minn Þorsteinn væri fallinn frá. Ég vissi reyndar að heilsa hans var ekki góð og að honum hafði hrakað, það leyndi sér ekki þegar við hittumst síðast á RAF samkomu. Þetta voru því ekki óvænt tíðindi, en manni bregður alltaf við svona fréttir, sérstaklega þegar um svo einstakan mann er að ræða.

Ég varð þeirrar ánægju aðnjótandi að dvelja um tíma með Þorsteini þegar "Old Comrades Association" hélt fund sinn á Íslandi. Hann var ekki bara frábær gestgjafi heldur var hann líka mjög skemmtilegur drykkjufélagi! Á fyrsta kvöldi okkar sátum við og rifjuðum upp stríðsárin og leystum heimsvandamálin og lögðum á ráðin um ferð á golfvöllinn, sem því miður varð aldrei farin, því við félagarnir höfðum margs að minnast frá fyrri árum og ég held að ég hafi skriðið í rúmið einhvern tíman undir morgun.

Það hafði djúp áhrif á mig að sjá hvernig Þorsteinn brást við veikindum sínum. Lífsviðhorf hans voru alltaf jákvæð, og hann var staðráðinn í að gefa ekkert eftir fyrr en í fulla hnefana.

Ég hef aldrei farið leynt með skoðanir mínar og aðdáun á hinni fámennu íslensku þjóð, sem virðist engu að síður geta gert sig gildandi á hinum ólíkustu sviðum á alþjóðavettvangi.

Þorsteinn Jónsson var einn þessara frumherja.

Guð blessi minningu góðs manns.

Hugh Eccles, forseti

269 flugsveitar RAF.

"Old Commrades Association", Bretlandi.Við andlát Þorsteins Jónssonar flugstjóra er það mér sérstakur heiður að senda aðstandendum hans og vinum á Íslandi sérstakar samúðarkveðjur fyrir hönd liðsmanna úr 269. flugsveit breska flughersins, en við áttum því láni að fagna að kynnast honum á Íslandi.

Við munum ætíð minnast hans sem trausts samherja á þessum erfiðu tímum, og fyrir einstakt framlag hans til íslenskrar flugsögu. Umfram allt munum við þó minnast hans fyrir það hve skemmtilegur, lífsglaður og jákvæður félagi hann var.

Sú hefð hefur myndast innan 269. flugsveitar RAF að minnast látins félaga með viðeigandi hætti. Við sem eftir lifum úr þessum hópi höfum nú ákveðið að heiðra minningu Þorsteins félaga okkar með sérstöku framlagi til "Royal Air Force Benevolent Trust" sem er sjóður til styrktar fyrrverandi starfsmönnum Konunglega breska flughersins (RAF) og fjölskyldum þeirra.

Guð blessi minningu Þorsteins.

Gerry Raffe.

Ritari 269 flugsveitar.

Fallinn er frá Þorsteinn E. Jónsson flugmaður, einn frumkvöðla stofnunar Flugbjörgunarsveitarinnar og fyrsti formaður hennar.

Það var í nóvember árið 1950 að hópur manna kom saman til stofnfundar, og var Þorsteinn fundarstjóri og formaður undirbúningsnefndarinnar. Á þessum fundi var hann kjörinn formaður sveitarinnar. Vegna vinnu sinnar var hann aðeins eitt ár formaður, en hélt alltaf góðu sambandi við sveitina og fylgdist með starfi hennar, þau rúmlega fimmtíu ár sem liðin eru síðan. Kom hann gjarnan á fundi og aðrar samkomur hjá sveitinni allt fram til þess síðasta. Óþarft er að fjölyrða um óvenjulega atorku og kraft Þorsteins, þar sem hann er löngu orðinn landsþekktur fyrir störf sín. Með þeim hefur hann auðgað flugsögu Íslands og gert hana litríkari.

Við í Flugbjörgunarsveitinni búum enn að því brautryðjendastarfi sem Þorsteinn, ásamt félögum sínum, vann fyrir rúmlega hálfri öld.

Um leið og við þökkum Þorsteini samfylgdina og hans ómetanlega framlag, vottum við fjölskyldu hans okkar innilegustu samúð.

Félagarnir í Flugbjörgunarsveitinni í Reykjavík.

"Líf eins barns er mér meira virði en öll mín tónlist," sagði hinn heimsfrægi spænski sellóleikari Pablo Casals eitt sinn. Og sú tónlist var þó fegursta tónlist í heimi.

Allt að einni milljón barna var bjargað frá dauða af völdum hungurs og sjúkdóma með hjálparflugi til Bíafra er borgarastyrjöld geisaði í Nigeríu á árunum 1967-1970. Alþjóðleg kirkjusamtök skipulögðu þá umfangsmikla neyðaraðstoð. Í hálft annað ár, 1968-1970, starfaði Þorsteinn E. Jónsson við stjórn á flutningi matvæla og lyfja til Bíafra fyrir Flughjálp, samstarfsfyrirtæki Hjálparstofnunar kirkjunnar, Loftleiða og norrænna kirkjulegra hjálparstofnana. Einnig flaug hann lengst Íslendinga beint hjálparflug þangað. Var hann því verðugur fulltrúi þeirra íslensku flugmanna sem að fluginu störfuðu en ýmsir erlendir flugmenn komu einnig við sögu. Þessir menn lögðu sig í mikla lífshættu þar eð oft var skotið á vélarnar, t.d. í síðasta flugi frá Bíafra en þá var Þorsteinn flugstjóri.

Líf þessara barna var honum meira virði en öll hans framtíð.

Jón Ögmundur Þormóðsson.

"Við erum öll næturgestir í ókunnum stað. En það er yndislegt að hafa farið þessa ferð," sagði organistinn svo heimspekilega í Atómstöð Halldórs Laxness.

Þegar öllu er á botninn hvolft er lífið sjálft jú eitt allsherjarferðalag og óhjákvæmilega eru kveðjustundir stór hluti af öllum ferðalögum. Nú er ein slík því miður runnin upp - við síðustu brottför Þorsteins E. Jónssonar flugstjóra sem var einn geðþekkasti og litríkasti samferðamaðurinn á lífsleið minni fram til þessa.

Steini Jóns, eins og þessi síungi gamli refur var jafnan kallaður var algjör töffari af gamla skólanum og mesti "aviator" Íslands. Sem slíkur var hann fyrir lifandi löngu kominn í hóp helstu þjóðsagnapersóna Íslandssögunnar og jafnvel þó víðar væri leitað. Hans orðstír mun seint og vonandi aldrei deyja.

Steini á að baki sérstaklega gifturíkan flugferil. Hann var aðeins átján ára gamall þegar hann hleypti heimdraganum og gerðist orrustuflugmaður í konunglega breska flughernum þar sem hann barðist frækilega við þýska flugherinn í háloftunum yfir Evrópu og Afríku. Fyrr má nú vera kjarkurinn. Það er erfitt að ímynda sér hvílík lífsreynsla þetta hefur verið og hvaða varanlegt mark hún setti á ungan og óharðnaðan táninginn er stóð á einu helsta mótunarskeiði í lífi sínu. Samtals flaug Steini um 1.200 klukkustundir innan vébanda flughersins, þar af rúmlega 400 í orrustuflugi, sem er nokkuð mikið, eiginlega tvöfaldur skammtur því flugmenn áttu rétt á fríi er 200 tíma markinu var náð.

Þá er atvinnuflugmannsferill Steina líka ekkert til að skammast sín fyrir og má hann sannarlega líta stoltur um öxl. Toppurinn á þeim vettvangi voru heilladrjúg trúnaðarstörf hjá Cargolux en ævintýralegast hjálparflugið í Biafra og flugið á Grænlandi. Samtals lagði Steini að baki um 36.000 flugstundir sem jafngildir því að hafa verið í loftinu í rúmlega fjögur ár. Hygg ég að það sé met hjá íslenskum flugmanni.

Sjálfum sér reisti Steini myndarlegan bautastein með því að rita sjálfur æviminningar sínar og lýsa bókartitlarnir með gagnorðum hætti hinum litskrúðuga æviferli: Dansað í háloftunum og Viðburðarík flugmannsævi. Tæpum tíu árum síðar eru þessar skemmtilegu bækur ennþá með söluhæstu bókum landsins. Frásagnarstíllinn lýsir svo vel einum af helstu mannkostum Steina en það er þessi fádæma hógværð. Aldrei er verið að upphefja sjálfan sig og ekkert dregið undan með það að stundum hefði nú kannski verið hyggilegra að hegða sér betur og vera þægari strákur. Talsvert var þrýst á Steina um að skrifa þriðja bindið en hann tók það ekki í mál þar sem hann taldi sig þá eiga á hættu að útvatna sögu sína. Þetta er líka dæmigert fyrir manninn, að gera hlutina með stæl og hætta leik þá hæst stendur. Í framtíðinni finnst mér ekki ólíklegt að gerð verði kvikmynd eftir þessum bókum því þessi saga hefur flest sem þarf til að prýða gott kvikmyndahandrit: Ævintýrin, hasarinn, hetjuna, sigrana, ósigrana, ástina og rómantíkina, mannlegan breyskleika og svo er sögusviðið allur heimurinn og flugið. Fyrir mig er það andleg næring að lesa bækurnar hans Steina einu sinni á ári.

Frá barnsaldri hafði ég heyrt sögur af Steina og hans uppátækjum en leiðir okkar lágu hins vegar ekki saman fyrr en árið 1993 í tengslum við 90 ára afmæli flugs í heiminum. Þá hafði ég forystu um að stofna óformlegan félagsskap flugáhugamanna er hefði það eina markmið að skipuleggja hópferð, einskonar pílagrímsferð, til Kitty Hawk í Bandaríkjunum þannig að við gætum staðið á nákvæmlega sama stað og þeir Wright-bræður fóru í sína fyrstu flugferð. Steini var sjálfkjörinn heiðursfararstjóri í þeim selskap. Félagið kölluðum við Fyrsta flugs félagið en það hefði allt eins getað heitið Fyrsta og síðasta flugs félagið þar sem aldrei stóð til að fara nema þessa einu ferð. Það er skemmst frá því að segja að ferðin lukkaðist sérdeilis vel og það var ekki síst honum Steina að þakka. Þá rann upp fyrir mér hvaða virðingarsess gamli maðurinn skipaði hjá flugáhugamönnum þessa lands. Slík var virðingin fyrir Steina. Eftir á að hyggja hefði félagið líka getað heitið Aðdáendaklúbbur Þorsteins E. Jónssonar. Teningunum var kastað því eftir þetta tóku við hópferðir á flugsýningar í Flórída, London og París, heimsóknir til flugvélaframleiðenda og fræðslu- og skemmtikvöld, það fjölmennasta með rúmlega 700 gestum. Við flest þessara tækifæra var Steini heiðursgestur okkur öllum til ómældrar ánægju og yndisauka, ekki síst á kvöldin þegar mannskapurinn settist niður og fékk sér "kótelettu" en það orð notaði Steini yfirleitt um bjór og komst einu sinni svo að orði að hann hefði nú drukkið margar Ölfusár af þeim eðla drykk.

Langfjölmennustu ferðir okkar hafa verið til Bretlands að fanga andrúmsloft síðari heimsstyrjaldarinnar, m.a. á stærsta flugminjasafni í Evrópu sem skartar öllum helstu gömlu herflugvélunum jafnt á jörðu niðri sem á viðhafnarflugsýningum í loftinu. Það má eiginlega segja að ég hafi verið á móti því að skipuleggja svona ferðir því að ég taldi Íslendinga ekki hafa neinn einasta áhuga á stríðstólum, hvað þá eldgömlum. Þarna skjátlaðist mér hrapallega en fékk upp frá þessu mikinn áhuga fyrir tímabili síðari heimsstyrjaldarinnar. Í þeim efnum vógu leiftrandi frásagnir og skemmtilegar flugsögur Steina þyngst. Það var ekki ónýtt fyrir okkur áhugakallana að hlusta á frásagnir raunverulegrar stríðshetju sem þekkti þetta allt frá fyrstu hendi. Hann hafði sérstakt lag á því að gera flugið skemmtilegt og heillandi og það er verðugt viðfangsefni að halda því merki á lofti um ókomin ár því nóg virðist vera til af fólki sem er að reyna að gera flugið leiðinlegt og brösótt en til þess þarf alveg einstaka hæfileika.

Fyrir okkur ferðaglöðu flugáhugamennina var Steini ávallt reiðubúinn eins og hinn eini sanni skáti. Mig rekur ekki minni til þess að hann hafi nokkru sinni sagt nei þegar við báðum hann um að gera eitthvað fyrir okkur. Sem dæmi um þetta má nefna, að fyrir fimm árum gekkst hann undir erfiðan uppskurð vegna krabbameins í maga. Rúmum hálfum mánuði síðar hoppaði kappinn upp í flugvél með okkur á leið á flugsýningu í París. Orðið nei virtist hreinlega ekki vera til í hans orðaforða. Hvað þá orðið erfiðleikar eða uppgjöf og aldrei minnist ég þess að hafa heyrt Steina hallmæla eða tala illa eða niðrandi um nokkra einustu manneskju en það er sannarlega fágætur eiginleiki í fari fólks nú til dags.

Að lokum, við flugáhugamenn ættum að sjá sóma okkar í því að láta gera brjóstmynd eða litla styttu af Þorsteini E. Jónssyni, eina íslenska orrustuflugmanninum. Ég sé fyrir mér að hún yrði af honum átján ára gömlum í einkennisfötum breska flughersins á leið í stríðið að berjast fyrir því frelsi sem við Vesturlandabúar erum svo lánsöm að hafa búið við síðan þessum hildarleik lauk fyrir röskri hálfri öld. Það væri við hæfi að finna henni stað í Flugstöð Leifs Eiríkssonar til að minna farþega á þennan ótvíræða afreksmann íslenskra flugmála.

Ég kveð með djúpri virðingu og söknuði góðan vin, jafnframt því sem ég votta nánustu aðstandendum Þorsteins E. Jónssonar innilegustu samúð með von um bjarta framtíð.

F.h. Fyrsta flugs félagsins,

Gunnar Þorsteinsson.

Þegar spurðist að Þorsteinn E. Jónsson flugstjóri væri látinn, komu upp í hugann þær ótrúlegu breytingar er orðið hafa á starfsumhverfi flugmanna á síðustu 60 árum. Þorsteinn lifði viðburðaríku lífi og það er ómögulegt fyrir unga flugmenn í dag að gera sér grein fyrir aðstæðum sem flugmenn bjuggu við á frumbýlingsárum flugsins. Þorsteinn var alltaf í fararbroddi í baráttu flugmanna fyrir bættum kjörum og starfsskilyrðum, sem formaður FÍA frá 1948-1952 og formaður flugmannafélagsins í Lúxemborg.

Við félagsmenn FÍA þökkum góð störf og kynni og vottum aðstandendum dýpstu samúð.

Franz Ploder,

formaður FÍA.

Mig langar í nokkrum línum að minnast Steina, sem ég þá ungur maður kynntist fyrir allmörgum árum. Kynni okkar hófust í kjölfar þess að við Bjössi sonur hans urðum vinir, en Steini var þá yfirflugstjóri hjá Cargolux. Ég man eftir því þegar ég hitti Steina í fyrsta skipti, ég hafði gert mér allt aðra hugmynd um þessa lifandi goðsögn, sem ég bar svo mikla virðingu fyrir sem mikill flugáhugamaður. Þessi maður sem ég var kynntur fyrir var svo hæverskur og kurteis, að öll feimni af minni hálfu hvarf um leið. Síðan eftir að Steini hætti að fljúga og flutti aftur til Íslands með Kötu og Bjössa, var mér gjarnan boðið að eyða tíma með þeim feðgum. Það voru skemmtilegir tímar og reyndi ég þá gjarnan að fá einhverja frásögn af liðnum atburðum úr flugsögu Steina, en það gat reynst þrautin þyngri því honum var lítið gefið um að segja frægðarsögur af sjálfum sér. Hann var sérstaklega atorkusamur og kraftmikill og voru það ófáar ferðirnar sem ég fékk að fara með þeim feðgum á skíði, spila badminton á sunnudögum eða í golf, en Steini hafði spilað golf í flestum heimshornum. Þegar ég lauk síðan einkaflugprófi bauð ég Steina í flugferð, og gleymi ég aldrei hvað mér þótti vænt um að hann þáði boðið, en hann sagði mér við það tækifæri að það væru komin allmörg ár síðan hann hefði flogið í svo lítilli flugvél. Eftir þessa fyrstu flugferð fórum við síðan margar skemmtilegar ferðir saman, þar sem hann miðlaði mér af þekkingu sinni um landið, en mér fannst alltaf jafnvænt um að hann gæfi sér tíma til að fljúga með mér.

Síðan þegar ég fór í atvinnuflugmannsnám fylgdist hann grannt með námsframvindu minni og hvatti mig til dáða, þó svo að hann segði mér jafnframt að flugmannsstarfið væri nú ekki eins spennandi eins og það hefði verið í árdaga.

Kærleikur þeirra feðga var mikill, og eftir að þeir misstu Kötu urðu þeir enn samrýndari og man ég eftir mörgum ferðum upp á Þingvelli, þar sem við Bjössi fórum með fjölskyldur okkar þangað í helgarferðir. Steini þáði að koma með okkur unga fólkinu, þar sem hann skemmti sér konunglega og var manna kátastur eins og hans var von og vísa, en mér finnst þetta lýsa vel hversu ungur í anda hann ávallt var.

Það hefur verið ómetanlegt fyrir mig að fá að kynnast þessum einstaka manni og geta notið leiðsagnar hans.

Ég votta fjölskyldu hans samúð mína.

Ingimar Kári Loftsson.

Guðrún Pétursdóttir.