ÚTGÁFUFYRIRTÆKIÐ Mál og menning var í gær dæmt til að greiða Landmælingum Íslands rúmlega 2,7 milljónir vegna notkunar á kortagrunni við útgáfu á landakortum.

ÚTGÁFUFYRIRTÆKIÐ Mál og menning var í gær dæmt til að greiða Landmælingum Íslands rúmlega 2,7 milljónir vegna notkunar á kortagrunni við útgáfu á landakortum.

Forsaga málsins er sú að Mál og menning keypti árið 1997 gögn úr stafrænum kortagrunni Landmælinga Íslands, en fyrirtækið hugðist þá hasla sér völl á sviði kortaútgáfu. Risu deilur um greiðslu vegna birtingargjalds á kortum sem unnin voru eftir kortagrunninum.

Taldi óskylt að greiða gjaldið

Taldi Mál og menning að óskylt væri að greiða umrætt birtingargjald þar sem þau gögn sem hefðu verið notuð við kortagerðina nytu ekki verndar höfundarréttarlaga. Hæðartölur, útlínur landsins, lega jökla og árfarvegir væru staðreyndir sem Landmælingar gætu ekki átt höfundarrétt á. Hefði höfundarréttur verið fyrir hendi væri verndartíminn ennfremur liðinn. Þá væru kort Máls og menningar sjálfstæð höfundarverk sem styddust við gögn sem hefðu verið keypt á stafrænu formi úr gagnagrunni Landmælinga. Auk þess væri gjaldtaka Landmælinga byggð á gjaldskrá sem skorti lagastoð. Gjaldtakan bryti gegn samkeppnislögum og væri andstæð reglum stjórnsýslulaga. Þá væri flokkun á kortum órökstudd og endurgjaldið ósanngjarnt.

Á þennan málatilbúnað féllst dómurinn ekki. Í niðurstöðum hans segir að skv. lögum um landmælingar og kortagerð sé mælt fyrir um að Landmælingar Íslands gæti höfundar- og afnotaréttar á öllu því efni sem stofnunin hefur eignast, unnið eða gefið út í sambandi við mælingar, kort eða myndir af Íslandi. Þá falli gögn úr kortagrunni undir höfundarlög á sama hátt og bókmenntaverk.

Auk greiðslu upp á 2,7 milljónir króna var Mál og menningu gert að greiða 250.000 í málskostnað. Erla S. Árnadóttir hrl. flutti málið f.h. Landmælinga Íslands en Halldór Birgisson hrl. var til varnar. Hervör Þorvaldsdóttir kvað upp dóminn.