Lotfi Raissi og eiginkona hans, Sonia, ræða við breska blaðamenn eftir að hann var látinn laus gegn tryggingu fyrr í vikunni.
Lotfi Raissi og eiginkona hans, Sonia, ræða við breska blaðamenn eftir að hann var látinn laus gegn tryggingu fyrr í vikunni.
MANNRÉTTINDAHREYFINGAR hafa látið í ljósi áhyggjur af máli 27 ára flugmanns af alsírskum ættum, sem hefur verið leystur úr haldi í Bretlandi gegn tryggingu þar sem bandarískir rannsóknarmenn gátu ekki fært sannanir fyrir því að hann væri viðriðinn...

MANNRÉTTINDAHREYFINGAR hafa látið í ljósi áhyggjur af máli 27 ára flugmanns af alsírskum ættum, sem hefur verið leystur úr haldi í Bretlandi gegn tryggingu þar sem bandarískir rannsóknarmenn gátu ekki fært sannanir fyrir því að hann væri viðriðinn hryðjuverk. Málið þykir áfall fyrir bandarísk yfirvöld og táknrænt fyrir vandræðin sem virðast einkenna rannsóknina á hryðjuverkunum 11. september.

Breski dómarinn Timothy Workman ákvað í fyrradag að leysa flugmanninn, Lofti Raissi, úr haldi gegn tryggingu að andvirði 1,4 milljóna króna meðan beðið er réttarhalds í máli hans. Bandarísk yfirvöld hafa óskað eftir því að hann verði framseldur og gert er ráð fyrir því að beiðnin verði tekin fyrir 28. mars.

Raissi var handtekinn nálægt London 21. september vegna gruns um að hann hefði kennt fjórum flugræningjanna, sem frömdu hryðjuverkin 11. september, að fljúga farþegaþotum. Saksóknarar sögðu síðar að hann væri aðeins grunaður um tengsl við einn hryðjuverkamannanna, Hani Hanjour, sem flaug farþegaþotu á höfuðstöðvar bandaríska varnarmálaráðuneytisins í Washington.

Saksóknurunum hefur þó ekki tekist að færa sönnur á þessi tengsl og dómarinn kvaðst hafa komist að þeirri niðurstöðu að "engar líkur" væru á því að flugmaðurinn yrði ákærður "í náinni framtíð" fyrir aðild að hryðjuverkum.

Saksóknararnir hafa aðeins ákært Raissi fyrir að hafa logið í umsókn sinni um flugmannsskírteini í Bandaríkjunum í júní í fyrra, leynt því að hann hafi verið dæmdur fyrir þjófnað árið 1993 og ekki getið þess að hann hafi gengist undir aðgerð vegna hnémeiðsla.

"Við höfum alltaf sagt að Lofti tengdist þessu ekki á neinn hátt," sagði eiginkona flugmannsins, Sonia, og krafðist þess að bandaríska alríkislögreglan, FBI, bæði hann afsökunar á því að hafa "eyðilagt líf hans og mannorð" með því að bendla hann við hryðjuverk. "Við höfum beðið í fimm mánuði og skilaboð mín til FBI eru: þið handtókuð hann fyrir hryðjuverk og hvers vegna viljið þið þá núna að hann verði framseldur vegna þessarar fáránlegu og smávægilegu ákæru?"

John Wadham, framkvæmdastjóri mannréttindahreyfingarinnar Liberty í Bretlandi, sagði að mál Raissis væri áhyggjuefni. "Það er uggvekjandi að honum skuli hafa verið haldið í fangelsi í fimm mánuði vegna minniháttar ákæru. Hversu lengi er hægt að láta þetta viðgangast?"

Aðeins ein hryðjuverkaákæra

Mál Raissis virðist táknrænt fyrir gang rannsóknarinnar á hryðjuverkunum 11. september. Aðeins einn maður, Zakarias Moussaoui, hefur verið ákærður fyrir aðild að hryðjuverkunum. Hann var handtekinn fyrir brot á innflytjendalöggjöfinni í Minnesota í ágúst og því þegar í fangelsi þegar hryðjuverkin voru framin.

Meira en 1.200 manns hafa verið handtekin í Bandaríkjunum í tengslum við rannsóknina en enginn þeirra hefur verið ákærður fyrir aðild að hryðjuverkunum. 116 þeirra hafa verið ákærðir vegna annarra sakamála og 460 er haldið fyrir brot á innflytjendalögggjöfinni.

George J. Tenet, yfirmaður bandarísku leyniþjónustunnar CIA, sagði í vikunni sem leið að "nær 1.000 liðsmenn al-Qaeda", samtaka Osama bin Ladens, hefðu verið handteknir í meira en 60 löndum. Bandarískur embættismaður viðurkenndi þó að fangarnir væru ekki allir liðsmenn al-Qaeda og nokkrir þeirra hefðu verið látnir lausir vegna skorts á sönnunum.

London. AP, AFP, Los Angeles Times.