BÁTASMIÐJAN Trefjar í Hafnarfirði afgreiddi fyrir skömmu bát af gerðinni Cleopatra 33 til skoskrar útgerðar. Kaupandi bátsins er Andrew Lochhead, útgerðarmaður frá Monreith í Skotlandi.
BÁTASMIÐJAN Trefjar í Hafnarfirði afgreiddi fyrir skömmu bát af gerðinni Cleopatra 33 til skoskrar útgerðar. Kaupandi bátsins er Andrew Lochhead, útgerðarmaður frá Monreith í Skotlandi. Báturinn hefur hlotið nafnið Coonan Lass OB-128, er tíu metra langur og mælist tíu brúttótonn. Í lest bátsins er rými fyrir níu 380 lítra fiskikör, í lúkar er svefnpláss fyrir tvo, ásamt eldunaraðstöðu með eldavél og örbylgjuofni. Salernisrými er einnig í lúkar. Aðalvél bátsins er af gerðinni Cummins og er 430 hestöfl. Siglingatæki eru af gerðinni Simrad og Furuno. Reiknað er með að báturinn hefji veiðar í Skotlandi nú um miðjan febrúar en hann verður gerður út frá Isle of Whithorn á suðvesturströnd Skotlands. Báturinn er sérstaklega útbúinn til gildruveiða, aðallega á humri, krabba og beitukóngi. Á myndinni má sjá eigendurna, Andrew og June Lochhead, við nýja bátinn.