HÆSTIRÉTTUR hefur dæmt eignarhaldsfélag í Reykjavík, sem seldi manni bílaþvottastöð ásamt tækjabúnaði hennar, til að greiða kaupandanum 9 milljónir króna í bætur auk vaxta þar sem bílaþvottavélarnar reyndust ónothæfar.

HÆSTIRÉTTUR hefur dæmt eignarhaldsfélag í Reykjavík, sem seldi manni bílaþvottastöð ásamt tækjabúnaði hennar, til að greiða kaupandanum 9 milljónir króna í bætur auk vaxta þar sem bílaþvottavélarnar reyndust ónothæfar.

Í málinu var deilt um bótakröfu kaupanda þvottastöðvarinnar vegna bílaþvottavélanna. Taldi rétturinn að þær hefðu verið í mun lakara ásigkomulagi en við hefði mátt búast, en báðir málsaðilar og fasteignasali virtust hafa miðað við að nokkur viðgerð þeirra á vegum kaupandans myndi leiða til þess að þær yrðu honum nothæfar.

Vélarnar voru því ekki taldar hafa haft þá kosti, sem hefði mátt ætla að væru áskildir og telja yrði að eignarhaldsfélagið hefði ábyrgst, samanber kaupalög. Þá var talið að maðurinn hefði ekki sem leikmaður mátt gera sér fulla grein fyrir raunverulegu ástandi vélanna við skoðun þeirra og var 47. gr. kaupalaga ekki talin standa í vegi fyrir bótaábyrgð félagsins. Kaupandinn hafði krafist bóta vegna vélanna í beinu framhaldi af niðurstöðu vélfróðra skoðunarmanna um ástand vélanna og var þannig talinn hafa uppfyllt skilmála 52. gr. kaupalaga.

Staðfesti Hæstiréttur því niðurstöðu héraðsdóms um bótaskyldu eignarhaldsfélagsins. Var það og dæmt til að greiða honum samtals 700 þúsund krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti og í héraði.

Málið dæmdu hæstaréttardómararnir Hrafn Bragson, Haraldur Henrysson og Pétur Kr. Hafstein. Lögmaður áfrýjanda, eignarhaldsfélagsins, var Björgvin Þorsteinsson hrl. og lögmaður stefnda, kaupandans, Ólafur Garðarsson hrl.