Franski félagsfræðingurinn Pierre Bourdieu lést 23. janúar síðastliðinn, sjötíu og eins árs að aldri. Bourdieu sagðist líta á sig sem bardaga- eða íþróttamann sem þyrfti að berjast til hins síðasta fyrir skilningi á sinni eigin stöðu sem fræðimanns en hann er nú kvaddur í Frakklandi sem einn af áhrifamestu fræðimönnum landsins.
FRANSKI félagsfræðingurinn Pierre Bourdieu var brautryðjandi gagnrýnna félagsfræða samtímans. Hann er einn þekktasti fræðimaður okkar tíma og verk hans hafa haft afgerandi áhrif á fræðaiðkun um allan heim. Alls staðar þar sem menn velta fyrir sér endurskoðun fræðanna á þverfaglegum forsendum, endursköpun menntakerfisins og samfélagsins almennt á hinum "post-módernísku" tímum, lesa menn Bourdieu. Þeir sem berjast gegn kynjamisrétti, kynþáttahatri, fælni gagnvart samkynhneigðum eða innflytjendum, svo fáein málefni séu nefnd, vísa oftar sem ekki í verk hans máli sínu til stuðnings. Innlegg Pierres Bourdieu til samtímaumræðunnar er það mikilvægt að varla gæti talist ábyrgt, af hendi fræðimanna og annarra borgara að leiða það hjá sér.

Bourdieu lést nú á dögunum, sjötíu og eins árs að aldri. Í frönskum dagblöðum minnast helstu stjórnmála- og menntamenn landsins hans af virðingu. "Nú er fallinn frá einn hæfileikaríkasti menntamaður Frakklands," sagði forseti landsins Jacques Chirac og forsætisráðherrann Lionel Jospin lýsti yfir trega sínum vegna fráfalls meistara félagsfræðinnar og sagði að hann hefði í lífi sínu náð að brúa bilið milli fræðanna og hinnar pólitísku baráttu. Fræðimenn og spekingar harma góðan dreng og skemmtilegan og reyna jafnframt að skilgreina stöðu hans í stjórnmála- og fræðiheiminum. Slíkar skilgreiningar eru ekki eins auðveldar og ætla mætti í tilfelli Bourdieus því hann átti heima bæði alls staðar og hvergi. Hann var félagsfræðingur sem talaði jafnframt mál heimspekinnar, hagfræðinnar, bókmenntanna, tungumálafræðanna og svo mætti lengi telja. En kannski er þó auðveldara að koma honum á bás núna þegar hann er hættur að geta gripið fram í!

Bourdieu sagðist líta á sig sem bardaga- eða íþróttamann sem þyrfti að berjast til hins síðasta fyrir skilningi á sinni eigin stöðu sem fræðimanns. Hann leitaðist ekki einvörðungu við að skýra hana í ritverkum sínum heldur kom hann einnig reglulega fram á opinberum vettvangi stjórnmála og fjölmiðla til að sýna fram á möguleika þess sem væri í stöðu menntamannsins til að taka þátt í samtímaumræðunni. Spurningin sem mennta- og listamenn hafa reynt að svara í heila öld er sú hvort og hvernig þeir geti verið pólitískt ábyrgir og tekið þátt í stjórnmálum án þess að láta af fræðilegri ábyrgð og sannfæringu. Heimspekingurinn Jean-Paul Sartre var, svo eitt dæmi af mörgum sé tekið, flokksbundinn Kommúnisti og tók oft á tíðum beina pólitíska afstöðu í verkum sínum á meðan þýski heimspekingurinn Martin Heidegger lét, til dæmis, uppgang Nasismans í heimalandi sínu með öllu afskiptalausan. Enn stendur yfir deila meðal franskra fræðimanna um þessa afstöðu eða afstöðuleysi eins helsta hugsuðar síðari tíma og það yfirleitt dæmt sem í hæsta máta óábyrgt. Pierre Bourdieu vildi síst af öllu vera flokksbundinn og tala máli pólitískrar hugmyndafræði en hann lét þó ekki stjórnmálin afskiptalaus. Hann skilgreindi sig sem "gagnrýninn" fræðimann og taldi starf sitt vera pólitískt í sjálfu sér. Hann leitaðist við að skilja þau efnahagslegu, félagslegu og menningarlegu öfl og lögmál sem eru ráðandi í samfélaginu og fannst vera skylda sín að miðla þeim skilningi. "Ef ég væri veðurfræðingur væri það á mína ábyrgð að láta menn vita um væntanlegt snjóflóð," sagði hann í viðtali og bætti við að sem félagsfræðingur teldi hann það vera ábyrgð sína að benda mönnum á þá hættu sem heimsvæðingin og uppgangur nýfrjálshyggjunnar hefði væntanlega í för með sér. Ef menn vilja ekki vakna til vitundar um núverandi hættuástand mun hið svokallaða lýðræðisfyrirkomulag bráðlega ekki vera nema orðin tóm og það misrétti sem við nú þegar búum við aukast til muna.

Sem dæmi um baráttu Bourdieus á sviði stjórnmála á níunda og tíunda áratugnum mætti nefna stuðningsyfirlýsingu hans og Michels Foucault við pólska verkfallsmenn (Solidarnosc), tilraunir hans til að styðja, ásamt Jacques Derrida, við bakið á alsírskum starfsbræðrum, gagnrýni hans á fordæmingu Salmans Rushdie og gagnrýnisyfirlýsingu um uppgang frjálshyggjunnar. Bourdieu hvatti menntamenn til að stofna þrýstihóp til stuðnings frönskum verkfallsmönnum og þegar atvinnulausir og skilríkjalausir innflytjendur í París mótmæltu óréttmætri meðferð ríkisins í sinn garð, fór hann út á götu með kalltæki og lýsti yfir stuðningi sínum við alla þá sem berjast "gegn eyðileggingu siðmenningarinnar". Hann var sannfærður um að eina leiðin til að berjast gegn ríkjandi stjórnskipulagi væri, auk þess að leggja stund á gagnrýnin fræði, að styrkja hið borgaralega samfélag með stofnun félagasamtaka, hagsmunahópa, rannsóknarhópa, útgáfufyrirtækja og með því að betrumbæta skólakerfið.

Pierre Bourdieu hóf rannsóknir sínar á sjötta áratugnum í Alsír þegar hann leysti herskyldu sína með kennslu. Þar kynnti hann sér stöðu kvenna og uppbyggingu menntakerfisins auk þess að eiga í löngum samræðum við félaga sinn Jacques Derrida sem þá var barnaskólakennari í sama landi. Síðan rannsakaði hann á vettvangi svo árum skipti franska menntakerfið, menningar- og listaheiminn franska og fjölmiðlaheiminn. Hann hefur síðan sent nemendur sína út um heiminn til að gera svipaðar vettvangsrannsóknir. Til að skýra hin samfélagslegu fyrirbæri notaði hann meðal annars hugtök sín um ójafna dreifingu auðmagnsins. En þar átti hann ekki einvörðungu við hið efnahagslega auðmagn, samanber hugmynd Karls Marx, heldur jafnframt hið menningarlega og félagslega auðmagn sem felst meðal annars í félagslegri virðingu, hæfni til að tjá sig og mynda félagsleg tengsl. Hann taldi að slíkt auðmagn erfðist og því væru menn frá fæðingu misvel í stakk búnir til að tala máli sínu, mynda tengsl og koma sér á annan hátt áfram í lífinu. Sá mismunur væri síðan endurframleiddur í skólakerfinu og fjölmiðlum með því að telja mönnum trú um að þeir tilheyrðu ákveðnum hópi og ættu þess ekki kost að komast þaðan. Hann komst að því eftir veru sína í barnaskólum að þeir nemendur sem koma úr miðstéttarfjölskyldum eða menningarheimilum, eru mun líklegri til að standa sig vel vegna þess að þeir vita, ómeðvitað, hvernig á að þóknast kennaranum, sem eins og þeir kemur úr menntafjölskyldu, og þeir tala því sama mál og hann. Það mál virkar hins vegar sem táknrænt og útilokandi ofbeldi gagnvart hinum sem ekki hafa sams konar uppeldi. Í hverjum og einum hópi eða "heimi" samfélagsins; menningarheiminum, menntaheiminum, trúarheiminum, stjórnmálaheiminum, fjölmiðlaheiminum o.s.frv., ríkja óskráðar og jafnvel ómeðvitaðar reglur og því verða menn annaðhvort að hafa fæðst inn í hann til að geta leikið þar réttan leik eða leggja mikla vinnu á sig við að læra þessar leikreglur. Þegar menn eru svo einu sinni eru orðnir innvígðir í ákveðinn samfélagshóp berjast þeir fyrir stöðu sinni þar, fyrir yfirráðum og valdi, með því að sýna fram á sérstöðu sína gagnvart öðrum einstaklingum, öðrum heimum. Þeir tala sérstakt mál (samanber mál sérfræðinga), hafa betri listasmekk en aðrir, spila golf en ekki fótbolta, taka "listrænar" myndir en ekki bara fjölskyldumyndir og svo framvegis.

Þegar Pierre Bourdieu kom til Parísar utan af landi til að leggja þar stund á háskólanám talaði hann landsbyggðarmál, komandi úr lágstéttarfjölskyldu. Hann lagði hart að sér að læra hina menntuðu orðræðu til að geta innvígst í hinn franska menntaheim. Menntakerfið í Frakklandi byggist á samkeppni sem á að skapa endurnýjun og tryggja gæði en þar sem aðeins þeir sem í fyrsta lagi kunna samkeppnismálið og í öðru lagi hafa efni á því að þjálfa sig í góðum skólum komast í gegnum síuna, gerir samkeppnin ekki annað en endurframleiða sömu fræðimennina og sömu hæfnisviðmiðin. En Bourdieu komst samt með harðfylgi inn um dyrnar og varð innsti koppur í búri! Árið 1981 fékk hann prófessorsstöðu við virtustu menntastofnun Frakka, Collége de France, og gegndi auk þess prófessorsstöðu í stofnun æðri félagsfræða (L'EHESS) auk þess að kenna reglulega í skólum í Bandaríkjunum. Hann stýrði um árabil stofnun evrópskra félagsfræða og var ritstjóri franskra og alþjóðlegra tímarita og bókaútgáfa.Verk hans skipta tugum og eru þýdd yfir á fjölmörg tungumál og sitja á metsölulistum víða um heim. Það má því segja að hann hafi náð að gera það sem samkvæmt kenningu hans er nánast ómögulegt en þó æskilegt, þ.e.a.s. að eignast það menningarlega auðmagn sem hann hafði ekki hlotið í arf, að njóta virðingar og vera í stöðu til að láta hlusta á sig.

Í þeirri stöðu sem hann var kominn í ætlaði hann sér að umbreyta menntaheiminum og jú öðrum heimum um leið, innan frá og veita þannig öðrum inngang. En er einhver möguleiki til þess að slíkur maður geti sagt og gert eitthvað raunverulega gagnrýnið þegar hann er orðinn innvígður í menntaheiminn, talar mál hans og fer eftir reglunum? Er hann ekki eins líklegur til að endurframleiða það dulda ofbeldi sem er samofið þessu máli, þessum reglum? Það var einmitt um þessa erfiðu stöðu sem hann fjallaði í verkum sínum. Hann talaði með klofinni tungu, talaði málið til að tala máli annars máls. Og þess vegna er ekki svo undarlegt að á stundum hafi verið erfitt að skilja hvað hann var að fara! Oft var hann gagnrýndur fyrir að vera með öllu óskiljanlegur nema fyrir þá innvígðu sem þekktu til sérviskulegra hugtakasmíða hans. Hann reyndi þó að tala skýrt, tala ekki til lokaðs hóps eins og sérfræðingur heldur reyna að vekja aðra til umhugsunar (en var þá gagnrýndur fyrir að vera með áróður fyrir hugmyndum sínum og vilja vera í sviðsljósinu!) En jafnframt ítrekaði hann mikilvægi þess að menn legðu sig eftir skilningi á því sem væri ekki endilega einfalt; á því sem virtist í fyrstu óskýrt og of flókið. Að menn gæfu sér tíma. Bourdieu gagnrýndi einmitt sjónvarpið fyrir að fylla tímann af engu, af því sem engu máli skiptir en sem í nafni markaðssamkeppni og "almenns" vilja er talið öllum fyrir bestu. Á meðan finna menn ekki hjá sér nokkra hvöt til að gefa sér tíma til annars. Hann gat ekki hugsað sér að koma fram í umræðuþáttum þar sem alltaf er gripið fram í og sagt að nú sé því miður ekki meiri tími fyrir svona alvarleg mál eða að komið sé að auglýsingum, loksins þegar umræðan var að komast á skrið. En hann samþykkti hins vegar að fyrirlestrum sínum um gagnrýni á sjónvarpið yrði sjónvarpað!

Í bíómynd sem gerð var um Bourdieu sjáum við hann sitja á fundi í menntaskóla í útjaðri Parísarborgar. Nemendurnir spurðu til hvers hann væri eiginlega kominn, hann hefði enga forsendu til að tala um hinn raunverulega samfélagsvanda, væri bara enn einn loddarinn kominn til að slá ryki í augu. Bourdieu þakkaði ábendinguna en svaraði svo fyrir sig. Sagði að vissulega væru alltof margir félagsfræðingar með einhverjar skyndilausnir á takteinum sem ekkert gerðu nema láta menn gleyma vandanum, en hann væri hins vegar mikið búinn að kynna sér vandamál innflytjenda og annarra jaðarhópa innan skólakerfisins og ef þeir vildu ekki njóta góðs af þekkingu hans þá þeir um það. Og þá gáfu þeir honum tíma til að tala, hættu að grípa fram í. Hann sagðist þá vera ánægður með fundinn, ef nálægð hans gerði það að verkum að menn stöldruðu við og hugsuðu og tækju síðan til máls væri markmiði hans náð.

Nú þegar Bourdieu getur ekki lengur barist með kjafti og klóm fyrir skilningi á ritum sínum og gjörðum, þegar hann hefur ekki lengur möguleika á að grípa fram í fyrir oft á tíðum groddalegum rangtúlkunum á hugmyndum hans, er aðeins hægt að vonast til að við erfingjarnir umgöngumst þær af ábyrgð og virðingu, á gagnrýnan hátt og með djörfung. Hann var fyrirmynd sem ekki ætti að endurframleiða gagnrýnislaust heldur hafa sem viðmið í áframhaldandi viðleitni til að breyta heimsmyndinni.

EFTIR ODDNÝJU EIRI ÆVARSDÓTTUR

Höfundur er að skrifa doktorsritgerð í pólitískri heimspeki í París.