Huginn VE á kolmunnaveiðum suðaustur af landinu.
Huginn VE á kolmunnaveiðum suðaustur af landinu.
EKKI náðist samkomulag um að draga úr kolmunnaveiðum á fundi strandríkja við Norður-Atlantshaf sem haldinn var í Reykjavík fyrr í vikunni.

EKKI náðist samkomulag um að draga úr kolmunnaveiðum á fundi strandríkja við Norður-Atlantshaf sem haldinn var í Reykjavík fyrr í vikunni. Að sögn Kolbeins Árnasonar, lögfræðings í sjávarútvegsráðuneytinu, eru ekki miklar líkur á að samkomulag náist um veiðarnar á þessu ári.

Ítrekað hefur verið reynt að semja um skiptingu kvóta úr kolmunnastofninum á undanförnum árum en viðræður hafa til þessa engan árangur borið. Samanlagðar kröfur þeirra þjóða sem bítast um kolmunnann í Norður-Atlantshafi nema samtals um 160% af þeim heildarkvóta sem Alþjóðahafrannsóknaráðið hefur ráðlagt. Á síðasta ári veiddust tæpar 1,8 milljónir tonna af kolmunna í Norður-Atlantshafi, nærri þrefalt það sem vísindamenn hafa ráðlagt. Í fundinum á mánudag lögðu Íslendingar til að heildarafli á árinu 2002 færi ekki yfir eina milljón tonna sem er um 43% niðurskurður frá fyrra ári. Að sögn Kolbeins fólst í tillögunni flatur niðurskurður, það er að allar þjóðir minnkuðu sína veiði um 43%. Tillagan fékk hinsvegar ekki brautargengi, einkum vegna andstöðu Norðmanna og Evrópusambandsins. "Norðmenn voru ekki tilbúnir til að taka á sig hlutfallslega jafnmikla skerðingu á veiðinni frá því í fyrra og Íslendingar og Færeyingar. Þeir vildu fremur miða við ákveðin tímabil og svo framvegis, og voru þá komnir inn í umræðuna um framtíðarskiptingu kolmunnakvótans en ekki viðbrögð við ofveiði á þessu ári."

Norðmenn veiddu mest allra þjóða við Norður-Atlantshaf af kolmunna í fyrra, samtals um 570 þúsund tonn eða um 33,4% af heildarafla ársins. Íslendingar veiddu um 349 þúsund tonn eða 20,5% heildaraflans. Alls veiddust um 269 þúsund tonn af kolmunna innan íslensku lögsögunnar á síðasta ári, eða um 15% heildaraflans. Norðmenn ákváðu einhliða fyrir skömmu að draga kolmunnaafla sinn saman um 35% á næsta ári en Kolbeinn segir að í tillögum sínum á fundinum hafi þeir ekki verið tilbúnir til að ganga svo langt. Eins hefur Evrópusambandið ákveðið að draga saman veiði sína um 30-35% á þessu ári. Kolbeinn segir að þreifingum um málið verði haldið áfram en búið sé að boða annan fund um miðjan apríl.