Fyrirburar eiga frekar við námsörðugleika og vanheilsu að etja.
Fyrirburar eiga frekar við námsörðugleika og vanheilsu að etja.
BÖRN sem fæðast fyrir tímann geta átt við ýmis þroskavandamál að etja langt fram eftir unglingsárunum, samkvæmt nýrri rannsókn sem tók til á þriðja hundrað fyrirbura.

BÖRN sem fæðast fyrir tímann geta átt við ýmis þroskavandamál að etja langt fram eftir unglingsárunum, samkvæmt nýrri rannsókn sem tók til á þriðja hundrað fyrirbura.

Rannsóknin var gerð af vísindamönnum við Case Western Reserve-háskólann í Cleveland í Bandaríkjunum og voru niðurstöður hennar birtar í læknatímaritinu New England Journal of Medicine á fimmtudag. Fylgst var í tvo áratugi með 242 börnum sem fæddust eftir sex til átta mánaða meðgöngu á árunum 1977 til 1979 og vógu undir 1,5 kg við fæðingu. Í samanburðarhópnum voru 233 börn sem fæddust eftir fulla meðgöngu á sama árabili og á sama sjúkrahúsi.

Í ljós kom að fyrirburarnir áttu erfiðara með nám og voru síður líklegir til að ljúka menntaskólanámi. Þeir voru að meðaltali lágvaxnari en börnin í samanburðarhópnum og áttu frekar við ýmis heilsufarsvandamál að stríða. Skýr tengsl voru á milli þess hversu löngu fyrir tímann börnin fæddust og hversu miklum þroskatruflunum þau urðu fyrir.

Flest barnanna, bæði fyrirburanna og þeirra í samanburðarhópnum, ólust upp hjá efnalitlum foreldrum í miðborg Cleveland. Báðir hóparnir reyndust hafa lægri greindarvísitölu en bandarísk börn að jafnaði og var greindarvísitala fyrirburanna lægri en barnanna í samanburðarhópnum. Bentu vísindamennirnir á að fátækt væri áhættuþáttur varðandi litla fæðingarþyngd, sem aftur væri tengd ýmsum þroskatruflunum.

Fyrirburar ólíklegri til að stunda áhættuhegðun

Það kom vísindamönnunum á óvart að þrátt fyrir að fyrirburarnir ættu frekar við ýmis þroskavandamál að etja en börnin í samanburðarhópnum voru þeir síður líklegir til að stunda áhættuhegðun eins og að neyta eiturlyfja eða byrja ungir að stunda kynlíf. Þá komust þeir sjaldnar í kast við lögin.

Maureen Hack, prófessor í barnalækningum við Case Western Reserve-háskólann, leiddi getum að því að ástæðan væri sú að fyrirburarnir nytu meiri umönnunar og athygli af hálfu foreldra sinna. "Þessi börn eru foreldrum sínum mjög dýrmæt - þau voru í lífshættu. Sumir foreldranna áttu ekki von á að eignast annað barn. Ef þú eignast veikburða fyrirbura gætirðu hans betur en ella," hafði The Washington Post eftir Hack.

The Washington Post.