26. janúar 2002 | Aðsent efni | 882 orð | 1 mynd

Líföndun

Lína og líföndun

Guðrún Arnalds
Guðrún Arnalds
Lína Langsokkur kunni þá list, segir Guðrún Arnalds, að gera hvern dag að ævintýri.
LÍNA Langsokkur sagði einhvern tíma: "Æ, já, tíminn líður og maður byrjar að verða gamall. Í haust verð ég tíu ára og þá er maður búinn að lifa sína bestu daga." Hvað ætli sé mikill sannleikur í því, a.m.k. fyrir sum okkar? Við verðum þrítug, fertug og fimmtug og alltaf finnst okkur við vera orðin dálítið gömul og búin að missa af lífinu. Okkur finnst kannski of seint að láta draumana rætast af því það er dálítil áhætta. Og svo gleymum við okkur í kapphlaupinu við elli kerlingu, með því að hamast áfram við að ná sem lengst í lífinu áður en hún nær að toga of mikið í hrukkurnar.

Ævintýrin sem leynast handan við hornið

Lína kunni þá list að gera hvern dag að ævintýri. Og það sem meira er; hún var ekki að því fyrst og fremst fyrir sjálfa sig, heldur voru mörg af hennar skemmtilegustu ævintýrum ætluð vinum hennar. En um leið naut hún hvers andartaks til hins ýtrasta. Ég vil að minnsta kosti trúa því af því að hún er ein af mínum hetjum. Og ég verð að segja að ég verð afskaplega leið á sjálfri mér þegar ég er komin of langt frá Línu. Þá verð ég svo alvarleg og hugsi, hlæ ekki eins oft og græt ekki einu sinni heldur. Verð bara dálítið dofin fyrir lífinu og hætti að finna ævintýrin sem vissulega leynast handan við hvert húshorn ef maður hugsar eins og Lína Langsokkur.

Líföndun

Eitt af þeim tækjum sem hafa reynst mér vel við að tengjast sjálfri mér aftur þegar ég missi af lífinu og Línunni í mér er líföndun. Og þá er eðlilegt að spyrja: Og hvað er nú líföndun? Líföndun er leið til að finna fyrir kjarnanum í okkur sjálfum. Við notum öndunina til að deyfa okkur niður, til að finna ekki - með því að anda mjög grunnt og lítið. Á sama hátt, með því að dýpka öndunina og anda meira meðvitað, förum við að finna það sem við höfum bælt. Þegar við bælum tilfinningar sem okkur finnast óþægilegar erum við líka að minnka hæfileikann til að gleðjast og njóta. Þegar við stöndum á fjallstindinum og horfum yfir fallega sveitina förum við ósjálfrátt að anda dýpra. Þegar við verðum mjög glöð og líka þegar við grátum, þá öndum við djúpt og mjög líkt því sem við gerum í líföndun. Þegar við verðum hissa grípum við andann á lofti. Og þegar okkur líður vel þá erum við ekki bara að anda að okkur súrefni heldur líka orku. Það hvernig við öndum lýsir því mjög vel hvernig okkur líður og hvaða viðhorf við höfum til okkar sjálfra og lífsins.

Í líföndun fer maður í gegn um visst ferli sem felur í sér losun - spennulosun, kannski tilfinningalosun, brjóstið opnast og allt í einu er meira pláss í brjóstinu til að fylla upp í með lífinu, hugurinn verður mjög skýr og að lokum finnur maður fyrir sátt og mjög djúpri slökun. Þetta er að minnsta kosti mín upplifun. Af því að líföndun er svo líkamleg upplifun líka er hún aldrei eins.

Þegar við öndum til fulls erum við að njóta til fulls. Um leið og við erum hætt að finna og njóta erum við ekki lengur til staðar og lífið verður bara að sjálfvirkum hreyfingum frá einum stað til annars og það er einmitt þetta sem verður síðan til þess að okkur finnst að við höfum misst af einhverju. Við missum nefnilega af stórum hluta af okkur sjálfum þegar við öndum ekki nóg. Og þá förum við að flýta okkur til að missa ekki af öllu lífinu.

Kvíði og eftirvænting

Þegar lífið verður of mikið til að okkur finnist við ráða við það förum við að finna til kvíða. Kvíði er hin hliðin á eftirvæntingu. Með því að anda inn í kvíða eða aðrar sterkar tilfinningar sem við reynum annars að forðast getum við leyst þær upp og nýtt okkur orkuna sem leynist í tilfinningunni. Við getum lært að lifa með þeim og finna fyrir mýktinni í hjartanu. Sorg getur umbreyst í samkennd. Reiði getur orðið að umbreytingarorku. Oft er sú tilfinning sem við bælum hvað mest einfaldlega gleði og hlátur. Og þegar við erum hætt að hlæja - ja, þá er nú lífið dálítið litlaust.

Leikur og dans

Annað sem mér hefur fundist mjög mikilvægt til að halda andlegri heilsu og leyfa Línunni í mér að blómstra er dans. Að dansa til að leika mér, til að fá útrás fyrir sköpunargleði, fyrir spennu í öxlum og mjöðmum, til að svitna og verða örþreytt. Rísa svo upp eftir djúpa slökun og vera eins og nýfædd. Við gerum allt of lítið af því að leika okkur. Það er helst að börnin okkar geti togað okkur út í leiki, að gleyma alvarleika lífsins og stað og stund. Leikir hjálpa okkur að finna töfrana og ævintýrið. Ein af uppáhaldssetningum mínum eftir hana Línu er í bréfi sem hún skrifaði til foreldra Tomma og Önnu. Þar segir hún: "Börnin ukkar eru ekki vidund dáin heldur þveröfugt og þaug lentu bara í skipproti og koma bráðumm heim. Kær kveðja Lína." Og það er einmitt mitt markmið í lífinu; að vera ekki vitund dáin, heldur þveröfugt. Ég vona að mér takist það og takist að plata einhverja með mér í leiðinni.

Greinarhöfundur er leiðbeinandi í líföndun, hómópati og nuddari.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.