TÖLUR um greiðsluafkomu ríkissjóðs á síðasta ári liggja nú fyrir. Árið 2001 var handbært fé frá rekstri neikvætt um 1,5 milljarða króna, samanborið við 12,1 milljarðs króna jákvæða afkomu árið áður.

TÖLUR um greiðsluafkomu ríkissjóðs á síðasta ári liggja nú fyrir. Árið 2001 var handbært fé frá rekstri neikvætt um 1,5 milljarða króna, samanborið við 12,1 milljarðs króna jákvæða afkomu árið áður. Fjármálaráðuneytið segir að meginástæðu versnandi afkomu ríkissjóðs megi rekja til umskipta í efnahagsmálum á árinu sem hafi birst í samdrætti tekna og auknum útgjöldum vegna meiri verðlags- og gengisbreytinga. Heildarútgjöld hækkuðu um tæpa 26 milljarða milli ára og námu rúmum 221 milljarði króna. Munar þar mest um áhrif kjarasamninga og gengisþróunar og almenna verðlagsþróun sem ráðuneytið metur á tæplega tvo þriðju hluta hækkunarinnar.

Tekjurnar hækka um 13,2 milljarða króna milli ára, eða 6,5%, og nema 220,8 milljörðum. Ráðuneytið segir að tekjurnar hafi að mestu verið í samræmi við áætlun fjárlaga, fyrir utan tekjur af sölu eigna. Urðu þær 14 milljörðum kr. lægri en ætlað var, þar sem áform um sölu á hlut ríkisins í Landssímanum og ríkisbönkunum hafi ekki gengið eftir á árinu.

Sem skýringu á auknum útgjöldum nefnir fjármálaráðuneytið einnig ný verkefni og sérstök tilvik, eins og greiðslur fæðingarorlofs, sérstakar greiðslur til öryrkja, raunhækkun til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og búvörusamninginn. Urðu gjöldin 10,3 milljörðum króna umfram fjárlög og segir ráðuneytið verðlagsbreytingar skýra um tvo þriðju hluta af umframgjöldunum. "Afgangurinn skýrist að mestu af sérstökum greiðslum til öryrkja og hækkun bóta í samræmi við ný lög um almannatryggingar sem tóku gildi á miðju árinu, auk hærri vaxtagreiðslna," segir m.a. í tilkynningu frá fjármálaráðuneytinu en almannatryggingalögin leiddu til 700 milljóna króna raunhækkunar gjalda á árinu. Þá jukust framlög milli ára til framhaldsskóla og heilbrigðis- og samgöngumála.

25 milljarðar til að bæta gjaldeyrisstöðu Seðlabankans

Á síðasta ári var hreinn lánsfjárjöfnuður neikvæður um 25,7 milljarða króna. Skýrist það að mestu af sérstöku erlendu láni upp á 25 milljarða sem ráðstafað var til Seðlabankans til að bæta eiginfjárstöðu og styrkja gjaldeyrisstöðuna. Þá var nokkrum fjárhæðum varið til að minnka lífeyrisskuldbindingar ríkissjóðs með sérstökum greiðslum til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Námu þessar greiðslur 12,5 milljörðum í fyrra en samanlagt 25 milljörðum frá árinu 1998.