Söng- og leikkonan Britney Spears mætti ásamt kærastanum Justin Timberlake á frumsýningu Crossroads í Hollywood.
Söng- og leikkonan Britney Spears mætti ásamt kærastanum Justin Timberlake á frumsýningu Crossroads í Hollywood.
POPPSTJARNAN Britney Spears hefur sannað að hún er ekki aðeins táningabóla sem sprengd verður með auðveldum hætti, en mörgum táningastjörnum hefur einmitt mistekist að halda vinsældum þegar árin færast yfir.

POPPSTJARNAN Britney Spears hefur sannað að hún er ekki aðeins táningabóla sem sprengd verður með auðveldum hætti, en mörgum táningastjörnum hefur einmitt mistekist að halda vinsældum þegar árin færast yfir. Það er heldur ekki lengur helsta áhyggjuefni poppprinsessunnar og hennar markaðsmógúla, heldur sú spurning hvernig aðdáendur hennar - og gagnrýnendur - taka henni á hvíta tjaldinu.

Í frumraun sinni á hvíta tjaldinu, myndinni Crossroads, sem frumsýnd var í Bandaríkjunum á mánudag, leikur Britney stúlkuna Lucy, sem fer í ferðalag ásamt gömlu félögunum úr gaggó. Vinirnir ætla að uppfylla drauma sína og vill Lucy ekkert frekar en hitta móður sína á ný.

Poppímyndin til trafala?

Það mæðir ekki mikið á Britney í myndinni að mati gagnrýnenda, sem virðast margir sammála um að flökurleiki hafi sótt að þeim við að horfa á myndina, sem þykir óvenju væmin, meira að segja á bandarískan mælikvarða. Ógleðin hefur þó ekkert með leikhæfileika Britney að gera. Á netsíðu BBC er hún sögð standa sig ágætlega þó að það hái henni, eins og mörgum öðrum poppurum á hvíta tjaldinu, að hafa þegar skapað sér ákveðna ímynd sem erfitt reynist að víkja frá.

Britney neitar því ekki að það hafi verið erfitt að leika í myndinni, sérstaklega þegar hún átti að gráta og sýna tilfinningar. Auðveldara reyndist henni að leika í atriði þar sem vinkonurnar hópast inn á karaoke-bar og taka lagið. Þá fannst henni sömuleiðis erfitt að kyssa mótleikara sinn, Anson Mount, og vildi hún alls ekki að kærastinn Justin Timberlake yrði vitni að því.

Britney útilokar ekki að í framtíðinni muni hún og Timberlake leika saman í kvikmynd. "Það væri æðislegt að leika í endurgerð kvikmyndarinnar Love Story," sagði Britney. "Það þarf virkilegt neistaflug að vera á milli þeirra sem leika aðalpersónurnar í þeirri mynd."