RÆKJUVEIÐUM á Flæmingjagrunni verður áfram stýrt með sóknarstýringu, þrátt fyrir ítrekuð mótmæli af Íslands hálfu. Þetta var ákveðið á aukafundi Norðvestur-Atlantshafs fiskveiðistofnunarinnar, NAFO, sem haldinn var í Danmörku dagana 29. janúar-1.

RÆKJUVEIÐUM á Flæmingjagrunni verður áfram stýrt með sóknarstýringu, þrátt fyrir ítrekuð mótmæli af Íslands hálfu. Þetta var ákveðið á aukafundi Norðvestur-Atlantshafs fiskveiðistofnunarinnar, NAFO, sem haldinn var í Danmörku dagana 29. janúar-1. febrúar sl.

Sóknarstýring við rækjuveiðar á Flæmingjagrunni hefur ekki skilað þeim árangri sem NAFO hafði vonast eftir í upphafi, og er nú mikill stuðningur innan NAFO við það sjónarmið Íslands að veiðunum sé stjórnað með aflamarkskerfi. Þrátt fyrir þennan stuðning náðist ekki samkomulag á fundinum um skiptingu heildarafla milli aðildarríkja NAFO og var ákveðið að stjórna veiðunum áfram með sóknarmarkskerfi.

Á fundinum var samþykkt að auka sókn í rækju á Flæmingjagrunni frá því sem verið hefur, þannig að sókn hverrar þátttökuþjóðar á árinu 2002 verði allt að 90% af því sem hún var mest eitthvert áranna 1993-1995. Þetta er aukning úr 75% sóknar viðmiðunaráranna sem verið hefur sl. ár. Ísland hefur frá árninu 1995 lagt til að veiðunum væri stjórnað með aflamarki. Ísland mótmælti því tillögunni um aukna sókn, m.a. á þeim forsendum að aukningin muni væntanlega valda verulegri veiði umfram ráðgjöf fiskifræðinga sem hljóðar uppá 45.000 tonn fyrir árið 2002. Áætlað var að veiðin á árinu 2001 hafi verið um 50.000 tonn en ráðgjöfin var 30.000 tonn. Ísland ítrekaði á fundinum mótmæli sín við sóknarmarkskerfið og mun áfram stjórna veiðunum einhliða með aflamarki. Sjávarútvegsráðuneytið gaf út reglugerð um veiðar íslenskra skipa á Flæmingjagrunni í janúar síðastliðinn og kemur þar fram að heimilaður heildarafli íslenskra skipa ársins 2002 er 9.000 tonn. Árni M. Mathiesen, sjávarútvegsráðherra, telur að nota hefði átt tækifærið þegar heildaraflamarkið var hækkað til að breyta yfir í aflamarksstýringu, enda ljóst að sóknarstýringin hafi farið úr böndunum og veiðin langt umfram því sem áætlað var. Hann á von á að Íslendingar muni áfram ákveða einhliða kvóta íslenskra skipa á svæðinu.