ENGINN fær meira en 50.000 krónur greitt úr Lífeyrissjóði bænda í elliífeyri á mánuði og enginn meira en 30.000 kr. í makalífeyri. Þetta kemur fram í svari fjármálaráðherra við fyrirspurn Drífu Hjartardóttur (D) um Lífeyrissjóð bænda og jafnframt að 3.

ENGINN fær meira en 50.000 krónur greitt úr Lífeyrissjóði bænda í elliífeyri á mánuði og enginn meira en 30.000 kr. í makalífeyri.

Þetta kemur fram í svari fjármálaráðherra við fyrirspurn Drífu Hjartardóttur (D) um Lífeyrissjóð bænda og jafnframt að 3.618 einstaklingar fengu greiddan lífeyri úr sjóðnum í október 2001.

Samtals fá liðlega 1.000 manns um 5.000 kr. að meðaltali í ellilífeyri á mánuði, 976 manns fá um 14.600 kr., 396 fá um 24.000 kr. og 87 um 32.500 kr. en enginn meira en 50.000 kr. 504 fá tæplega 4.800 kr. í makalífeyri á mánuði að meðaltali, 233 tæplega 13.700 kr. og 9 tæplega 22.000 kr. en enginn meira en 30.000 kr. 105 fá um 6.000 kr. að meðaltali í örorkulífeyri á mánuði, 110 um 15.300 kr., 82 um 25.000 kr., 46 um 33.600 kr. og 22 um 43.500 kr. en enginn meira en 50.000 kr.

Samkvæmt ársuppgjörum Lífeyrissjóðs bænda voru virkir sjóðfélagar 4.812 á árinu 2000 og 5.122 á árinu 1999 en gera má ráð fyrir að virkum sjóðfélögum ársins 2000 fjölgi þegar upplýsingar berast frá ríkisskattstjóra vegna eftirlits embættisins með greiðslum landsmanna í lífeyrissjóði.

Í svarinu kemur ennfremur fram að ákvæði samþykktanna um lífeyrisréttindi eru með svipuðum hætti og hjá almennu lífeyrissjóðunum, sem byggja réttindakerfi sín á samningum Alþýðusambands Íslands og Vinnuveitendasambands Íslands. Með lögum nr. 122/1977 var afnumið lögbundið hámark iðgjaldagreiðslna í Lífeyrissjóð bænda. Iðgjaldsstofninn var ekki lengur búvöruverð heldur reiknuð laun eða greidd laun í landbúnaði þar sem búrekstrarformi væri þannig háttað. Lágar lífeyrisgreiðslur úr sjóðnum til sumra bænda megi því skýra með því að þeir hafi stundað búskap í fá ár eftir stofnun sjóðsins, en hann tók til starfa 1. janúar 1971.

Lífeyrissjóður bænda starfar eftir lögum nr. 12/1999. Iðgjaldið skal vera 4% af iðgjaldsstofni, sem er reiknuð laun eða greidd laun í landbúnaði. Mótframlagið er 50% hærra en iðgjaldið og er það að jafnaði greitt úr ríkissjóði og hafa bændur þá samið um greiðslu þess en annaars verða þeir að greiða það sjálfir. Fjárhæð lífeyris úr sjóðnum veltur á því hve hátt endurgjald eða há laun sjóðfélagi ákvarðaði sér meðan hann var í búrekstri, segir jafnframt í svarinu.