ÖLGERÐIN Egill Skallagrímsson mun ekki fjárfesta í markaðssetningu íslensks vatns á erlendum mörkuðum en fyrirtækið keypti rekstur vatnsútflutningsfyrirtækisins Þórsbrunns hf. á dögunum, eins og fram hefur komið.

ÖLGERÐIN Egill Skallagrímsson mun ekki fjárfesta í markaðssetningu íslensks vatns á erlendum mörkuðum en fyrirtækið keypti rekstur vatnsútflutningsfyrirtækisins Þórsbrunns hf. á dögunum, eins og fram hefur komið.

Jón Diðrik Jónsson, forstjóri Ölgerðarinnar, segir að með kaupunum á rekstri Þórsbrunns, sem framleiðir ókolsýrt vatn undir vörumerkinu Iceland Spring, hafi Ölgerðin fyrst og fremst verið að styrkja vöruúrval sitt á Íslandi. Verðmæti rekstursins fyrir Ölgerðina liggi í vélabúnaðinum og vörumerki fyrir íslenska markaðinn auk aðgangs að ölkeldunni.

Jón Diðrik segir að Ölgerðin muni ekki fjárfesta í markaðssetningu vatnsins á erlendum mörkuðum þó svo að áfram verði það selt til erlendra aðila. "Við höfum hins vegar áhuga á að tengjast erlendum aðilum sem vilja markaðssetja vatnið erlendis og erum að skoða ýmsa markaði. Ef það gerist þá er það gott og blessað, annars erum við góð í að sinna markaðnum á Íslandi og leyfum öðrum að hugsa um erlenda markaði."