KJETIL Andre Aamodt frá Noregi fékk sinn sjötta verðlaunapening á Ólympíuleikum í gærkvöldi þegar hann sigraði í alpatvíkeppni, tíu árum eftir að hann sigraði í fyrsta sinn, í risasvigi í Albertville í Frakklandi.

KJETIL Andre Aamodt frá Noregi fékk sinn sjötta verðlaunapening á Ólympíuleikum í gærkvöldi þegar hann sigraði í alpatvíkeppni, tíu árum eftir að hann sigraði í fyrsta sinn, í risasvigi í Albertville í Frakklandi.

Aamodt var með besta tímann í bruninu en í fyrri ferð svigsins færðust nokkrir keppendur nær honum og meðal annars fékk Bode Miller frá Bandaríkjunum sama tíma í sviginu en hann var í 15. sæti eftir brunið. Lasse Kjus, landi Aamodt, var í öðru sæti bæði eftir brunið og fyrri ferðina, en honum urðu á tvenn mistök í síðari ferðinni og endaði í fimmta sæti.

Þegar allir þeir bestu höfðu farið síðari ferðina, nema Aamodt, var staðan sú að Miller var í fyrsta sæti þannig að Aamodt vissi nákvæmlega hvað hann þurfti að gera og maður með þá reynslu sem hann hefur nýtti sér það til fulls. Miller varð annar og Austurríkismaðurinn Benjamin Raich þriðji. Norðmaðurinn hefur nú unnið til tveggja gullpeninga á Ólympíuleikum, tvívegis hefur hann fengið silfur og jafnoft brons.