MORGUNBLAÐINU hefur borist eftirfarandi yfirlýsing frá Landssíma Íslands vegna ummæla Hreins Loftssonar: "Í opinberri umfjöllun fyrrverandi formanns Einkavæðingarnefndar, Hreins Loftssonar, koma fram rangar fullyrðingar sem stjórn og stjórnendur...

MORGUNBLAÐINU hefur borist eftirfarandi yfirlýsing frá Landssíma Íslands vegna ummæla Hreins Loftssonar:

"Í opinberri umfjöllun fyrrverandi formanns Einkavæðingarnefndar, Hreins Loftssonar, koma fram rangar fullyrðingar sem stjórn og stjórnendur Símans geta ekki setið undir og starfsmenn fyrirtækisins eiga ekki skilið. Svo virðist sem um einkaskoðanir Hreins sé að ræða og ganga þær þvert á upplýsingar sem fram koma í útboðslýsingu Símans sem unnin var af Búnaðarbanka Íslands, sem m.a. var unnin á hans ábyrgð.

Reksturinn í fullkomlega eðlilegu horfi

Stjórn Símans undrast þá vanþekkingu Hreins sem fram kemur í þeim orðum hans að allt sé þetta "í molum": upplýsingakerfi, áætlanagerð, tekjustreymi og markaðskannanir og svo má áfram telja. Í áhættukafla útboðslýsingarinnar er fjallað ítarlega um rekstur félagsins og kemur fram að það sé í fullkomlega eðlilegu horfi. Nefna má að innan fyrirtækisins er unnið markvisst starf við að greina markaðinn og stöðuna, markmið í þjónustu er vel skilgreint, mikil uppbygging hefur átt sér stað í upplýsingakerfum fyrirtækisins, áætlanagerð er í föstum skorðum og í fullu samræmi við gildandi venjur á því sviði. Það hefur einnig verið mál þeirra aðila sem hafa komið að einkavæðingu fyrirtækisins hversu sterkt og öflugt fyrirtækið sé og hefur starfsmönnum þess verið sérstaklega þakkað hið mikla og góða starf sem þeir leystu af hendi í einkavæðingarferlinu.

Síminn hefur á skömmum tíma farið úr einkaleyfisrekstri inn í

samkeppnisumhverfi og verið að aðlagast breyttum aðstæðum. Stjórn og stjórnendum félagsins er ljós ábyrgð félagsins að stuðla að samkeppni og má nefna samkomulag við önnur símafélög m.a. um reikisamninga en þar hefur Síminn gengið lengra en honum bar skylda til. En jafnframt hefur stjórnin lagt sig fram að gæta hagsmuna eigenda og tryggja hagkvæman rekstur.

Tækifæri til vaxtar utan hefðbundins rekstrar

Stjórnin leggur áherslu á víðtæka þátttöku í fyrirtækjum á sviði

fjarskipta- og upplýsingatækni til að sækja nýja þekkingu, þróa nýjar

tæknilausnir og auka arðsemi fyrirtækisins, og er það í samræmi við áherslur annarra fjarskiptafyrirtækja í Evrópu. Gengið hefur verið út frá því að með aukinni samkeppni muni markaðshlutdeild í hefðbundnum rekstri minnka og

að tækifæri Símans til vaxtar liggi m.a. í aukinni þátttöku í tengdum

rekstri. Þá hefur Síminn talið hlutverk sitt að styðja við nýsköpun og

sprotafyrirtæki á sviði fjarskipta- og upplýsingatækni. Síminn hefur hins vegar ekki farið varhluta af lækkandi gengi fyrirtækja á þessum markaði að undanförnu frekar en aðrir.

Stjórn Símans hefur aldrei vikið sér undan ábyrgð á málefnum félagsins en ætíð haft hagsmuni fyrirtækisins, viðskiptavina og hluthafa að leiðarljósi. Af ummælum Hreins Loftssonar má ætla að hann þekki ekki starfsemi fyrirtækisins né hafi hann kynnt sér útboðslýsinguna sem skyldi. Yfirlýsingar Hreins eru eingöngu til þess fallnar að skaða hagsmuni fyrirtækisins og hluthafa þess. Jafnframt undrast stjórn Símans að maður sem er innherji í fyrirtæki, sem er á verðbréfamarkaði, skuli tjá sig með þessum hætti um fyrirtækið á opinberum vettvangi."