HANNES Þ. Sigurðsson knattspyrnumaður, sem norska úrvalsdeildarliðið Viking keypti frá FH-ingum í haust, hefur alla burði til að vinna sér sæti í aðalliði Vikings á komandi leiktíð og sumir segja að Íslendingurinn gæti jafnvel slegið í gegn í norsku knattspyrnunni. Svíinn Benny Lennhartsson, þjálfari Vikings, keypti Hannes með framtíð félagsins í huga en Hannes er aðeins 18 ára gamall.

Á undirbúningstímabilinu með Viking hefur Hannesi gengið mjög vel, bæði á æfingum og í leikjum og samherjar hans og þjálfari gefa honum mjög gott orð. Þeir segja Íslendinginn búa yfir miklum hæfileikum og hann gæti vel komist að í aðalliði Vikings í ár, fyrr en áætlað var.

"Hannes hefur staðið sig virkilega vel á æfingum en það kemur fyrst til með að reyna á getu hans þegar við förum að spila meira," segir Erik Nevland, framherji Viking og fyrrum liðsmaður Manchester United, í samtali við Rogerlands Avis.

Torleif Berg, einn af þjálfurum félagsins, segir í sama blaði að Hannes lofi mjög góðu. "Hann hefur góða tækni. Bæði tekur hann vel á móti boltanum og heldur honum vel og þá er hann góður skotmaður. Með sama áframhaldi verður hann á góðu róli í sumar," segir Berg.

Sjálfur er Hannes hógvær og segir í samtali við norska blaðið að hann stefni að sjálfögðu á að komast í liðið en hann verði mjög sáttur í hvert skipti sem hann verði valinn í 16-manna hópinn.

Hannes skoraði fyrsta mark sitt fyrir Viking í leik á móti Vidar á dögunum en um næstu helgi fer hann með liðinu í æfingaferð til La Manga á Spáni og þangað fer líka Davíð Þór Viðarsson, fyrrum samherji Hannesar hjá FH.

"Það verður gott að komast á gras og spila hörkuleiki við góðar aðstæður," segir Hannes við Rogalands Avis og bætir því við að hann hafi trú á að Davíð Þór geti orðið leikmaður Vikings. "Davíð er mjög spennandi leikmaður. Helsti styrkur hans er mikil yfirferð og góðar sendingar og ég er ekki í nokkrum vafa um að hann verður atvinnumaður í íþróttinni," segir Hannes.