[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Mikilvægur áfangi náðist á fundi ríkisstjórnarinnar síðastliðinn föstudag, 8. febrúar, þegar samþykkt var að fara með þrjú frumvörp um vísindi og tækni inn á alþingi. Þetta segir menntamálaráðherra.

Lagarammi

Á vefsíðu sinni sagði Björn Bjarnason nýlega m.a.:

"Nú er um eitt og hálft ár liðið frá því, að ég hreyfði því fyrst á fundi með Rannsóknarráði Íslands, að nauðsynlegt væri að skapa vísinda- og tæknistarfsemi í landinu nýjan lagaramma og auka hlut vísinda og tækni við mótun almennrar efnahags- og atvinnustefnu þjóðarinnar. Taldi ég það best gert með því að virkja ríkisstjórn og ráðherra undir forystu forsætisráðherra meira en áður í þágu þessara mála og skilgreina síðan betur en gert hefur verið skilin á milli vísinda og tækni samhliða því, sem hugað væri að leiðum til að hrinda því í framkvæmd, sem rannsóknir skila, grunnrannsóknir eða hagnýtar rannsóknir.

Þrjú frumvörp

Mikilvægur áfangi náðist á fundi ríkisstjórnarinnar síðastliðinn föstudag, 8. febrúar, þegar samþykkt var að fara með þrjú frumvörp um þessi mál inn á alþingi, það er um Vísinda- og tækniráð, sem flutt er af forsætisráðherra, um opinberan stuðning við vísindarannsóknir, sem flutt er af menntamálaráðherra, og frumvarp um opinberan stuðning við tækniþróun og nýsköpun í þágu atvinnulífsins, sem flutt er af iðnaðarráðherra.

Helstu markmið með þessum breytingum er að stuðla að því að vísindarannsóknir og tækniþróun vaxi og dafni í takt við þjóðlíf, en bæði þarf trausta undirstöðuþekkingu og tæknikunnáttu til að leysa verkefni samtímans. Með því verða áhrif rannsókna á þjóðarhag og hagvöxt gerð sýnileg og fá aukna opinbera umfjöllun. Einnig verður stuðlað að því að menntun ungra vísindamanna standist alþjóðlegar kröfur og mæti þörfum samfélagsins. Samhliða þessum markmiðum leggi Íslendingar aukna áherslu á alþjóðasamstarf á sviði vísinda og tækni."

Nýskipan

"Síðan ég hreyfði hugmyndum um nýskipan þessara mála hafa orðið miklar umræður víða um kosti hennar og galla nú síðast á málþingi á vegum Reykjavíkurakademíunnar í janúar sl. Þótti mér, að fundarmenn tækju tillögunum almennt vel og vona ég, að sama viðhorf komi fram hjá þingmönnum og unnt verði að ljúka afgreiðslu frumvarpanna á næstu vikum, því að mikið er í húfi fyrir vísinda- og tæknisamfélagið, sem verður sífellt öflugra í íslensku þjóðlífi."