NOKKRIR félagar úr björgunarsveitinni Víkverja í Vík komu tveimur nýjum rafgeymum upp á Höttu um síðustu helgi, en upp á síðkastið hafði samband frá endurvarpanum, sem er á toppi Höttu og í eigu Landsbjargar, verið að dofna og detta út vegna...

NOKKRIR félagar úr björgunarsveitinni Víkverja í Vík komu tveimur nýjum rafgeymum upp á Höttu um síðustu helgi, en upp á síðkastið hafði samband frá endurvarpanum, sem er á toppi Höttu og í eigu Landsbjargar, verið að dofna og detta út vegna rafmagnsleysis. Þessi endurvarpi gegnir mikilvægu hlutverki í fjarskiptum milli talstöðva og er þar af leiðandi mikið öryggistæki ef til náttúruhamfara kæmi. Í hann næst frá Landeyjum og austur í Öræfi.

Hatta er rúmir fimm hundruð metrar á hæð og frá þjóðveginum séð mjög tignarleg. Fyrir allmörgum árum var gerður vegur þarna upp og er því hægt að aka langleiðina upp á fjallið upp úr svokölluðum Kjósum. Síðasta spottann, um 200 metra, sem er töluvert brattur, urðu menn að bera rafgeymana, sem hver vegur um 40 kíló. Kristján Þórðarson, Hjörleifur Ólafsson, Ágúst Freyr Bjartmarsson og Jóhann Einarsson félagar úr Björgunarsveitinni Víkverja við endurvarpann uppi á Höttu.