Sigurlín Sveinbjarnardóttir
Sigurlín Sveinbjarnardóttir
Í bænum Farum í Danmörku hafa 67 ára borgarar og eldri, segir Sigurlín Sveinbjarnardóttir, fengið frímiða til sólarlanda á hverjum vetri.

EINU sinni var kóngur í ríki sínu. Hann var alltaf glaður því allt gekk svo vel og gullkistur ríkisins voru stöðugt fullar. En hverju var þessi velsæld að þakka?

Kóngurinn hafði í mörg ár stjórnað ríki sínu eins og góðu fyrirtæki, boðið út hina ýmsu þætti þjónustu við þegnana og ávallt fengið góð tilboð. Jafnframt þessu tryggðu eftirlitsmenn hans með öruggu gæðaeftirliti að þjónustan væri sú besta sem völ var á. Gæðin voru tryggð, allir þegnarnir lifðu góðu lífi en gull safnaðist í kistur þessa smáríkis.

Þá fór kóngurinn að velta fyrir sér hverjir ættu fyrst og fremst skilið að njóta auðæfanna. Þar sem þetta var réttsýnn og góður kóngur komst hann að þeirri niðurstöðu að eldri borgararnir í ríki hans, sem höfðu unnið hörðum höndum að því að skapa það góða þjóðfélag sem nú var til, ættu skilið sérstaka umbun. Því hefur hann nú í mörg ár gefið öllum borgurum sínum eldri en 67 ára frímiða til sólarlanda á hverjum vetri, þegar kalt er og dimmt í þeirra eigin ríki. Þessar ferðir hafa hlotið nafnið ,,velsældarferðir" og eldra fólkið kemur svo ánægt og endurnært heim frá hverri ferð að miklir fjármunir sparast í hjúkrun og heilsugæslu. Því hækkar enn í gullkistum ríkisins.

Þetta er ekki ævintýri heldur sönn saga. Þetta er ekki smáríki heldur rúmlega 30 þúsund manna bæjarfélag í Danmörku, þ.e. Farum, rétt norðan við Kaupmannahöfn. Þar er auðvitað bæjarstjóri en ekki kóngur. Ég hef kynnst þessum bæ prýðilega af eigin raun þar sem ég var starfandi kennari þar í 5 ár og á ennþá góða vini þar í bæ.

Hvaða bæjarfélag á Íslandi skyldi verða fyrst til að feta í fótspor frænda okkar í bænum Farum í Danmörku? Það gæti vel orðið Hafnarfjörður. Meirihluti bæjarstjórnar hefur áður sýnt dirfsku í rekstri bæjarins og óttast ekki að fela einkaaðilum ákveðna þætti í þjónustu við bæjarbúa enda fylgir því nauðsynlegt eftirlit. Fulltrúar meirihlutans hafa jafnvel farið í heimsókn til Farum og kynnt sér óvenjulegan rekstur bæjarfélagsins.

Ég hvet alla bæjarbúa og sérstaklega eldri borgara í Hafnarfirði til að láta skoðun sína í ljós í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði laugardaginn 16. febrúar. Kjósið sjálf svo aðrir ráði ekki fyrir ykkur. Æintýrin geta vissulega gerst hjá okkur.

Höfundur sækist eftir einu af efstu sætum á lista Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði.