BRESKIR verkfræðingar eru að leggja lokahönd á smíði ofurþunnra hátalara úr bylgjupappa og að þeirra sögn hillir nú undir það, að alls konar pakkavara, til dæmis kornfleks- og sápupakkar, geti auglýst sjálfa sig í hillum verslananna.

BRESKIR verkfræðingar eru að leggja lokahönd á smíði ofurþunnra hátalara úr bylgjupappa og að þeirra sögn hillir nú undir það, að alls konar pakkavara, til dæmis kornfleks- og sápupakkar, geti auglýst sjálfa sig í hillum verslananna.

Þessi nýja tækni hefur verið þróuð hjá breska fyrirtækinu NXT að því er segir í tímaritinu New Scientist, sem kemur út á laugardag. Eru fyrstu hátalararnir, 70 sm háir, væntanlegir á markað en þeir eru til dæmis ætlaðir fólki, sem vill bjóða vinum sínum til veislu án þess að eiga á hættu, að þeir skemmi annan og dýrari hátalarabúnað.

Hátalararnir eru eins og fyrr segir úr bylgjupappaörk, sem er brotin saman þannig, að úr verði þríhyrningur. Aftan á eina hliðina er festur rafsegul-"hvati", 2,5 sm þykkur, sem breytir rafboðum í hljóðboð. Þegar "hvatinn" hefur verið tengdur magnara fer pappinn eða þríhyrningurinn að virka eins og þind eða hljóðhimna og gefa frá sér hljóð.

Verið er að vinna að smíði minni hátalara og þá verður þess kannski ekki langt að bíða, að pakkavaran hrópi á fólk í búðunum "kauptu mig, kauptu mig" og geri því um leið ýmis gylliboð.

París. AFP.