ÞORSTEINN Bachmann hefur verið ráðinn leikhússtjóri hjá Leikfélagi Akureyrar. Gengið var frá ráðningu hans á fundi leikhúsráðs á mánudag og er hann ráðinn til næstu þriggja ára. Þorsteinn var valinn úr hópi tólf umsækjenda. Hann mun hefja störf 1.

ÞORSTEINN Bachmann hefur verið ráðinn leikhússtjóri hjá Leikfélagi Akureyrar. Gengið var frá ráðningu hans á fundi leikhúsráðs á mánudag og er hann ráðinn til næstu þriggja ára. Þorsteinn var valinn úr hópi tólf umsækjenda. Hann mun hefja störf 1. mars næstkomandi við hlið núverandi leikhússtjóra, Sigurðar Hróarssonar, en taka við starfinu að fullu 1. september.

Þorsteinn fæddist árið 1965. Hann lauk prófi frá Leiklistarskóla Íslands 1991, en hafði áður stundað nám í leiklist í Bandaríkjunum og við Leiklistarskóla Helga Skúlasonar. Hann lauk prófi frá Kvikmyndaskóla Íslands árið 1992 og hefur sótt fjölda námskeiða sem tengjast sviðslistum og kvikmyndagerð. Þorsteinn hefur starfað að leiklist á afar fjölbreyttum vettvangi, sett upp ótal leikverk víða um land, auk leikarastarfsins, bæði á sviði, í kvikmyndum og sjónvarpi, sem hann hefur sinnt í bland við kraftmikið frumkvöðlastarf. Hann hefur skipulagt mörg viðamikil verkefni á listasviði, sinnt trúnaðarstörfum, kennt á fjölda námskeiða á hinum ýmsu sviðum leiklistar og kvikmyndagerðar, framleitt og stýrt kvikmyndum bæði leiknum og heimildamyndum, hérlendis og á alþjóðavettvangi. Þorsteinn kom til starfa sem fastráðinn leikari hjá Leikfélagi Akureyrar sl. sumar og hefur meðfram leikarastarfinu byggt upp námskeiðahald á vegum félagsins í vetur, í samstarfi við sambýliskonu sína, Laufeyju Brá Jónsdóttur.

Í frétt frá leikhúsráði segir að það treysti Þorsteini Bachmann vel til að fylgja eftir því frábæra starfi sem Sigurður Hróarsson hefur byggt upp sl. þrjú ár.