Jón Guðnason fæddist í Reykjavík 31. maí 1927. Hann lést á Landspítala við Hringbraut aðfaranótt föstudags 25. janúar síðastliðins. Foreldrar Jóns voru Guðni Jónsson prófessor frá Gamla-Hrauni á Eyrarbakka, f. 22. júlí 1901, d. 4. mars 1974, og Jónína Margrét Pálsdóttir frá Nesi í Selvogi, f. 4. apríl 1906, d. 2. okt. 1936. Systkini Jóns eru: 1) Gerður skrifstofumaður, f. 4. mars 1926, maki Halldór Arinbjarnar, 2) Bjarni prófessor, f. 3. sept. 1928, maki Anna Guðrún Tryggvadóttir, 3) Þóra ritari, f. 17. febr. 1931, maki Baldur Aspar, 4) Margrét, f. 30. nóv. 1932, d. 13. maí 1952. Hálfsystkini Jóns, börn Guðna og síðari konu hans, Sigríðar Einarsdóttur frá Miðdal, eru: 1) Einar viðskiptafræðingur, f. 13. apríl 1939, 2) Bergur lögmaður, f. 29. sept. 1941, maki Hjördís Böðvarsdóttir, 3) Jónína Margrét upplýsingafulltrúi og útgáfustjóri, f. 17. mars 1946, maki Sveinn Snæland, 4) Elín, f. 14. okt. 1950.

Jón Guðnason kvæntist 6. apríl 1952 Sigrúnu Guðmundsdóttur kennara, f. 7. des. 1930. Foreldrar hennar voru Guðmundur F. Guðmundsson veitingaþjónn og Sigurbjörg Jónsdóttir matráðskona. Börn Jóns og Sigrúnar eru: 1) Sigurbjörg hjúkrunarfræðingur, f. 3. sept. 1952, gift Rafni Haraldssyni bónda, börn þeirra eru: Daði, Hlín, Rafn Haraldur og Sigríður, 2) Guðni framkvæmdastjóri, f. 20. sept. 1953, kvæntur Sólrúnu B. Kristinsdóttur forstöðumanni, börn þeirra eru: Jón, Elín Ragnheiður, Sigrún og Kristinn, 3) Guðmundur dósent í sagnfræði við HÍ, f. 28. júlí 1955, kvæntur Sæunni Kjartansdóttur sálgreini, börn þeirra eru: Hildur og Tryggvi, 4) Jónína Margrét kennari, f. 30. maí 1958, barn með Ólafi Óskarssyni: Hallveig; barn með Fransisco Villena Garcia: Valgerður, 5) Bjarni sölustjóri, f. 11. júlí 1959, kvæntur Kolbrúnu Björnsdóttur sálfræðingi, barn þeirra: Þóra; börn Kolbrúnar af fyrra hjónabandi eru: Jón Björn Njálsson (barn hans: Drífa Hrönn) og Harpa Hrund Njálsdóttir (barn hennar: Freyja Rún Pálsdóttir), 6) Snjáfríður skrifstofumaður, f. 2. maí 1964, börn hennar með fyrrv. eiginmanni, Kjartani Má Kjartanssyni, eru: Kjartan og Unnur.

Jón ólst upp í Reykjavík. Hann varð stúdent frá MR 1947, stundaði síðan sagnfræðinám við Kaupmannahafnarháskóla 1947-50. Hann lauk kandídatsprófi í sögu Íslendinga frá HÍ 1957. Kennari við Gagnfræðaskóla Vesturbæjar 1953-68, kennari við Menntaskólann í Reykjavík 1963-71. Árið 1968 varð Jón stundakennari við Háskóla Íslands, lektor 1971-77, dósent 1977-88 og prófessor frá 1988 til 1990, er hann lét af störfum vegna veikinda. Jón var ritstjóri Sögu, tímarits Sögufélags 1979-83 og eftir hann liggja fjölmörg rit, m.a. Mannkynssaga 1789-1848 (1960), Skúli Thoroddsen I-II (1968, 1974) og Umbylting við Patreksfjörð 1870-1970 (1993). Hann skráði endurminningar Einars Olgeirssonar alþingismanns og Haralds Ólafssonar sjómanns, og annaðist ritstjórn, útgáfu og þýðingar margra sagnfræðirita.

Útför Jóns Guðnasonar verður gerð frá Langholtskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.30.

Heimilið á Skeiðarvogi 1 er það líflegasta sem ég hef kynnst um dagana. Þegar ég kom þangað fyrst voru krakkarnir allir enn í foreldrahúsum og hverju þeirra fylgdu óteljandi vinir og kunningjar sem virtust líta á Skeiðarvoginn sem sitt annað heimili. Síminn hringdi látlaust og straumurinn um útidyrnar var eins og á alþjóðaflugvelli, enda gaf dyrabjallan sig undan álaginu. Á daginn var stofan þéttsetin unglingum sem drukku kaffi í lítravís og á kvöldin raðaði skarinn sér á hjónarúmið til að horfa á sjónvarpið. Engum virtist finnast þetta eðlilegra en Sigrúnu og Jóni.

Það er raunar erfitt fyrir mig að minnast Jóns án þess að geta Sigrúnar í sömu andrá, svo nálæg hefur hún verið honum. Þó að vart sé hægt að hugsa sér ólíkari einstaklinga hefur samband þeirra einkennst af samheldni og gagnkvæmri virðingu. Framan af ævi fetaði Jón í fótspor föður síns og helgaði sig kennslu og fræðastörfum á meðan Sigrún sinnti heimilinu, kennslu og börnum þeirra sex. Jón var mikilvirkur sagnfræðingur en hefur um árabil átt við vaxandi heilsuleysi að stríða. Við þær aðstæður hefur hann sem endranær sett allt sitt traust á Sigrúnu sem annaðist eiginmann sinn af einstakri umhyggju og natni. Það hefur verið lærdómsríkt að fylgjast með hvernig Jón hefur tekið örlögum sínum og aldrei hafa mannkostir hans komið betur í ljós. Sama hvað á hefur dunið, alltaf hefur Jón verið æðrulaus, hlýr og jákvæður, skarpur og áhugasamur um hversdagslegustu hluti. Afskiptasemi var ekki til í hans fari, þvert á móti var hann athugull og hlédrægur en jafnframt styðjandi við tengdabörnin ekki síður en sín eigin börn. Fram á síðasta dag fylgdist hann með öllu sínu fólki, íhugull, kíminn og með eindæmum minnugur.

Þó svo að börn Sigrúnar og Jóns hafi fyrir löngu stofnað sín eigin heimili hefur aldrei orðið nein lognmolla á Skeiðarvogi 1. Þangað höfum við öll sótt og ný kynslóð barna og unglinga hefur gert heimili afa og ömmu að sínu. Það er erfitt til þess að hugsa að Jón blandi sér ekki framar í hópinn á sinn hljóðláta og elskulega hátt. Það var gæfa að eiga Jón fyrir tengdaföður og afa barnanna minna og fyrir það þakka ég honum.

Sæunn Kjartansdóttir.

Fyrstu minningarnar eru um daglega göngutúra frá Skeiðarvoginum. Niður í Laugardal á sumrin, gegnum Grasagarðinn og upp Langholtið. Meðfram Suðurlandsbraut út að Grensás á veturna. Framhjá Skeifunni og Faxafeni sem hann kallaði "Skuldafen" á meðan þar spruttu upp verslanabyggingar á níunda áratugnum. Skylda að vera með húfu og trefil. Sund á morgnana, stundum alltof snemma fyrir syfjuð barnabörn, en við stauluðumst framúr. Það var svo gaman að vera með afa.

Hann reykti pípu og var alltaf snyrtilega klæddur. Hann var hávaxinn og grannur, hafði verið efnilegur íþróttamaður með Víkingi og fylgdist alltaf með gengi síns gamla félags. Hann var víst sérstaklega líkur föður sínum. Þeir höfðu ekki miklar áhyggur af veraldlegu lífsgæðakapphlaupi og því minni af veraldlegum vandamálum. Skrifstofan hans afa var ekki heilagur reitur þar sem börn máttu ekki koma inn heldur þvert á móti. Þar sitja nú sem ávallt bækur upp um alla veggi og tölvan góða sem hann fékk gefins fyrir löngu þegar ritvélar áttu að vera úreltar. Ætli hann hafi lært að kveikja á henni? Mikið var gott að kúra uppi í rúmi og lesa Andrésblöðin með afa.

Afi elskaði borgina sína Reykjavík og landið sitt Ísland. Hann fylgdist grannt með velgengni Bjarkar og Sigur Rósar erlendis og horfði á öll stórmót í íþróttum.

Hann tíndi kartöflur með ömmu og hlakkaði mikið til árlegra veiðiferða með systkinum sínum og mökum þeirra. Hann var samt fengsælastur þegar hann kvæntist ömmu. Á bak við þennan sterka mann stóð feikisterk kona. Af þeim er komin mjög samheldin stórfjölskylda sem hefur dreifst víða um veröld en umferðarmiðstöðin hefur alltaf verið í Skeiðó.

Stríðnisglottið var óborganlegt, og hann bjó yfir lúmskri kímnigáfu. Hann var sannkallaður fréttafíkill og einstaklega vel lesinn. Sagnfræðingurinn hvatti okkur ávallt til náms og til þess að skrá minningar niður á blað, merkja myndir og skilja eftir heimildir um samtímann. Það gerði hann sjálfur og skilur eftir sig mikinn auð. Hann skrifaði afburðafallega íslensku og gaf okkur einstaka gjöf með því að rita ævisögu hins afa okkar. Þrátt fyrir erfið veikindi í mörg ár kvartaði afi aldrei og ekki dvínaði þrjóskan. Við minnumst síðustu ára hans sérstaklega fyrir ótrúlegan lífsvilja og þakklæti. "Mér þykir svo vænt um hann," sagði hann í fyrra þegar talið barst að Guði. "Hann er svo góður." Við hugsum einmitt það sama um afa okkar og út af þessu viðhorfi til lífsins gleðjumst við nú í minningu hans.

Daði, Hlín, Rafn Haraldur

og Sigríður.

Það þykir vart við hæfi að rita eftirmæli um svo nákomna persónu og bróður sinn. Samt finnst mér að ég sé knúinn til þess. Jón var elsti bróðir minn og sá okkar fjögurra bræðra, sem líkastur var föður okkar að eðlisfari. Skapferli hans, aðallega jafnaðargeð og lítillæti, var svo ríkur þáttur í fari hans að ég fylltist oft aðdáun þegar við áttum tal saman. Jón var fæddur fræðimaður, vann störf sín í kyrrþey og forðaðist sviðsljósið eins og hann frekast gat. Útgáfa bóka hans varð þó til þess að Jón varð með aldrinum þekktur af fræðistörfum sínum, a.m.k. meðal sagnfræðinga, en sérsvið Jóns var sagnfræði síðari alda. Aðrir verða sjálfsagt til að rekja fræðistörf Jóns, en með þessum línum vildi ég minnast þessa hlédræga bróður míns og vinar.

Ég minnist nú allra þeirra stunda, sem við Hjördís áttum heima hjá Jóni og Sigrúnu þar sem spjallað var um heima og geima yfir kaffibolla. Jón var svo fjölfróður að hvergi var komið að tómum kofunum hvert sem umræðuefnið var. Glaðlyndi hans og ljúfmennska skein alltaf í gegn í góðra vina hópi. Fjölmenni átti ekki við Jón þótt hann stundaði kennslu sem lifibrauð. Jón var engu að síður góður kennari.

Jón átti við mjög erfið veikindi að stríða seinustu árin. Barátta hans við hinn alvarlega sjúkdóm sinn verður ávallt minnisstæð. Æðruleysi, hugrekki og bjartsýni Jóns var með ólíkindum í þeirri baráttu. Aldrei heyrði ég hann kvarta yfir hlutskipti sínu. Sigrún, kona hans, annaðist mann sinn í veikindunum nánast sem hjúkrunarkona. Það hefði ekki verið á allra færi að leysa störf hennar af hendi. Fyrir þessa umsjá og þrautseigju hennar vil ég nú þakka.

Það er svo skrítið hvernig lífshlaup manna er. Jón, sem gekk í fótspor föður okkar sem fræðimaður, eyddi síðustu árunum heima í umsjá eiginkonu sinnar rétt eins og faðir okkar lifði síðustu ár sín, veikur heima hjá móður minni. Hvorugur gat sinnt ritstörfum sem voru þeim allt áður en þeir veiktust. Þeir feðgar hittast nú aftur á Guðs vegum.

Bergur bróðir og fjölskylda.

Horfinn er af sjónarsviði okkar vinur minn og skólabróðir, Jón Guðnason, fyrrverandi prófessor við Háskóla Íslands. Kynni okkar hófust er við vorum nemar í Ágústarskólanum við Tjörnina. Síðan fluttum við okkur yfir Lækjargötuna í Menntaskólann í Reykjavík þó að það væri aðeins á fótinn og urðum þar bekkjarbræður og sessunautar. Það fór vel á með okkur og urðum við fljótlega miklir mátar og hélst vinátta okkar eftir það án þess að skugga bæri á eða í sextíu ár.

Við vorum þó á margan hátt ólíkir einstaklingar. Skoðanir okkar á þjóðfélagsmálum voru ekki alltaf samstiga. Jón var sannfærður vinstrimaður en ég heldur til hægri ef eitthvað var og stundum utangátta þar ef svo má að orði komast. Við forðuðumst því að ræða um stjórnmál og því síður að rífast um þau og ekki minnist ég þess að nokkurn tíma hafi fallið styggðaryrði á milli okkar. Við vissum báðir hve langt við mættum ganga í þeim efnum. Hins vegar töluðum við oft saman í hálfkæringi og gerðum grín hvor að öðrum. Spekingur einn hefur látið hafa eftir sér að mennirnir hafi fundið upp tungumálin til þess að skilja hver annan en nú væru þau notuð til þess að misskilja hver annan og þess bæri heimurinn merki í dag. Það getur verið mannbætandi að þegja saman. Jón var að eðlisfari dulur og ekki mannblendinn en í þröngum hópi vina var hann bæði spaugsamur og skemmtinn. Jón hafði misst móður sína aðeins níu ára gamall og mun það hafa verið honum þung reynsla því aldrei vildi hann ræða við mig um það tímabil ævi sinnar og taldi ég mig þó eiga trúnað hans.

Jón var ágætur námsmaður og sérstaklega voru ritgerðir hans í Menntaskólanum um íslensk efni eftirtektarverðar og vel ritaðar af svo ungum manni þó ekki fengju þær alltaf náð fyrir augum kennara af gamla skólanum. Frásögn hans var skýr og skilmerkileg og laus við allt orðskrúð. Ég minnist þess að eitt sinn áttum við að skrifa heimaritgerð um íslenskt skáld og máttum við velja okkur skáld. Ég spurði Jón hvaða skáld hann hefði valið. "Auðvitað Halldór Kiljan Laxness, þú veist um dálæti mitt á því skáldi." Þá sagði ég við Jón: "Ég vil minna þig á það, drengur minn, að íslenskukennarinn hefur horn í síðu skáldsins og telur að hann sé að afflytja íslenska tungu og kommusetning hans sé hneyksli." "En um hvaða skáld ætlar þú að skrifa?" spyr Jón. "Örn Arnarson (Magnús Stefánsson) því kennarinn hefur hann í hávegum og einhverjar kommur fæ ég fyrir það." Við skilum okkar ritgerðum og hafði Jón lagt mikla vinnu í sitt verk en ég hespaði mínu verki af í hvelli. Þegar Jón las ritgerð mína sagði hann hlæjandi: "Þú ferð létt með það." "Já, en annað stóð ekki til. Ég byrja á kvæði og enda á kvæði en þar á milli tek ég ófrjálsri hendi nokkrar upplýsingar úr formála fyrir ljóðabók Arnar - Illgresi - sem munu hitta kennarann í hjartastað. Hvað ert þú að eyða tíma þínum í það að skrifa gáfulega þegar kennarinn veit ekki hvað það er." Við fengum ritgerðirnar til baka með einkunnum. Ég fékk átta en Jón fjóra. "Þú áttir kollgátuna," sagði Jón og skellihló, "en auðvitað gat ég búist við þessu." Það var mikið hlegið að þessu atviki. Jón hækkaði verulega í áliti í bekknum en að sama skapi minnkaði álitið nokkuð á kennaranum.

Í hverjum bekk voru nokkrar klíkur og í þær völdust nemendur eftir skapsmunum og áhugamálum. Í klíku okkar Jóns völdust yndislegir félagar, Eggert Ólafsson og Rögnvaldur Finnbogason sem báðir fóru í guðfræði, öllum til undrunar því að þeir voru gleðimenn miklir, og Gunnar Guðmundsson sem nam læknisfræði við góðan orðstír. Eftir skólagöngu héldum við áfram að halda hópinn og hittumst oft á Dyngjuvegi 10 þar sem foreldrar mínir bjuggu. Alltaf komu þeir glaðbeittir og fagnandi enda Eggert og Rögnvaldur þekktir fyrir orðheppni sína og stórir í gleði sinni. Jón, Gunnar og ég héldum þeim alltaf við efnið enda var mikið hlegið. Þetta voru yndislegar stundir. En nú eru allir þessir vinir mínir horfnir til feðra sinna en ég sit einn eftir og hugleiði hvort það sé rétt sem sagt er að þeir leiðinlegustu lifi alltaf lengst.

Þegar við Jón kynntumst fyrst bjó hann á Eiríksgötunni hjá föður sínum og seinni konu hans Sigríði Hjördísi Einarsdóttur frá Miðdal sem reyndist börnum Guðna Jónssonar prófessors, þeim Jóni, Bjarna og Gerði, frábær manneskja. Fjölskyldan flutti síðan í Drápuhlíðina í stærra og hagkvæmara húsnæði. Ég var alltaf hálfgerður heimagangur hjá þessu góða fólki sem allt vildi fyrir mig gera þó að ég væri ekki af Bergsætt.

Jón átti því láni að fagna að eignast góða konu, Sigrúnu Guðmundsdóttur, sem stóð við hlið hans í blíðu og stríðu og erfið hafa þau verið síðustu árin vegna langvarandi veikinda Jóns. Þau bjuggu í Skeiðarvogi 1 og þangað leitaði ég oft eða eins oft og mér var mögulegt þar sem ég hef búið í Neskaupstað í yfir þrjátíu ár og ekki alltaf átt heimangengt. Alltaf voru móttökurnar hinar sömu. Jón lagði sig þá fram við að vera á léttu nótunum þótt sjúkur væri og Sigrún lét sitt ekki eftir liggja. Nú fennir í sporin en á þessari dapurlegu stund sendum við hjónin Sigrúnu og börnum þeirra Jóns hugheilar samúðarkveðjur sem og öllum sem voru þeim innanhandar á meðan á veikindum Jóns stóð. Megi framtíðin fara hlýjum höndum um þessa fjölskyldu og góðar minningar veita henni styrk.

Ég hef verið beðinn um að senda innilegar samúðarkveðjur frá stúdentaárgangi 1947 í Menntaskólanum í Reykjavík.

Guðmundur A. Ásgeirsson.

Memento mori stendur þar, og eðlilega kemur slík hugsun upp í huga manns, þegar jafnaldri og gamall samstarfsmaður kveður.

Þegar Jón Guðnason var að vaxa úr grasi var fyrst kreppa, síðan heimsstyrjöld og að svo búnu veltiár, sem með skjótum hætti breytti fremur hæggengum þróunarferli í stórstíg stökk. Margir sem fæðst höfðu í hálfgerðu miðaldaþjóðfélagi nítjándu aldar og lifðu fram á síðustu áratugi hinnar tuttugustu höfðu svo sannarlega fengið að horfa á aldahvörf um sína daga.

Foreldrar Jóns voru Guðni Jónsson magister, einn þeirra fáu sem á fyrsta aldarfjórðungi Háskóla Íslands luku prófi í íslenskum fræðum frá heimspekideild Háskóla Íslands, og fyrri kona hans, Jónína Margrét Pálsdóttir.

Jón var ekki nema níu ára gamall þegar móðir hans dó frá fimm ungum börnum. Var Jón þeirra næstelstur. Enn átti systkinahópurinn eftir að stækka. Með síðari konu sinni eignaðist Guðni fjögur börn.

Guðni var annálaður iðju- og afkastamaður. Hann kenndi við ýmsa skóla, lengst við Gagnfræðaskóla Vesturbæjar eins og hann hét síðast, en þar var hann skólastjóri frá 1945 til 1957. Frá 1958 var hann prófessor.

Þegar börn Guðna voru að komast upp, einkum hin eldri, var leið ungmenna til mennta þrengri og torfærari en síðar hefur orðið. Á móti kom að góð menntun naut þá meira álits en nú, og lengi var talið að naumast gæti svo aumt háskólapróf að það tryggði ekki handhafa öruggt starf.

Að loknu stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1947 hóf Jón nám í sagnfræði við Kaupmannahafnarháskóla. En þegar tekin var upp kennsla í almennri sögu í Háskóla Íslands hvarf hann þangað, og 1957 lauk hann þar cand.mag. prófi í sögu Íslands, almennri sögu og landafræði.

Þar með má segja að ferill hans hafi að verulegu leyti verið ráðinn. Hann kenndi síðan við Gagnfræðaskóla Vesturbæjar 1953-68, Menntaskólann í Reykjavík 1963-74 og Háskóla Íslands, fyrst sem stundakennari, þá lektor, dósent og loks prófessor síðustu árin, uns hann baðst lausnar sökum heilsubrests.

Jón var ekki einasta ötull og afkastamikill kennari, rétt eins og verið hafði faðir hans, heldur kippti honum líka í kynið sem afkastamikill rithöfundur og fræðimaður. Ég hef alltaf talið það víst, að þeir bræður, Jón og Bjarni, hafi frá ungaaldri fengið smjörþefinn af fræðimennsku hjá karli föður sínum, t.d. við gerð nafnaskráa og annarra registurverka, sem hann vandaði mjög til í þjóðsögum sínum og þá ekki síður í útgáfu Íslendingasagna, þar sem það gagnmerka brautryðjandastarf var unnið að gera nafnaskrár fyrir sögurnar allar í einu lagi.

Fyrsta bókin sem frá hendi Jóns kom var Mannkynssaga 1789-1848. Hún kom út 1960. Síðan rak hvert verkið annað: Verkfræðingafélag Íslands 1912-62 kom út 1962. Skúli Thoroddsen I. og II., 1968 og 1974. Eftir Einari Olgeirssyni skráði hann Ísland í skugga heimsvaldastefnunnar, 1980, og Kraftaverk einnar kynslóðar, 1983. Eftir Haraldi Ólafssyni sjómanni skráði hann Brimöldur, 1987. Þess utan þýddi hann bindi í Mannkynssögu flokki AB og fleiri rit. Um skeið var hann ritstjóri Sögu, og árum saman sá hann um og stýrði ritflokki á vegum Sagnfræðistofnunar.

Þetta er einungis ágrip af langri og farsælli starfssögu Jóns, en um allt einkenndist hún af því hæglæti, yfirlætisleysi og prúðmennsku, sem ávallt fylgdi Jóni.

Ég kynntist Jóni Guðnasyni fyrst þegar við vorum samtímis við nám í háskólanum. Síðan áttum við víða og lengi samleið sem kennarar, fyrst í Gagnfræðaskóla Vesturbæjar, síðan MR og loks Háskóla Íslands.

Mér flýgur í hug að í kennaraliði Gagnfræðaskóla Vesturbæjar voru okkur Jóni samtímis skólastjórarnir dr. Guðni og Óskar Magnússon frá Tungunesi, dr. Björn Þorsteinsson og Sverrir Kristjánsson. En flestir eða allir kenndum við annað meira en sögu. Í þá daga þurftu unglingakennarar helst að geta brugðið sér í sem flest hlutverk. Má mikið vera ef svo er ekki enn í dag.

Að leiðarlokum er mér efst í huga þakklæti fyrir ánægjulega samfylgd, meðan leiðir lágu saman. Og innilega samúð vil ég tjá þeim ástvinum, sem nú kveðja þennan mæta mann.

Bergsteinn Jónsson.

Flestum bregður illa er fregnir berast af andláti góðra vina. Svo fór undirrituðum er það spurðist síðastliðinn laugardag að góðvinur minn og náinn samstarfsmaður til margra ára, Jón Guðnason, fyrrverandi prófessor, hefði látist daginn áður. Andlátsfregnin þurfti í sjálfu sér ekki að koma á óvart, hann hafði lengi verið veikur, en engu síður koma slík tíðindi ávallt í opna skjöldu. Þegar ég ræddi síðast við hann í síma á næstliðinni jólaföstu bar hann sig vel eins og alltaf, kvartaði ekki þótt víst ætti hann við alvarlegan heilsubrest að stríða. Þá hvarflaði ekki að mér að þetta yrði okkar síðasta samtal.

Fundum okkar Jóns Guðnasonar bar fyrst saman vorið 1968 og varð það atvik mér býsna eftirminnilegt. Þannig var mál með vexti að góðkunningi minn einn og skólafélagi hafði tekið að sér stundakennslu við Menntaskólann í Reykjavík um veturinn. Þegar leið að vori varð hann að hætta vegna prófanna í háskólanum og bað mig um að taka verkið að mér og ljúka því. Ég féllst á þetta í einhverju fljótræði, en ekki var það uppburðarmikill piltungur sem gekk upp tröppurnar að MR eitt síðdegi í apríl. Reynsla og kunnátta í kennslu var engin, ég vissi lítið um til hvers væri í raun ætlast af mér og sem norðanstúdent þekkti ég ekkert til í MR, vissi varla deili á nokkrum manni þar innandyra og hafði aldrei í skólahúsið komið. Þegar inn fyrir útidyrnar kom varð ég að spyrja nemendur á ganginum til vegar. Þeir vísuðu mér góðfúslega á dyrnar að kennarastofunni, þar smeygði ég mér inn og lét fara sem minnst fyrir mér. Um leið og ég kom inn fyrir dyrnar sá ég hvar hávaxinn og grannur maður stóð upp úr stól, lagði frá sér pípuna, gekk beint til mín brosandi, rétti mér höndina og sagði: "Blessaður, nafni, vertu velkominn." Þetta var Jón Guðnason. Það var ekki lítils virði fyrir ungan og feiminn nýgræðing að fá slíkar móttökur og ekki spillti að Jón var þegar á þessum árum orðinn einn fremsti sagnfræðingur íslenskur og naut mikillar virðingar, ekki síst á meðal stúdenta og annarra yngri manna í faginu. Hann var um þessar mundir að ljúka fyrra bindi ævisögu Skúla Thoroddsen alþingismanns, en það verk átti mikinn þátt í þeirri vakningu í rannsóknum á sögu 19. aldar, sem einmitt varð um þetta leyti.

Eftir þessa fyrstu fundi varð samstarf okkar nafna mikið um árabil. Við vorum samkennarar í MR næstu tvo veturna og nokkrum árum síðar bauð hann mér að gerast samstarfsmaður sinn við kennslu í samtímasögu í Háskóla Íslands. Þar störfuðum við náið saman um árabil og tókst þá með okkur vinátta, sem aldrei bar skugga á. Jón var einstaklega þægilegur samstarfsmaður, hjálpfús og glöggur, vinnuþjarkur sem hlífði sér hvergi en kappkostaði jafnan að létta undir með öðrum. Hann var framúrskarandi skemmtilegur í allri viðræðu, vel heima um allt það er laut að sögu og sagnvísindum og kom mönnum oft á óvart með hnyttnum og óvæntum athugasemdum um menn og málefni. Stóryrtur var hann aldrei, felldi enga sleggjudóma, en ef honum ofbauð ummæli sem hann hafði heyrt eða séð á prenti átti hann til að líta upp kíminn og segja: "Nafni, mikið assgoti...". Meira var það nú ekki en í kjölfarið fylgdi gjarnan meinfyndin athugasemd. Þegar ég bjó erlendis um skeið skrifuðumst við á og alltaf var jafngaman að fá bréf frá Jóni. Þar sagði hann fréttir af mönnum og málefnum, ekki síst kollegum, og þótt oft mætti lesa á milli línanna að ekki væri hann alls kostar sáttur við framgöngu einstakra manna eða þróun mála hrutu hnjóðsyrði aldrei úr penna hans. Hann reyndi ávallt að sjá björtu hliðina á hverju máli, hverjum manni, og aldrei gleymdi hann umhyggjunni, spurði hvernig gengi, hvatti og uppörvaði og sendi (oft óbeðinn) ljósrit af gögnum sem hann taldi að gætu komið mér að gagni. Þegar hann svo frétti að ég þyrfti að bregða mér í stuttan rannsóknarleiðangur frá Svíþjóð til Hull mælti hann svo fyrir að ég hefði samband við Guðna son sinn, sem þá bjó í Hull. "Hann ratar þarna og getur orðið þér innan handar," sagði Jón. Hjá Guðna fékk ég afbragðs móttökur og sá ekki eftir því að hafa farið að ráðum nafna míns. Þarna var hann hollráður sem endranær.

Jón Guðnason var mikilvirkur fræðimaður, en stundaði ávallt rannsóknir og ritstörf samhliða mikilli kennslu, fyrst í gagnfræða- og menntaskóla og síðan í háskóla. Fyrsta bók hans, Mannkynssaga 1789-1848, kom út árið 1960, einstaklega vel skrifuð bók og skemmtileg. Á öndverðum 7. áratugnum mun hann hafa hafist handa um ritun ævisögu Skúla Thoroddsen, alþingis- og sýslumanns, og kom fyrra bindið út árið 1968 en hið síðara 1974. Það verk er ein albesta ævisaga íslensks stjórnmálamanns, sem samin hefur verið, og byggist á viðamikilli rannsókn frumheimilda. Nokkrum árum síðar skráði Jón æviminningar Einars Olgeirssonar alþingismanns, sem út komu í tveimur bindum á árunum 1980 og 1983, síðan bókina Brimöldur, frásögn Haralds Ólafssonar sjómanns, sem út kom árið 1987. Síðasta bók hans, Umbylting við Patreksfjörð 1870-1970. Frá bændasamfélagi til kapítalisma, kom út 1993 og fjallaði um breytingar og þróun bændasamfélagsins þar vestra til þess sem nú mun kallað nútímahorf.

Mörgum myndi þykja þessi afköst nægileg fyrir mann sem jafnframt stundaði fulla kennslu. Þau voru þó aðeins hluti af störfum Jóns á fræðasviðinu. Hann skrifaði einnig fjölmargar fræðilegar greinar og ritdóma, var ritstjóri tímaritsins Sögu um árabil og ritstýrði einnig ritröð Sagnfræðistofnunar Háskóla Íslands. Þar sá hann um útgáfu hátt í þrjátíu rita og veit ég að mörg þeirra kostuðu hann mikla vinnu. Auk þessa alls samdi hann eitt og annað, sem ekki hefur enn komið út, en sumu dreifði hann meðal samstarfsmanna í fjölriti.

Með Jóni Guðnasyni er genginn góður drengur, maður sem í engu mátti vamm sitt vita. Fólki má lýsa með ýmsum hætti, mörgum orðum eða fáum eftir atvikum, en að minni hyggju lýsir eitt orð Jóni best: góðvild. Hann vildi öllum vel, studdi við bakið á vinum og samstarfsmönnum eftir bestu getu og lagði sig jafnan í líma við að greiða götu nemenda sinna.

Á kveðjustundu þakka ég fyrir allt gamalt og gott, einlæga vináttu og margra ára samstarf, sem aldrei bar skugga á. Eftirlifandi eiginkonu hans, börnum og öðrum aðstandendum votta ég dýpstu samúð.

Láti nú Guð honum raun lofi betri.

Jón Þ. Þór.

Kynni okkar Jóns hófust þegar við hófum byggingu raðhúss í Skeiðarvogi 1 og 11. Síðan eru liðin 44 ár og höfum við búið hér alla tíð síðan.

Við unnum mikið sjálfir við byggingu húsanna. Fjárráð voru lítil og lánafyrirgreiðsla með allt öðrum hætti en nú er. Samstarf okkar Jóns og samvinna við bygginguna varð strax með miklum ágætum. Fann ég strax hve traustur og ábyggilegur Jón var bæði til orðs og æðis.

Eftir að við fluttum í húsin var mikill samgangur milli okkar Jóns og Sigrúnar og barna okkar.

Með árunum þróaðist vinátta sem hefur verið okkur og börnum okkar ómetanleg.

Margar ferðirnar fórum við saman um landið meðan börnin voru lítil. Einnig fórum við hjónin með Jóni og Sigrúnu í utanlandsferðir sem aldrei gleymast og verða okkur ævinlega dýrmætar í minningunni.

Jón var höfðingi bæði í sjón og raun. Öllum leið vel í návist hans sakir mannkosta hans og hlýs viðmóts.

Lífsstarf Jóns var á sviði bókmennta eins og hann átti kyn til. Ritaði hann meðal annars fjölmargar greinar í blöð og bækur, skrifaði ævisögur o.fl. svo eitthvað sé talið.

En aðalstarf hans var kennsla, lengst af við Menntaskólann í Reykjavík og síðar við Háskóla Íslands, fyrstu árin lektor og síðar prófessor er hann lét af störfum.

Munu aðrir sem betur til þekkja fjalla um þennan aðalþátt í lífi og starfi Jóns Guðnasonar.

Jón var kvæntur Sigrúnu Guðmundsdóttur kennara og áttu þau sex börn sem öll hafa menntast hvert á sínu sviði og farnast vel.

Síðustu ár hefur Jón átt við mikið heilsuleysi að stríða. Nú er hann allur og genginn á vit feðra sinna.

Hans er nú sárt saknað af mér og mínu fólki. Hafi hann heila þökk fyrir vináttu og elskusemi alla tíð.

Sigrúnu, börnunum og öðrum aðstandendum vottum við einlæga samúð.

Fjóla og Gunnlaugur.

Kveðja frá Sagnfræðinga- félagi Íslands

Hæglyndi og ljúfmennska eru sennilega þau orð sem flestum fyrrverandi nemendum Jóns Guðnasonar við Háskóla Íslands koma í hug þegar þeir minnast hans. Kennslustundirnar voru eftirminnilegar enda átti hann auðvelt með að koma því til skila í fáum og hnitmiðuðum setningum sem hann taldi mikilvægast. Það var einnig eitt af aðalsmerkjum hans að líta á stúdenta sem jafningja sína og endurspeglar það alþýðleika hans líklega best. Sá eiginleiki birtist einnig í hvatningum hans til okkar stúdentanna um að birta afrakstur rannsókna okkar í bókum og tímaritum. Ef til vill hefur reynsla hans af öðru en háskólakennslu átt þátt í því að móta viðhorf hans, en áður en hann réðst til Háskóla Íslands, þar sem hann starfaði í rúma tvo áratugi, hafði hann um langt skeið kennt bæði í gagnfræða- og menntaskóla.

Þótt Jón hafi af heilsufarsástæðum þurft að láta af störfum rúmlega sextugur að aldri var framlag hans til rannsókna og kennslu umtalsvert, auk þess sem hann ritstýrði mörgum verkum. Sagnfræðingafélag Íslands, þar sem prófessor Jón Guðnason var heiðursfélagi, sendir fjölskyldu hans og ættingjum samúðarkveðjur.

F.h. Sagnfræðingafélags Íslands,

Páll Björnsson.

Sæunn Kjartansdóttir.