FRAMLEIÐSLA á grasmjöli og graskögglum hefur dregist mjög saman hérlendis síðustu árin. Var hún tæp 2.700 tonn árið 1999, 1.190 árið 2000 en engin í fyrra. Birgðir innlendra grasköggla í landinu eru nú um 700 tonn.

FRAMLEIÐSLA á grasmjöli og graskögglum hefur dregist mjög saman hérlendis síðustu árin. Var hún tæp 2.700 tonn árið 1999, 1.190 árið 2000 en engin í fyrra. Birgðir innlendra grasköggla í landinu eru nú um 700 tonn.

Þetta kom fram í svari Guðna Ágústssonar landbúnaðarráðherra við fyrirspurnum Jóns Bjarnasonar alþingismanns. Hann spurði jafnframt hversu mikið hefði verið flutt út af grasmjöli og graskögglum, hver væri samkeppnisstaða íslenskrar framleiðslu gagnvart innflutningi, hvort íslenskar verksmiðjur hefðu verið úreltar síðustu árin og hversu margar væru nú starfandi. Ekki er gerður greinarmunur á grasmjöli og graskögglum hér á eftir.

Árið 1999 voru flutt inn 0,3 tonn af graskögglum, 571 tonn árið 2000 og 226 í fyrra. Flutt voru út árið 1999 575 tonn, 261 árið 2000 og 69 í fyrra. Um samkeppnisstöðu innlendu framleiðslunnar fengust ekki nákvæmar upplýsingar þar sem í skriflegu svari kemur fram að slíkt myndi kalla á úttekt sem ekki yrði unnin á fáum dögum. Vísað var til skýrslu nefndar um rekstrarskilyrði graskögglaverksmiðja árið 1999 þar sem fram kemur að verð á graskögglum frá Danmörku sé 25-40% lægra en verð á þeim íslensku. Segir í niðurstöðu nefndarinnar að samkeppnisstaða innlendra graskögglaverksmiðja sé mun lakari en í Danmörku.

Um úreldingu segir að þrjár verksmiðjur af fjórum hafi óskað úreldingar, í Vallhólma í Skagafirði, Brautarholti á Kjalarnesi og Flatey í Austur-Skaftafellssýslu. Fóðuriðjan í Ólafsdal í Dalasýslu hafi ákveðið að halda áfram starfsemi. Þar hafi ekki farið fram nein framleiðsla á sl. sumri og að ársstörf séu 4,5.