Lars Lindgren, aðstoðarframkvæmdastjóri hjá SAS-flugfélaginu, telur flugbandalög mjög af hinu góða en SAS er hluti af Star Alliance.
Lars Lindgren, aðstoðarframkvæmdastjóri hjá SAS-flugfélaginu, telur flugbandalög mjög af hinu góða en SAS er hluti af Star Alliance.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Lágfargjaldaflugfélög beita nú hefðbundin flugfélög töluverðum þrýstingi þar sem þau hafa breytt væntingum almennings til verðs á flugfargjöldum, segir Lars Lindgren, aðstoðarframkvæmdastjóri hjá SAS-flugfélaginu.

Lágfargjaldaflugfélög beita nú hefðbundin flugfélög töluverðum þrýstingi þar sem þau hafa breytt væntingum almennings til verðs á flugfargjöldum, segir Lars Lindgren, aðstoðarframkvæmdastjóri hjá SAS-flugfélaginu. Lindgren hélt erindi á hádegisverðarfundi Sænsk-íslenska verslunarráðsins í gær.

Hann hrósaði lágfargjaldaflugfélögum fyrir að gera eitthvað einstakt og öðruvísi, og þau gerðu það vel. Lindgren nefndi Ryanair sérstaklega en félagið hefur velgt British Airways undir uggum. "Lágfargjaldaflugfélögunum hefur tekist að ná til sín sneið af markaðnum. Í Evrópu hafa þau 7-8% og fer hlutdeildin vaxandi. Þau hafa breytt væntingum almennings sem vill nú lægra verð á flugfargjöldum. Öll flugfélög, líka þau hefðbundnu, verða að mæta þessum væntingum viðskiptavina sinna," sagði Lindgren m.a.

Flugbandalög nauðsynleg

Flugbandalög eru mjög af hinu góða, segir Lindgren. Með aðild að Star Alliance flugbandalaginu hefur fjöldi áfangastaða SAS margfaldast og þjónusta við viðskiptavini þannig aukist. Lindgren lagði áherslu á að flugbandalög væru nauðsynleg til að flugfélög víkkuðu út starfsemi sína og bættu þjónustu við viðskiptavini. Ímynd flugfélaga væri betur borgið innan bandalags, það væri ekki svo eins og margir héldu fram, að aðili glataði sjálfstæði sínu við að ganga inn í bandalag. Aðild að bandalagi styrkti fremur félögin hvert og eitt.

Lindgren situr í stjórn flugbandalagsins Star Alliance sem SAS er aðili að ásamt ellefu öðrum flugfélögum víðs vegar að úr heiminum. Star Alliance hefur höfuðstöðvar í Frankfurt, rekur sérstaka skrifstofu og hefur framkvæmdastjóra og stjórn. Mánaðarlega hittast forsvarsmenn hvers aðildarfélags og fjalla um stefnu bandalagsins og markmið. Lindgren sagði að Star Alliance yrði þó aldrei að sameinuðu flugfélagi, það væri ekki markmiðið með flugbandalaginu, heldur væri það markaðsbandalag.

Skynsamlegt að starfa með Flugleiðum

Hann lagði áherslu á að öll flugfélög yrðu að vaxa og SAS legði á það áherslu. Vöxturinn þyrfti bæði að vera innan frá og með yfirtökum á og samrunum við önnur félög. "Ef SAS á að verða virkt félag á evrópskum flugmarkaði, verðum við að vaxa. Við höfum til þess fjárhagslega burði, við erum ekki nýtt Swissair."

Lindgren sagði Flugleiðir mikilvægan samstarfsaðila SAS og það væri skynsamlegt fyrir SAS að starfa með Flugleiðum þar sem Ísland væri hluti af heimamarkaði SAS, en Norður-Evrópa er skilgreind sem þessi heimamarkaður.

Hann ræddi stormasamt nýliðið ár á flugmarkaði og að eftir 11. september hefði allt breyst. "Árið 2001 var slæmt ár fyrir flugmarkaðinn alls staðar í heiminum," sagði Lindgren m.a. "Það eru engin merki um bata enn. Við teljum botninum þó náð og það versta yfirstaðið en það er langt í að ástandið verði aftur eins og í gömlu góðu dagana."

Lindgren lýsti markmiðum SAS og hvernig gengið hefði hjá félaginu. Samdráttur í farþegafjölda á viðskiptafarrými var 15% á síðasta ári og tap félagsins nam tveimur milljörðum sænskra króna eða um 19 milljörðum íslenskra króna. Lindgren sagði að tapið væri allt tilkomið á síðasta ársfjórðungi, þ.e. eftir 11. september.

SAS býst við tapi áfram á þessu ári en að reksturinn komist á betri veg á seinni hluta ársins. Hjá SAS eru hafnar aðhaldsaðgerðir í formi uppsagna og endurskipulagningar á rekstrinum. Þegar hefur verið sagt upp 3.500 starfsmönnum og fleiri verður sagt upp, að sögn Lindgren.