Ég ætla því að nota tækifærið hér og biðja Björn Bjarnason um að bera sig eftir mínu atkvæði, það gæti nefnilega orðið hans!

Lífinu í miðborg Reykjavíkur hefur hnignað. Það er staðreynd. Þetta sagði Eyþór Arnalds orðrétt í Silfri Egils á Skjá einum sl. sunnudag og fari svo sem horfir, þ.e. haldi sjálfstæðismenn í Reykjavík áfram að tefla Eyþóri fram í hinum ýmsu viðræðuþáttum með þessum málflutningi, fer víst lítið um þau áform undirritaðs að ganga til þessara kosninga með opnum huga, gera ekki upp á milli Björns og Ingibjargar Sólrúnar fyrr en á seinni stigum kosningabaráttunnar.

Kannski er það vegna þess að ég bý í miðbænum sem ég staldra við síendurteknar staðhæfingar Eyþórs um að allt sé þar í volli. Ásigkomulag miðborgarinnar snýr nefnilega ekki aðeins að þeim sem á hverjum tíma fara með völdin í ráðhúsinu heldur einnig að íbúunum sjálfum. Ég get því ekki annað en tekið það svolítið persónulega þegar fullyrt er að hverfið mitt sé hin ömurlegasta byggð, enda hlýt ég sem íbúi að bera á því nokkra ábyrgð.

Í öllu falli hef ég ekki áhuga á að kjósa neinn sem hefur sett það á oddinn í sínum málflutningi að rakka niður byggðina mína, sem ég að öllu jöfnu kann svo prýðilega við. Þarf þó vafalaust að taka til hendinni í málefnum miðborgarinnar og verkefnin fjölmörg.

Ég get upplýst að ég hefi tvívegis kosið Reykjavíkurlistann í kosningum til borgarstjórnar. Í fyrra skiptið kom ekki annað til greina en gefa Sjálfstæðisflokknum frí. Það var gott fyrir lýðræðið, að mínu mati. Ágætis stemmning myndaðist aukinheldur um framboð R-listans á sínum tíma og það var gaman að taka þátt í þeim sigri, svona sem áhorfandi úr fjarlægð. Eftir fjögur ár hugsaði ég síðan með sjálfum mér að til lítils hefði verið að leiða R-listann til valda ef ekki átti að gefa honum átta ár til að setja mark sitt á málefni höfuðborgarinnar. Ingibjörg Sólrún var líka búin að vera skeleggur borgarstjóri.

Nú eru hins vegar átta ár liðin og engin sérstök ástæða, í líkingu við þær sem ég nefni hér að ofan, til þess að ákveða fyrir fram hvaða stjórnmálaafl verður þess heiðurs aðnjótandi í vor að hljóta mitt atkvæði. Jafnvel kominn tími til að skipta, svo vísað sé til lýðræðisrakanna (en skv. sömu rökum þarf þá vitaskuld að skipta út í þingkosningunum á næsta ári!).

Ég tilheyri semsé þessum hópi kjósenda sem ekki hafa "valið sér lið" í stjórnmálabaráttunni, þessu fljótandi fylgi sem sumir myndu víst kalla pólitísk viðrini fyrir skort á pólitískri sannfæringu.

Verður þó að játast að sennilega hallast ég heldur til vinstri en til hægri, neyðist ég á annað borð til að víkja af miðjupunktinum. Við þau tíðindi, að Björn Bjarnason ákvað að taka efsta sæti á lista sjálfstæðismanna, jukust hins vegar líkur á því að ég gæti hugsað mér að breyta til að þessu sinni, enda þykir mér menntamálaráðherra vel lesinn maður og víðsýnn. Hann hefur einhverja "dýpt" sem þá skortir, sem birtast korteri fyrir kosningar og vilja smokra sér inn á lista með öfgakenndum, pópúlískum yfirlýsingum.

Ég ætla því að nota tækifærið hér og biðja Björn Bjarnason um að bera sig eftir mínu atkvæði, það gæti nefnilega orðið hans! Og ég get gert betur: ég get gefið honum nokkur góð ráð til að minnka líkurnar á því að honum verði það á að klúðra þessu frábæra tækifæri, sem er mitt atkvæði, það eina sem ég á og þess vegna heilagt í mínum huga.

Helsta hættan er nefnilega sú að sjálfstæðismenn spýti svo í lófana, að þeir gangi fram af sér í herskáum árásum á núverandi stjórnarherra við Tjörnina. Þá er ekki ólíklegt að ég neyðist til að taka upp hanskann fyrir það lið sem ég hef fram að þessu stutt, hverju svo sem líður orðum mínum hér að framan um að ég hafi ekki "valið mér lið" í pólitíkinni.

Menn verða semsé að átta sig á því að fari þeir ofan í skotgrafirnar sem aldrei fyrr - sem mér sýnist líklegt ef marka má málflutning Eyþórs Arnalds - ýta þeir ofan í þær líka öllum þeim kjósendum R-listans sem að þessu sinni eru ekki alveg 100% vissir í sinni sök.

Einhver gæti ályktað sem svo að allir þessir varnaglar, sem ég hefi hér slegið, merki einfaldlega að engar líkur séu á því að ég muni í raun og veru snúast til fylgis við Björn og co. Þá er því til að svara að menn hljóta að leggja alla áherslu á að ná til sín sveimhugunum - föstu atkvæðin eru jú trygg í hendi, eða er ekki svo?

R-listafólk get ég á hinn bóginn huggað með því að segja að ekki er öll von úti enn, ég gæti enn orðið ykkar! Borgarstjórinn er áfram helsta trompið en ég hef af því nokkrar áhyggjur að ekki takist að skapa neina viðlíka stemmningu í kringum framboðið og var fyrir átta árum, og í minna mæli fyrir fjórum árum. Til þess þarf m.a. mun "drastískari" breytingar á listanum en mér sýnist að muni verða raunin. Hjá Samfylkingu er t.d. mest megnis sama fólkið í framboði, plús einn fyrrverandi útvarpsmaður sem mér finnst eiginlega að hefði átt að vera farinn í framboð fyrir löngu, ef hann hafði á annaðborð hug á því. Vinstrigrænir hafa að vísu úrval ungra gáfumanna í sínum röðum en því miður hafa þeir rasað svo út á vefriti sínu, Múrnum, að aðild þeirra verður minna spennandi en ella. Eru menn líklega bara alltof vinstrisinnaðir á þeim bænum fyrir minn smekk og gott að vita það um sjálfan sig.

Kannski nægir þó að menn sýni hugmyndaauðgi þegar kemur að hinu umtalaða sjöunda sæti á listanum. Þætti mér áhugavert að sjá þar Dag Eggertsson, einkum og sér í lagi ef sjónvarpsstjarnan Gísli Marteinn Baldursson yrði í góðu sæti hinum megin. Þá væru nefnilega að rætast eldgamlar grunsemdir margra jafnaldra þeirra, að þeir félagar ættu er fram liðu stundir eftir að marka öndverða póla í íslenskri pólitík.

Eftir Davíð Loga Sigurðsson david@mbl.is