Gígja Gunnarsdóttir
Gígja Gunnarsdóttir
Gígja Gunnarsdóttir er fædd í Danmörku 1973. Stúdent frá MR, náttúrufræðibraut 1, Íþróttakennarapróf frá KHÍ. Er í fjarnámi KHÍ til BS-gráðu í íþróttafræðum og þátttakandi í FrumkvöðlaAuði á vegum Auðar í krafti kvenna. Deildarstjóri íþrótta við MA 1998-2001. Var starfsmaður Íþróttakennarafélags Íslands 2001, framkvæmdastjóri Kvennahlaups ÍSÍ 2001 og 2002 og verkefnisstjóri hjá ÍSÍ síðan um áramót. Sambýlismaður er Þorkell Guðjónsson viðskiptafræðingur.
Gígja Gunnarsdóttir er fædd í Danmörku 1973. Stúdent frá MR, náttúrufræðibraut 1, Íþróttakennarapróf frá KHÍ. Er í fjarnámi KHÍ til BS-gráðu í íþróttafræðum og þátttakandi í FrumkvöðlaAuði á vegum Auðar í krafti kvenna. Deildarstjóri íþrótta við MA 1998-2001. Var starfsmaður Íþróttakennarafélags Íslands 2001, framkvæmdastjóri Kvennahlaups ÍSÍ 2001 og 2002 og verkefnisstjóri hjá ÍSÍ síðan um áramót. Sambýlismaður er Þorkell Guðjónsson viðskiptafræðingur.

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, ÍSÍ, gengst á næstunni fyrir átakinu "Ísland á iði 2002" sem er "barátta við sófann" eins og fram kemur í fréttatilkynningu frá sambandinu. Í stuttu máli hafa umræddir aðilar áhyggjur af hreyfingarleysi þjóðarinnar og alls sem því fylgir. ÍSÍ á 90 ára afmæli á þessu ári og lítur á það sem sína bestu afmælisgjöf, að landsmenn gefi sjálfum sér heilbrigðara líf með aukinni hreyfingu. Ýtt verður úr vör í Smáralind 23. febrúar nk. með sérstökum hvatningar- og heilsudegi, en síðan rekur hver viðburðurinn annan. Verkefnisstjóri er Gígja Gunnarsdóttir og hún svaraði nokkrum spurningum Morgunblaðsins.

Hvert er tilefni "Íslands á iði 2002"?

"Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands og sambandsaðilar þess hafa síðan árið 1912 boðið þjóðinni upp á eins faglegt og öflugt íþróttastarf og kostur hefur verið á hverju sinni. Með því að taka þátt í því hafa ófáir hlotið sitt heilsuuppeldi, þ.e. lært að gera hreyfingu og heilsusamlegt líferni að órjúfanlegum hluta af sínu daglega lífi. Á síðari árum hafa sífellt fleiri rannsóknir rökstutt hversu mikilvæg reglubundin hreyfing er til að viðhalda og bæta andlega og líkamlega heilsu. Samtímis leiða rannsóknir einnig í ljós þær sláandi niðurstöður að Íslendingar eru að fitna og offita og hreyfingarleysi er vaxandi vandamál hjá þjóðinni.

ÍSÍ vill vinna á móti þessari þróun og koma enn öflugar að heilbrigðismálum þjóðarinnar. Það verður gert með því að hlúa að og efla þá miklu og góðu starfsemi sem þegar er í gangi, en um leið verður sérstök áhersla lögð á að hvetja landsmenn á öllum aldri til aukinnar hreyfingar og heilsueflingar. Í því skyni hefur ÍSÍ hleypt af stokkunum hvatningarverkefninu "Ísland á iði 2002" og þar sem sambandið er 90 ára á þessu ári var ákveðið að þetta verkefni yrði tileinkað afmælinu. Góð vísa er aldrei of oft kveðin."

Hvað viljið þið að landsmenn geri í þessum efnum?

"Við viljum einfaldlega hvetja almenning til að setja heilsuna í forgang og auka hlut hreyfingar í sínu daglega lífi. Það er hægt að gera á ótal hátt, ekki síst með því að takmarka bílanotkun eins og mögulegt er og þess í stað t.d. að ganga eða hjóla á milli staða. Það er hægt að nota stigann í stað þess að taka lyftuna og einfaldlega vera sífellt vakandi fyrir því að velja hreyfingu fremur en kyrrsetu. Foreldrar eru sérstaklega hvattir til að íhuga hversu mikilvægar fyrirmyndir þeir eru og hversu mikil áhrif þeir geta haft á hreyfingu barna sinna. Tuttugu mínútna hreyfing sem flesta daga vikunnar er allt sem þarf. Ganga, hlaup, hjólreiðar, sund... það verður hver og einn að velja á sínum forsendum hvað hann gerir og hvenær dagsins hann gerir það. Aðalatriðið er að hreyfa sig!"

Hverjir standa að átakinu og segðu okkur eitthvað frá framkvæmd þess og lengd.

"Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, almenningsíþrótta- og umhverfissvið, stendur fyrir þessu átaki, en til að ná öflugum slagkrafti í það leitum við samstarfs við ýmsa aðila. Heilbrigðisráðuneytið styður vel við bakið á okkur og sambandsaðilar ÍSÍ halda að sjálfsögðu áfram því góða starfi sem þeir eru að vinna. Við höfum verið í sambandi við aðila sem eru að vinna að sömu markmiðum og við, t.d. Manneldisráð, Hjartavernd og Geðrækt, til að finna fleti á mögulegu samstarfi og verðum í sambandi við sveitarfélög, stéttarfélög og fyrirtæki með samstarf í huga. Síðast en ekki síst er gott samstarf við fjölmiðla afar mikilvægt til að koma hvatningum áfram. Hvatningarverkefnið Ísland á iði 2002 er hugsað til eins árs en að sjálfsögðu komum við til með að halda boðskapnum áfram á lofti og þá sem fyrr bjóða fólki á öllum aldri með misjöfn markmið tilboð við sitt hæfi."

Hvernig verður átakið kynnt?

"Það verður kynnt með öflugri hvatningarherferð í fjölmiðlum, bæði á beinan hátt með auglýsingum og á óbeinan hátt með viðtölum og greinarskrifum. Boðskapurinn er skýr; hreyfa sig! Veggspjöldum verður dreift á sem flesta staði um land allt og við leitumst eftir að tengjast viðburðum og hvetja til að haldnir verði viðburðir sem miða að því að drífa hinn almenna borgara af stað í heilsusamlega hreyfingu. Einn liður í kynningu Ísland á iði 2002 eru hvatningar- og heilsudagar í Smáralind, helgina 16.-17. mars Það getur fólk nálgast ýmiss konar fræðsluefni og í boði verður fjölbreytt og öflug dagskrá þar sem hægt er að kynnast og prófa hinar ýmsu íþróttir."

Hvað á að hreyfa sig mikið?

"Það er enginn að tala um að koma sér í "ólympíuform". Aðalatriðið er að líta í eigin barm. Hvað á ég að gera núna? Er ég sátt(ur)? Ef ekki, hvað get ég gert til að bæta mig. Og síðan er bara að drífa sig af stað og hafa hugfast að allt er betra en ekkert."