ÞRIÐJI stærsti álframleiðandi Bandaríkjanna, Kaiser Aluminium, hefur óskað eftir að verða tekinn til gjaldþrotameðferðar. Í janúar síðastliðnum átti fyrirtækið að greiða skuld að jafnvirði rúmlega 2,5 milljarðar króna, en gat ekki staðið við greiðsluna.

ÞRIÐJI stærsti álframleiðandi Bandaríkjanna, Kaiser Aluminium, hefur óskað eftir að verða tekinn til gjaldþrotameðferðar. Í janúar síðastliðnum átti fyrirtækið að greiða skuld að jafnvirði rúmlega 2,5 milljarðar króna, en gat ekki staðið við greiðsluna. Samkvæmt The Wall Street Journal er gjalddagi greiðslu að jafnvirði um 17,5 milljarðar króna á morgun og er talið ólíklegt að sú greiðsla verði innt af hendi.

Erfiðleikar fyrirtækisins eru margþættir, svo sem miklar skuldir, kostnaður vegna eftirlaunasamninga og málaferli vegna asbests. Við þetta bætast almennir erfiðleikar í efnahagslífinu, skyndileg hækkun raforkuverðs á síðasta ári og minni eftirspurn eftir áli og lækkandi verð þess á síðasta ári. Ástandið á álmörkuðum varð að sögn The Wall Street Journal til þess að jafnvel álrisinn Alcoa, sem sé með hvað lægstan kostnað allra fyrirtækja í greininni, hafi á síðasta fjórðungi ársins 2001 verið rekið með tapi í fyrsta sinn í nærri áratug.

En álmarkaðurinn mun vera að sýna nokkur batamerki um þessar mundir. Pantanir á áli jukust um 27% á milli desember og janúar og birgðir fara minnkandi.