JÓN Pálsson er fæddur í Reykjavík árið 1963. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Sund árið 1983 og meistaraprófi í rekstrarverkfræði frá Háskólanum í Álaborg í Danmörku árið 1989.

JÓN Pálsson er fæddur í Reykjavík árið 1963. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Sund árið 1983 og meistaraprófi í rekstrarverkfræði frá Háskólanum í Álaborg í Danmörku árið 1989. Hann starfaði við iðnráðgjöf á Vesturlandi og rekstrarráðgjöf í Reykjavík til ársins 1993. Jón var þróunarstjóri Samskipa á árunum 1993-1998 og svo framkvæmdastjóri Ármannsfells til ársins 2000. Jón starfaði hér á landi fyrir stærsta verktakafyrirtæki í Danmörku, Højgaard & Schultz, þar til á síðasta ári. Jón er kvæntur Hrönn Björnsdóttur, félagsráðgjafa hjá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, og eiga þau þrjú börn, Björn Steinar 17 ára, Ásbjörgu 13 ára og Bjarka Snæ 6 ára.

JÓN Pálsson er fæddur í Reykjavík árið 1963. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Sund árið 1983 og meistaraprófi í rekstrarverkfræði frá Háskólanum í Álaborg í Danmörku árið 1989. Hann starfaði við iðnráðgjöf á Vesturlandi og rekstrarráðgjöf í Reykjavík til ársins 1993. Jón var þróunarstjóri Samskipa á árunum 1993-1998 og svo framkvæmdastjóri Ármannsfells til ársins 2000. Jón starfaði hér á landi fyrir stærsta verktakafyrirtæki í Danmörku, Højgaard & Schultz, þar til á síðasta ári. Jón er kvæntur Hrönn Björnsdóttur, félagsráðgjafa hjá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, og eiga þau þrjú börn, Björn Steinar 17 ára, Ásbjörgu 13 ára og Bjarka Snæ 6 ára.

Jón tók við starfi framkvæmdastjóra sameinaðs fyrirtækis Stiklu og TETRAlínu, TETRA Ísland, 1. nóvember sl.

Hvað er TETRA Ísland og í hverju felst starf þitt?

"TETRA Ísland er sérhæft fjarskiptafyrirtæki. Markmið þess er að sjá um þráðlaus fjarskipti fyrir kröfuharða notendur, þ.e. stórnotendur, yfir TETRA-kerfið. Það sem gerir TETRA-fjarskiptakerfi sérstakt er að í TETRA hafa menn í einu og sama tækinu talstöð, langdrægan farsíma, boðtæki og gagnaflutningsmöguleika. Auk þess er hægt að skilgreina lokaðar rásir fyrir þá hópa sem þess þurfa, t.d. lögreglu, en jafnframt geta þeir aðilar tengst öðrum hópum. Í gömlu talstöðvarkerfunum er ekki mögulegt að tengja saman rásir auk þess sem þau virka ekki sem sími eða gagnaflutningsleið. Það má segja að þegar GSM-byltingin varð, voru fyrir hendi stórir og miklir notendur að þráðlausum fjarskiptum sem eiginlega gleymdust í þróuninni. Þar má nefna lögreglu og slökkvilið, björgunaraðila, skip og báta, verktaka og flutningsaðila. Þessir aðilar fóru síðan jafnvel að nota GSM þrátt fyrir að það kerfi uppfyllti að mjög takmörkuðu leyti þarfir þessara notenda. TETRA-staðallinn var síðan þróaður en fyrstu TETRA-kerfin eru að slíta barnsskónum núna. Ísland er mjög framarlega í þróuninni miðað við önnur lönd. Markmið okkar er að TETRA-kerfi okkar nái yfir allt landið og það er verkefnið næstu tvö til þrjú árin. Hér eru sex starfsmenn, auk þriggja ráðgjafa. Einnig kaupum við þjónustu verktaka t.d. við að setja upp búnað og fleira. Mitt hlutverk er að marka stefnu fyrirtækisins og halda utan um rekstur þess."

Nú hafa verið sett upp tvö TETRA-kerfi á Íslandi af Stiklu og TETRAlínu, en áform eru uppi um að leggja annað kerfið niður. Hvernig verður framhaldið?

"Þessi tvö fyrirtæki byggðu kerfi með samningum við tvo framleiðendur. Það sem hefði verið best fyrir sameinað félag væri að geta nýtt þessa fjárfestingu. En áherslur framleiðendanna eru mismunandi og þar sem TETRA-staðallinn er ungur hafa enn ekki verið þróaðir samtengimöguleikar á milli TETRA-kerfa eins og þekkt er um reikisamninga milli GSM-kerfa, þannig að notendur flytjist á milli kerfa óhindrað. Við stefnum að því að koma öðru kerfinu í notkun erlendis og afla okkur á þann hátt tekna til uppbyggingar hérlendis. Viðræður eru að hefjast við aðila sem gætu haft áhuga á að byggja svona kerfi upp. TETRA-kerfi eru t.d. ekki enn komin upp í Danmörku, Svíþjóð, Færeyjum eða Grænlandi og við horfum m.a. til þessara landa. Við lítum á þetta sem útflutning á þekkingu. Ekki bara þekkingu á að setja upp og reka fjarskiptakerfi, heldur líka þekkingu sem hefur byggst upp varðandi ýmiss konar hugbúnað sem tengist þessu. Hér á landi hafa verið þróaðar hugbúnaðarlausnir á heimsmælikvarða þar sem TETRA-fjarskipti eru hluti af heildarlausn. Við sjáum heldur ekkert því til fyrirstöðu að halda áfram á þeirri braut að flytja út og selja þekkingu og þetta er hluti af stefnumótun TETRA-Ísland. En meginstefnan er auðvitað að byggja upp kerfið hér."

Hvað gerirðu svo utan vinnunnar?

"Ég hef náttúrlega mestan áhuga á að vera með fjölskyldunni, heima og á ferðalögum innanlands og erlendis. Við erum núna að koma okkur fyrir í nýju húsi í Mosfellsbæ. Ég stunda líka skútusiglingar þegar ég hef tíma til þess. Einnig skotveiði og ferðalög tengd henni. Ég hef líka áhuga á félagsmálum, aðallega í kringum skólastarf barnanna og foreldrafélög. Ég vil endilega skipta mér af því!"

Hvernig var að búa í Danmörku?

"Það var einstaklega gott og við höfum miklar taugar til Danmerkur. Þar eignuðumst við fyrstu tvö börnin okkar og það var mjög fínt að vera með börn þar. Við höfum reynt að vera með annan fótinn í Danmörku og finnst við vera heima þegar við komum þangað."