LÖG um Rannsóknarráð Íslands hafa verið endurskoðuð, með það að markmiði að auka vægi vísindarannsókna og tækniþróunar hér á landi. Samin hafa verið þrjú lagafrumvörp, sem fela í sér verulegar breytingar á stjórnskipulagi Rannsóknarráðs og tengdra aðila.

LÖG um Rannsóknarráð Íslands hafa verið endurskoðuð, með það að markmiði að auka vægi vísindarannsókna og tækniþróunar hér á landi. Samin hafa verið þrjú lagafrumvörp, sem fela í sér verulegar breytingar á stjórnskipulagi Rannsóknarráðs og tengdra aðila. Í fyrsta lagi frumvarp um Vísinda- og tækniráð, sem lagt er fram af forsætisráðherra, í öðru lagi frumvarp um opinberan stuðning við vísindarannsóknir, sem lagt er fram af menntamálaráðherra og í þriðja lagi frumvarp um opinberan stuðning við tækniþróun og nýsköpun í þágu atvinnulífsins, sem lagt er fram af iðnaðarráðherra.

Í frétt frá forsætisráðuneytinu kemur fram, að frumvörpin gera ráð fyrir að stefnumótun í málefnum vísindarannsókna og tækniþróunar fari fram í Vísinda- og tækniráði. "Vægi málaflokksins er aukið með því að stefnumótun fer fram í ráði sem fjórir ráðherrar eiga sæti í og starfar undir stjórn forsætisráðherra. Þar koma ráðherrar auk vísindamanna og fulltrúa atvinnulífsins saman til stefnumótunar í málefnum rannsókna og þróunar. Er þetta nýlunda hér á landi, en oft hefur verið bent á að það hafi staðið málaflokknum fyrir þrifum, að heyra ekki undir eina yfirstjórn," segir í frétt forsætisráðuneytisins.

Frumvörpin gera ráð fyrir að nýr sjóður, Rannsóknarsjóður, taki við hlutverki Vísindasjóðs og Tæknisjóðs. Hann mun gegna lykilhlutverki varðandi styrkveitingar til vísindarannsókna, bæði grunnrannsókna og hagnýtra rannsókna. Þá munu sömu menn sitja í stjórn Rannsóknarsjóðs og Tækjasjóðs, sem tekur við af Bygginga- og tækjasjóði, en með því er leitast við að samþætta úthlutanir úr sjóðunum. Rannsóknarnámssjóður mun starfa áfram, en hér eftir aðeins styrkja rannsóknartengt framhaldsnám til meistara- eða doktorsgráðu við íslenska skóla á háskólastigi, en ekki við erlenda háskóla.

Loks hefur svo verið ákveðið að setja á laggirnar Nýsköpunarmiðstöð fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki, sem verður vettvangur miðlunar þekkingar til fyrirtækja og frumkvöðla þar sem m.a. verður veitt leiðsögn um stofnun og rekstur fyrirtækja, tæknileg úrlausnarefni leyst og nýrri þekkingu miðlað til atvinnulífsins. Þá er Tækniþróunarsjóði ætlað að koma að fjármögnun tækniþróunar nýsköpunarverkefna og rannsókna.