HALLDÓR Ásgrímsson utanríkisráðherra segist ósammála því mati Davíðs Oddssonar forsætisráðherra að endurskoðun EES-samningsins snúist um prófarkalestur. Hann segir að málið snúist með einum eða öðrum hætti um mikilvægustu framtíðarhagsmuni Íslands.

HALLDÓR Ásgrímsson utanríkisráðherra segist ósammála því mati Davíðs Oddssonar forsætisráðherra að endurskoðun EES-samningsins snúist um prófarkalestur. Hann segir að málið snúist með einum eða öðrum hætti um mikilvægustu framtíðarhagsmuni Íslands.

Í ræðu á viðskiptaþingi í fyrradag fjallaði Davíð um endurskoðun EES-samningsins og þau vandamál sem upp hefðu komið við framkvæmd hans. "Það er eðlilegt eftir átta ár, að slíkur prófarkalestur eigi sér stað. Hins vegar er ljóst að engin stórvandamál eru á ferðinni og engir stórir hagsmunir í hættu," sagði Davíð m.a.

Halldór sagðist í samtali við Morgunblaðið ekki vera sammála því að þetta mál snerist um prófarkalestur á EES-samningnum.

"Ég tel að þetta mál fjalli með einum eða öðrum hætti um mikilvægustu framtíðarhagsmuni Íslands og varði spurninguna hvort við getum búið við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið til framtíðar eða hvort við verðum að beina athyglinni að hugsanlegri aðild. Ef við viljum búa við samninginn til lengri framtíðar, þá þarf að hafa fyrir því að vinna samningnum meiri athygli og virðingu," sagði Halldór.