Arndís Halla Ásgeirsdóttir
Arndís Halla Ásgeirsdóttir
Verk eftir Barber, Gershwin, Verdi, Donizetti og Liszt. Arndís Halla Ásgeirsdóttir sópran, Holger Groschopp, píanó. Þriðjudaginn 12. febrúar kl. 20.

EINSETUMANNASÖNGVAR ("Hermit Songs") bandaríska tónskáldsins Samuels Barbers voru fyrst á blandaðri söngva- og píanódagskrá Arndísar Höllu Ásgeirsdóttur og þýzka píanistans Holgers Groschopps í Salnum á þriðjudag. Þ.e.a.s. sjö af tíu, og raunar opin spurning hvers vegna ekki allt var tekið, úr því mörg laganna í þessum skemmtilega bálki frá 1953 upp úr írskum miðaldatextum ókunnra höfunda eru mjög stutt. Það er svo önnur saga hvers vegna Barber samdi ekki fyrir karlrödd, með því að margt er þar mælt úr munni munka. Auk þess skilar söngtexti sér flestra radda sízt í sópranflutningi, og hefði því varla veitt af birtingu texta í tónleikaskrá.

Hitt stendur eftir, að lögin eru samin af miklu hugviti og næmi fyrir söng - sem þýðir þó engan veginn að gerðar séu litlar kröfur, hvorki til söngvarans né píanóleikarans. Þrátt fyrir seiðandi melódík útheimti hinn oft pentatóníski stíll laganna, í sérkennilegri blöndu af þjóðlagablæ, impressjónisma og amerískri nýklassík í anda Coplands og Bernsteins, greinilega mikið öryggi í inntónun á stundum erfiðum hástökkum, og var "St. Ita's vision" meðal dæmigerða tilfella. Arndís Halla smokraði sér samt léttilega hjá þessum fallgildrum, þó að túlkunin væri framan af frekar loppin og færi ekki að hitna að ráði fyrr en í hinu glaðhlakkalega "The Heavenly Banquet". "The Crucifixion" var sungið af tærri tilfinningu fyrir harmi guðsmóður og síðasta lagið, "The Desire for Hermitage" af hrífandi hugarró og sátt við dauðann.

Holger Groschopp reyndist hér sem síðar eftirtektarverður og afar fylginn undirleikari og komst einnig merkilega vel frá Þrem prelúdíum Gershwins frá 1926, þrátt fyrir nokkuð hrykkjótta nálgun við djasssveifluna. Leikur hans var skemmtilega skýr og gæddur töluverðum brilljans. Dró þar sízt úr í seinni einleiksatriðunum, Spunakórnum úr Hollendingnum fljúgandi og "Rigoletto" - Paraphrase (Verdi), hvort tveggja í umritun Liszts. Tengdafaðir Wagners gerði greinilega ráð fyrir miklum "bravura"-spilara, og var ekki annað að heyra en að Groschopp væri þar á öruggum heimavelli.

Af Gershwin-söngvunum þremur, But not for me, Soon og brúkunarhestinum alkunna úr "Porgy and Bess", Summertime, komst Arndís Halla einna skemmtilegast frá revíulegu fyrsta laginu með sviðsvönum leikhústilþrifum. Í hinum saknaði maður, líkt og stundum í Barber, meiri notkunar á sléttum tónalit til undirstrikunar textans, sem því miður vill gjarnan falla í vanrækt fyrir kröfur stóra óperusviðsins. Fyrir söngvara með jafnfallega rödd í hæðinni og heyra mátti hjá Höllu í ítölsku óperuaríunum síðast á dagskrá verður að kalla ergilegt, svo ekki sé meira sagt, að geta ekki tjaldað sléttri raddbeitingu til tilbreytingar - og líka brjósttónum neðra tónsviðsins af meiri krafti og fyllingu en hér varð vart. Væri sannarlega óskandi að söngkonan tæki þessi atriði til endurskoðunar á næstunni, enda var engum blöðum að fletta um ótvíræða hljómfegurð, músíkalítet og magnaða útgeislun hennar að öllu öðru leyti.

Glampandi fallegar hánótur og eftirtektarverð flúrsöngstækni fögnuðu aftur á móti hverjum sigri á fætur öðrum í síðustu þrem atriðum söngkonunnar á dagskrá, Una voce poco fa (Rossini), Regneva nel silenzio úr "Lucia di Lammermoor" (Donizetti) og svínerfiðu kóloratúraríunni Qui la voce úr "I Puritani" eftir Bellini (sem minnir í upphafi sérkennilega á skozka þjóðlagið "Annie Laurie"), enda stóð ekki á dúndrandi undirtektum áheyrenda. Augljós kímnigáfa Arndísar Höllu lagði síðan tregustu tónleikagestina (hafi eitthvað verið eftir af þeim) endanlega að velli í aukalögunum I want to be a primadonna og Kossavísum Páls Ísólfssonar. Og hver gat heldur annað en kolfallið fyrir jafnskeinuhættum sjarma og þegar söngkonan settist - í miðju síðasta lagi - í kjöltu píanistans með blíðuhótum, án þess að missa nótu?

Ríkarður Ö. Pálsson