Hallgrímur Helgason tekur við verðlaunum fyrir Höfund Íslands úr hendi Ólafs Ragnars Grímssonar forseta. Milli þeirra stendur Sigríður Dúna Kristmundsdóttir með sín verðlaun fyrir Ævisögu Bjargar C. Þorláksson.
Hallgrímur Helgason tekur við verðlaunum fyrir Höfund Íslands úr hendi Ólafs Ragnars Grímssonar forseta. Milli þeirra stendur Sigríður Dúna Kristmundsdóttir með sín verðlaun fyrir Ævisögu Bjargar C. Þorláksson.
ÍSLENSKU bókmenntaverðlaunin voru afhent með viðhöfn á Bessastöðum í gær. Hallgrímur Helgason hlaut verðlaunin í flokki fagurbókmennta fyrir Höfund Íslands og Sigríður Dúna Kristmundsdóttir fyrir Ævisögu Bjargar C.

ÍSLENSKU bókmenntaverðlaunin voru afhent með viðhöfn á Bessastöðum í gær. Hallgrímur Helgason hlaut verðlaunin í flokki fagurbókmennta fyrir Höfund Íslands og Sigríður Dúna Kristmundsdóttir fyrir Ævisögu Bjargar C. Þorláksson í flokki fræðibóka og bóka almenns eðlis.

Sigurður Svavarsson, formaður Félags íslenskra bókaútgefenda, setti athöfnina og forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, gerði grein fyrir niðurstöðu dómnefndar og afhenti verðlaunin. Í ávarpi sem hann flutti sagði forsetinn meðal annars:

"Einhver spáði því fyrir nokkrum áratugum að sú mikla fjölmiðlabylting, sem við þekkjum úr okkar daglega lífi, myndi ef til vill draga úr áhuga þjóðarinnar á bókmenntalegum verkum. Þvert á móti, held ég að við getum hér í dag glaðst yfir því að svo hefur ekki orðið, heldur er jafnt með ungum og öldnum mjög lifandi áhugi fyrir því sem nýtt er á þessu sviði."

Hallgrímur Helgason sagði í ávarpi sínu: "Hið skrifaða orð er sterkasta efni heimsins. Bækur eru það sem við skiljum eftir okkur. Þær eru erfðaskrá sameiginlegrar reynslu okkar. Það ríkir sjaldnast friður um erfðaskrár."

Sigríður Dúna sagði í þakkarávarpi sínu: "Fyrir mér er saga Bjargar ekki síður ástarsaga. Saga konu og ástríðufulls sambands hennar við fræðin. Það samband átti samtíð Bjargar erfitt með að viðurkenna. Ég þakka því af hug og hjarta þann heiður sem minningu Bjargar C. Þorláksson, ævi hennar og störfum. er hér sýndur."

Tíu bækur tilnefndar

Tíu bækur voru tilnefndar, fimm í flokki fræðibóka og fimm í flokki fagurbókmennta. Bækurnar sem tilnefndar voru til Íslensku bókmenntaverðlaunanna árið 2001 úr flokki fagurbókmennta eru Höfundur Íslands eftir Hallgrím Helgason, Yfir Ebrofljótið eftir Álfrúnu Gunnlaugsdóttur, Sólskinsrútan er sein í kvöld eftir Sigfús Bjartmarsson, Ljóðtímaleit eftir Sigurð Pálsson og Gæludýrin eftir Braga Ólafsson. Tilnefnd fræðirit voru Höfundar Njálu eftir Jón Karl Helgason, Eldstöðvar Íslands eftir Ara Trausta Guðmundsson, Uppgjör við umheiminn eftir Val Ingimundarson, Björg eftir Sigríði Dúnu Kristmundsdóttur og Konan í köflótta stólnum eftir Þórunni Stefánsdóttur.

Jón Ólafsson, forstöðumaður Hugvísindastofnunar, tilnefndi bækur í flokki fræðirita og bóka almenns efnis, og Torfi H. Tulinius, dósent í frönsku, tilnefndi bækur í flokki fagurbókmennta. Þriggja manna lokanefnd valdi svo eina bók til verðlaunanna úr hvorum flokki en auk Jóns og Torfa situr Þorsteinn Gunnarsson, arkitekt og leikari, í nefndinni og er hann jafnframt formaður hennar. Þorsteinn var skipaður af forseta Íslands.

Á síðasta ári hlaut Guðmundur Páll Ólafsson verðlaunin fyrir bókina Hálendið í náttúru Íslands og Gyrðir Elíasson hlaut fagurbókmenntaverðlaunin fyrir smásagnasafnið Gula húsið.

Bókaútgefendur leggja fram bækur til tilnefningar. Að því er fram kemur á vef Eddu miðlunar og útgáfu voru að þessu sinni lagðar fram 72 bækur. Í flokki fræðibóka, handbóka og bóka almenns efnis voru lögð fram 25 verk en 47 bækur í flokki fagurbókmennta, þar af 10 barnabækur, 6 ljóðabækur og 4 smásagnasöfn.

Þetta er í 13. sinn sem Íslensku bókmenntaverðlaunin eru afhent.