Kvikmyndin Black Hawk Down gekk vel í bandarískan almenning og þykir spila á strengi föðurlandsástar.
Kvikmyndin Black Hawk Down gekk vel í bandarískan almenning og þykir spila á strengi föðurlandsástar.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Nýjasta hasarmynd Arnolds Schwarzeneggers hefur nú verið frumsýnd í bíóhúsum vestra en margir töldu að hún myndi aldrei koma fyrir sjónir áhorfenda í ljósi atburðanna 11. september.

Hryðjuverkaárásirnar á Bandaríkin 11. september sl. virðast ekki hafa breytt hugarfari manna í draumaverksmiðjunni í Hollywood jafnvaranlega og menn töldu á sínum tíma hugsanlegt að myndi gerast. Þvert á móti virðist sem nú, aðeins fimm mánuðum síðar, sé allt komið í sama farið, menn sjá engar vísbendingar um að almenningur treysti sér ekki til að horfa á ofbeldisfullar bíómyndir, sem svo mjög hafa einkennt kvikmyndaframleiðsluna vestanhafs, og hyggjast því halda sínu striki.

Vandamál kvikmyndaframleiðenda í Hollywood eftir árásirnar á New York og Washington var tvíþætt. Annars vegar vissu menn lítt hvers konar kvikmyndir bandarískur almenningur myndi vilja horfa á í kjölfar árásanna, þ.e. hvort fólk myndi nú fremur kjósa hæglátar ástarmyndir í stað stóru ofbeldismyndanna, eða hvort eitthvað allt annað yrði kannski ofan á.

Hins vegar þorðu forstjórar stóru kvikmyndafyrirtækjanna ekki fyrir sitt litla líf að setja á markaðinn myndir, sem þó var þegar búið að fullvinna, en sem höfðu að geyma viðfangsefni sem þeir töldu of viðkvæmt fyrir þorra almennings. Þar má nefna helst nýja mynd Arnolds Schwarzeneggers, Collateral Damage, sem segir af slökkviliðsmanni sem leitar hryðjuverkamanns í Kólumbíu sem felldi eiginkonu hetjunnar og dóttur í einu ódæða sinna. Þótti mönnum sem viðfangsefnið væri of líkt ýmsum þeim atburðum sem urðu 11. september og var því frumsýningu myndarinnar skotið á frest sl. haust. Töldu jafnvel sumir að hún myndi aldrei koma fyrir sjónir áhorfenda.

Einnig má nefna í þessu sambandi mynd sjónvarpsstjörnunnar Tims Allen, Big Trouble, og myndina Bad Company með Anthony Hopkins og Chris Rock. Sú fyrrnefnda er reyndar grínmynd en þar er að finna atriði þar sem komið hefur verið fyrir kjarnorkusprengju í farþegaflugvél. Sú síðari fjallar um leyniþjónustumann sem tekst á við alþjóðlega hryðjuverkamenn. Frumsýningu þessara mynda var skotið á frest en vænta má að þær komi í kvikmyndahúsin fyrr en síðar.

Frumsýndu myndir sem spila á strengi föðurlandsástar

Viðbrögð kvikmyndaforstjóranna í Hollywood við árásunum fólust í því að flýta frumsýningu mynda eins og Behind Enemy Lines og Black Hawk Down. Báðar hafa að vísu að geyma mörg ofbeldisatriði, og héldu menn kannski að það færi illa í almenning. Þær spila hins vegar einnig mjög á strengi föðurlandsástarinnar, en sú fyrri fjallar um bandarískan herþotuflugmann, sem neyðist til að nauðlenda inni á óvinasvæði og síðan berjast við að halda sér á lífi á meðan hann bíður björgunar, en óvinurinn leitar hans vitaskuld dyrum og dyngjum.

Black Hawk Down fjallar hins vegar um þá atburði sem urðu í Sómalíu 1993 þegar 19 bandarískir hermenn féllu fyrir hendi heimamanna en borgarastríð stóð þá sem hæst í landinu. Urðu þessir atburðir til þess að Bandaríkjamenn kölluðu herlið sitt frá Sómalíu og þeir hafa haft langvinn áhrif á utanríkisstefnu Bandaríkjanna enda hefur Bandaríkjastjórn æ síðan verið treg til að hætta lífi hermanna sinna í fjarlægum löndum.

Á daginn hefur komið að bandarískur almenningur hefur flykkst að sjá þessar myndir og jafnframt hafa hetjusögur eins og Die Hard, með Bruce Willis, og True Lies, en þar tekst Schwarzenegger á við alþjóðlegan hryðjuverkamann, verið vinsælar á myndbandaleigum vestra. Ennfremur hafa myndir eins og Training Day, með Denzel Washington, og Don´t Say a Word með Michael Douglas gengið vel en þær hafa báðar að geyma fjölda ofbeldisatriða, þó að ekki tengist það ofbeldi beint hryðjuverkamönnum eða hryðjuverkum.Virðist því sem Bandaríkjamenn hafi öllu sterkari taugar gagnvart hryðjuverkum og ofbeldi en talið var og raunar virðast þeir sækja í hetjusögur, þar sem illmennin hljóta makleg málagjöld og venjulegir Bandaríkjamenn drýgja hetjudáðir.

Segir Schwarzenegger sjálfur að tilraunasýningar á Collateral Damage hafi leitt í ljós að almenningur vilji gjarnan sjá myndir þar sem hið góða sigrar í lokin, "þar sem einhver venjulegur Bandaríkjamaður lætur til sín taka og murkar lífið úr hryðjuverkamönnunum".

"Kannski vill fólk sjá þannig myndir því að það veit að í raun og veru ganga hlutirnir ekki svo auðveldlega fyrir sig," bætir hann við.

Tíminn græðir öll sár

Það þarf því ekki að koma á óvart að mynd Schwarzeneggers, Collateral Damage, var frumsýnd vestra nú um helgina og gengur víst bara býsna vel í Bandaríkjamenn. Munu yfirmennirnir í Hollywood hafa ákveðið að setja myndina í dreifingu eftir að hópur fólks, sem fenginn var til að horfa á myndina um tveimur mánuðum eftir hryðjuverkin, lýsti ánægju sinni með hana. "Tíminn græðir öll sár, og við verðum að halda lífi okkar áfram," segir Dan Fellmann, yfirmaður dreifingar hjá Warner-fyrirtækinu. "Þetta er vel gerð hasarmynd og ég efast ekki um að menn munu halda áfram að framleiða hasarmyndir."

Var á endanum engu breytt, en rætt hafði verið um að ýmsum atriðum í Collateral Damage yrði sleppt, s.s. mikilli sprengingu í miðbæ Los Angeles og blóðugri árás á búðir hryðjuverkamanna. Var það mat kvikmyndagerðarmannanna að fólk myndi ekki tengja baráttu Bandaríkjamanns gegn eiturlyfjabarónum í Kólumbíu svo mjög við baráttu Bandaríkjanna við hryðjuverkamennina sem frömdu ódæðin 11. september, jafnvel þó að þannig vildi til að söguhetjan væri slökkviliðsmaður, sem óneitanlega minnir á hetjudáðir slökkviliðsmanna í rústum World Trade Center.

Dýrt að afskrifa myndir

Þegar öllu er á botninn hvolft getur þó verið að fjárhagslegir þættir hafi ráðið miklu um ákvörðun kvikmyndaveranna í Hollywood. Collateral Damage var tilbúin til sýninga þegar áfallið dundi yfir 11. september og hafði kostað hátt í 70 milljónir dollara, um 7 milljarða ísl. kr., í framleiðslu. Menn höfðu ekki efni á að sýna hana ekki. Og menn gátu ekki heldur beðið of lengi með að sýna hana því þegar var búið að eyða nokkru fé í kynningu hennar, sem hefði verið algerlega glatað ef myndin hefði fengið að sitja á hillunni um margra mánaða skeið og gleymast þannig.

Andrew Davis, sem leikstýrði Collateral Damage, bendir einnig á að ef almenningi hefði verið leyft að gleyma þeirri staðreynd að myndin var í raun gerð fyrir atburðina 11. september þá hefði mörgum e.t.v. hætt til að telja sem framleiðendur hennar væru með óviðurkvæmilegum hætti, þ.e. með skírskotunum til hryðjuverkaárásanna, að reyna að hagnast á hinum hörmulegu atburðum.

"Fólk spurði mig síðasta haust, hvort ég teldi að Hollywood myndi hætta að framleiða ofbeldismyndir," segir leikarinn Billy Bob Thornton. "Ég svaraði þeim þá og get endurtekið það nú, að Hollywood mun einfaldlega framleiða það sem selst. Ég sagði að þetta ástand myndi líða hjá og að þeir myndu hefja framleiðslu svona mynda á nýjan leik. Þannig hefur það alltaf verið."

Los Angeles. AP.