HREINN Loftsson, fyrrverandi formaður framkvæmdanefndar um einkavæðingu, gagnrýndi stjórn og stjórnendur Landssímans harðlega í viðtali sem birtist í Viðskiptablaðinu í gær.

HREINN Loftsson, fyrrverandi formaður framkvæmdanefndar um einkavæðingu, gagnrýndi stjórn og stjórnendur Landssímans harðlega í viðtali sem birtist í Viðskiptablaðinu í gær.

Sagði Hreinn að í einkavæðingarferlinu hefði komið í ljós að stjórnun Landssímans hafi verið mjög ábótavant, áætlanagerð hafi verið í molum og menn hafi haft frekar óljósar fyrirætlanir um hvernig þróa ætti fyrirtækið. Ennfremur sagðist hann hafa gagnrýnt stjórn Landssímans við stjórnvöld fyrir að vera mjög veik og með rangar áherslur.

Þá hafi stjórnendur fyrirtækisins tekið með röngum hætti á samkeppni og samkeppnisyfirvöldum. Kosið að verja hverja þúfu í undanhaldinu og eiga í eilífum útistöðum fremur en að nýta sér möguleika samkeppninnar.

Hreinn gagnrýndi jafnframt stjórn og stjórnendur fyrir hvernig staðið var að fjárfestingum félagsins árið áður en átti að einkavæða og sagði að svo virtist sem Landssíminn hefði orðið einhvers konar hlutabréfasjóður. Á daginn hefði svo komið að hinar miklu fjárfestingar Landssímans hefðu verið eitt þeirra atriða sem sumir erlendu fjárfestanna settu fyrir sig.

Mótmælir harðlega fullyrðingum um veika stjórn

Friðrik Pálsson, stjórnarformaður Landssímans, vísaði í samtali við Morgunblaðið í gær ummælum Hreins á bug og mótmælir harðlega fullyrðingum hans um veika stjórn Landssímans og rangar áherslur hennar.

"Miðað við þær yfirlýsingar sem Hreinn gefur í þessu viðtali þá dreg ég einfaldlega þá ályktun að hann viti ekki meira um þetta og það sé ekkert meira á bakvið þessa yfirlýsingu heldur en margar aðrar sem hann gefur þarna. Stjórnin samanstendur af ágætu fólki, sumu sem er búið að vera þarna í þónokkur ár og þekkir reksturinn mjög vel."

Um gagnrýni Hreins á hvernig staðið var að fjárfestingum Landssímans segir Friðrik að Síminn hafi á sínum tíma tekið ákvörðun um að fjárfesta í fyrirtækjum sem tengdust starfsemi Símans með beinum eða óbeinum hætti. Fyrir því hafi aðallega legið tvær ástæður. Annars vegar hafi þurft að tryggja að Síminn gæti haldið áfram að stækka og dafna þrátt fyrir minnkandi markaðshlutdeild í hefðbundinni símastarfsemi vegna samkeppni. Hins vegar hafi verið mörkuð sú stefna að Síminn tæki þátt í að standa við bakið á ýmsum sprotafyrirtækjum, sem hugsanlega gætu komið með nýjungar í rekstrinum.

Ekki ómarkviss fjárfesting út og suður

"Þá eru sum þessara fyrirtækja í hlutabréfasafni okkar beinlínis félög sem við klufum út úr hefðbundinni starfsemi félagsins, stofnuðum til rekstrar í sjálfstæðum dótturfélögum og tengjast beinlínis rekstri félagsins. Þannig að það er ekki eins og þetta sé ómarkviss fjárfesting út og suður. Síður en svo.

Reyndar má kannski segja að við höfum farið hraðar í þetta en við hefðum gert ella fyrir það að við erum, sem slíkt, frekar nýtt félag. Víða erlendis eru félög af þessum toga með myndarlega þátttöku í félögum tengdum sínum rekstri og hafa af því góðan arð", segir Friðrik en telur þó rétt að bæta við að þessi félög, líkt og önnur í hugbúnaðar- og hátæknigeiranum hér á landi, hafi gengið í gegnum nokkrar þrengingar og vissulega hafi það orðið nokkuð skyndilega. "Síminn hefur ekkert farið varhluta af þeim erfiðleikum með sitt hlutabréfasafn en það er ekki þar með sagt að við lítum svo á að það geti ekki komið upp aftur."

Þórarinn V. Þórarinsson, fyrrum forstjóri Landssíma Íslands, telur að "Hreinn Loftsson sé við verklok hjá einkavæðingarnefnd að reyna að finna blóraböggla fyrir þeim ógöngum sem sala á hlutum í Landssímanum hefur ratað í undir hans forystu.

Staðreyndin er sú að Price-WaterhouseCoopers (PWC) gerði afar ítarlega úttekt á starfsemi fyrirtækisins, skipulagi, starfsháttum og áætlanagerð og mátu félagið til verðs á grundvelli þess. Þetta verð var hlutfallslega hærra en bæði á TeleNor og TeleDanmark, sem fyrirfram voru taldir meðal líklegustu kaupenda að kjölfestuhluta félagsins. Þeir sögðu að það ætti sér eðlilega skýringu í samanburði á fyrirtækjunum, en í þeim samanburði stæði Síminn mjög vel. Þetta er auðvitað opinber gæðavottun á fyrirtækinu því sannanlega var hverjum steini velt við í þessari skoðun," sagði Þórarinn.

Matið var að sögn Þórarins fyrst unnið í maí og endurunnið og staðfest á ný í ágúst á grundvelli nýjustu upplýsinga. "Opinber sölulýsing var svo byggð á þessari úttekt þar sem stefnu og starfsemi félagsins var lýst afar ýtarlega. Ádeila Hreins á stjórn og stjórnendur Símans gengur því algerlega á svig staðreyndir málsins og er engin skýring á því hvers vegna salan misheppnaðist jafn herfilega og raun ber vitni."

Um gagnýni Hreins á fjárfestingar Símans segir Þórarinn að áhersla stjórnar Símans á þann þátt í starfseminni hafi verið fullkomlega í samræmi við viðurkennd viðmið í fjarskiptaþjónustu um allan heim á þessum tíma. "Ég kannast ekki við að það hafi komið fram einhverjar ábendingar af hálfu einkavæðingarnefndar í þá veru sem Hreinn Loftsson lýsir. Það var hins vegar rætt að meiriháttar fjárfestingar sem félagið legði út í af þessum toga, væru kynntar ráðuneyti og einkavæðingarnefnd. Þessum aðilum væri þannig fullljóst hvaða skref Síminn væri að taka á þessu sviði á hverjum tíma. Það er hins vegar auðvelt að vera vitur eftir á og segja sem svo að það hefði verið heppilegra að fjárfesta eingöngu í því sem hefði skilað arði."