ÝMIS ríki og samtök brugðust í gær hart við ummælum George W. Bush Bandaríkjaforseta í stefnuræðu hans í fyrrakvöld, þar á meðal Írak og Íran, sem forsetinn hafði ásamt Norður-Kóreu nefnt "öxul hins illa".
ÝMIS ríki og samtök brugðust í gær hart við ummælum George W. Bush Bandaríkjaforseta í stefnuræðu hans í fyrrakvöld, þar á meðal Írak og Íran, sem forsetinn hafði ásamt Norður-Kóreu nefnt "öxul hins illa". Sagði Mohammad Khatami, forseti Írans, m.a. að Bush hefði verið "herskár og móðgandi" í garð írönsku þjóðarinnar og Taha Yassin Ramadan, varaforseti Íraks, sagði ummæli Bush "heimskuleg og ósæmileg".

Bush sagði í stefnuræðunni að Bandaríkjamenn myndu ekki líða ógn af hálfu "útlagaríkja", sem reynt hefðu að koma sér upp gereyðingarvopnum og skotið hefðu skjólshúsi yfir hryðjuverkamenn. Nefndi hann sem fyrr segir Írak, Íran og Norður-Kóreu í þessu sambandi, en vék einnig að herskáum hreyfingum Palestínumanna og hryðjuverkahópum á Filippseyjum og í Afríkuríkjum. Gaf hann til kynna að herferðin gegn hryðjuverkum væri ekki einskorðuð við að uppræta al-Qaeda-samtökin.

Hörð orð forsetans í garð Írana komu fréttaskýrendum nokkuð á óvart, enda hafði gætt nokkurrar þíðu í samskiptum ríkjanna að undanförnu, einkum í kjölfar hryðjuverkaárásanna á Bandaríkin. Snurða hljóp þó á þráðinn eftir að Ísraelar fullyrtu í byrjun mánaðarins að vopnasending, sem náðist á Rauðahafi og sögð var ætluð Palestínumönnum, hefði komið frá Íran, og ennfremur eftir að fregnir bárust af því að Íranar hefðu styrkt stríðsherra í Afganistan í því skyni að auka ítök sín í landinu.

Stjórnvöld í Íran brugðust í gær hart við ummælum Bush. "Við vísum ásökunum Bandaríkjamanna á bug og við teljum að heimsbyggðin muni ekki líða yfirgang þeirra," hafði ríkisútvarpið í Teheran eftir utanríkisráðherranum Kamal Kharrazi.

Írakar brugðust einnig ókvæða við. Salem al-Qubaissi, formaður nefndar íraska þingsins um alþjóðasamskipti, hafnaði ásökunum Bush og fullyrti að Bandaríkin, ásamt Ísrael, væru eina ríki heims sem beitti aðrar þjóðir ofbeldi ef þær lytu ekki vilja þeirra í einu og öllu. Þá lýstu herskáu hreyfingarnar Hamas, Jihad og Hezbollah því yfir að orð Bush væru einungis til þess ætluð að beina athyglinni frá hryðjuverkum Ísraela gegn Palestínumönnum og hétu því að halda áfram vopnaðri baráttu.

Flugstöðin í San Francisco rýmd

Miklar tafir urðu á flugi frá alþjóðaflugvellinum í San Francisco í Bandaríkjunum í gær eftir að ákveðið var að rýma hluta flugvallarins í um tvær og hálfa klukkustund. Hafði vaknað grunur um að sprengjuefnisagnir hefði verið að finna á skóm eins farþeganna. Maðurinn var á bak og burt þegar lögregla hugðist yfirheyra hann og var gripið til þess ráðs í öryggisskyni að rýma um 30 útgönguhlið á meðan hans var leitað.

Kaíró, Seoul, Teheran, Washington. AFP, AP.