ALLS hafa 40 sveitarfélög af 122 í landinu lokið við gerð heildaráætlana um úrbætur í fráveitumálum.

ALLS hafa 40 sveitarfélög af 122 í landinu lokið við gerð heildaráætlana um úrbætur í fráveitumálum. Sveitarfélög sem fengið hafa úthlutað styrkjum til fráveituframkvæmda hafa lokið gerð heildaráætlana fyrir þann hluta sveitarfélags sem viðkomandi framkvæmdir ná yfir. Í þessum 40 sveitarfélögum búa um 70% landsmanna og eru þau mislangt komin með úrbætur í fráveitumálum.

Þetta kemur fram í svari Sivjar Friðleifsdóttur umhverfisráðherra við spurningum Drífu Hjartardóttur alþingismanns. Hún spurði einnig hvernig væri háttað stuðningi ríkisins í þessum málum. Í svarinu kemur fram að samkvæmt lögum frá árinu 1995 geti stuðningurinn numið allt að 200 milljónum króna á ári en þó aldrei meiru en sem nemi 20% af kostnaði styrkhæfra framkvæmda fyrra árs. Þá spurði þingmaðurinn hvort til greina kæmi að Ísland fengi undanþágu frá reglum Evrópusambandsins í þessum málum vegna séraðstæðna, t.d. fámennis. Í svarinu segir að hér við land nægi eins þreps hreinsun í langflestum tilvikum enda landið strjálbýlt og íbúar fáir. Eins þreps hreinsun miði fyrst og fremst að því að fjarlægja botnfellanlegan og fljótandi úrgang úr skolpi. Bent er á að reglur Evrópusambandsins taki tillit til aðstæðna í umhverfi og til fámennra sveitarfélaga.

Í lokin spurði þingmaðurinn hvort til greina kæmi að styrkja sveitarfélög lengur en til ársins 2005 eins og gildistími laganna tilgreinir. Fram kemur í svarinu að fráveituframkvæmdir sveitarfélaganna hafi farið hægar af stað en ráð var fyrir gert en fráveitunefnd mun meta stöðuna og hvaða viðbrögð verði nauðsynleg á gildistíma laganna og eftir árið 2005. Þá kemur fram að milli 80 og 90 sveitarfélög þar sem um 30% landsmanna búa hafi ekki kynnt áform um úrbætur í fráveitumálum.