Hulda Björk Garðarsdóttir
Hulda Björk Garðarsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Aríur og dúettar úr Brúðkaupi Fíagarós eftir W.A. Mozart. Hulda Björk Garðarsdóttir, sópran, Ólafur Kjartan Sigurðarson, baritón, og Steinunn Birna Ragnarsdóttir, píanó. Þriðjudaginn 12. febrúar 2002.

Á ÞRIÐJUDAG hófst ný hádegistónleikaröð Íslensku óperunnar. Þar voru flutt aríur og dúettar úr Brúðkaupi Fíagrós eftir W.A. Mozart. Síðar er ætlunin að taka til flutnings sönglög eftir Brahms og Atla Heimi Sveinsson á tvennum tónleikum og röðinni lýkur með "óvissuferð" á vit íslenskra sönglaga ólíkra höfunda.

Nýir tímar blasa við í Íslensku óperunni. Fjárhagslegur grundvöllur hennar hefur verið styrktur og ungir söngvarar ráðnir til starfa. Ólafur Kjartan Sigurðarson, baritón, var fyrstur til þess að ríða á vaðið og síðan hafa fleiri fylgt á eftir. Hádegistónleikarnir miða einmitt að því öðrum þræði að kynna hina nýju krafta hússins: á fyrstu hádegistónleikunum fékk Ólafur Kjartan til liðs við sig Huldu Björk Garðarsdóttur, sópran, að hálfum mánuði liðnum mun Sesselja Kristjánsdóttir, mezzósópran, koma til leiks og loks mun Jóhann Friðgeir Valdimarsson, tenór, halda út í óvissuna með baritóninum. Þessir glæsilegu söngvarar hafa allir verið ráðnir við Íslensku óperuna. Þá mun Signý Sæmundsdóttir, sópran, syngja á hádegistónleikum 12. mars, en hún hefur margsinnis sungið í Íslensku óperunni, síðast í Mannsröddinni eftir Poulenc árið 1999.

Brúðkaup Fígarós er eitt merkasta verk Mozarts. Þar segir hann skilið við hefðbundnar hugmyndir manna um óperur og fer í stað þess sínar eigin leiðir. Þar með braut hann ísinn fyrir stórvirkin sem eftir fylgdu: Don Giovanni og Così fan tutte. Öll eru þessi verk við texta æringjans Lorenzo da Ponte, hirðskáldsins í Vínarborg. Tvímælalaust má rekja snjöllustu tónhugmyndir Mozarts í Brúðkaupi Fígarós til afburða hnyttinna settninga og skringilegra kringumstæðna sem da Ponte fitjar upp á. Óperan er samfelldur orðaleikur frá upphafi til enda, ekki aðeins í texta heldur einnig í tónum.

Þegar Brúðkaup Fígarós er stytt, eins og gert var á hádegistónleikum Íslensku óperunnar í vikunni, hlýtur sá háski að vofa yfir að andi verksins fari forgörðum, að hnyttnin og gamansemin komist aldrei á flug, að leikurinn verði innantómur og marklaus. Þessu var þó síður en svo farið hjá þeim Ólafi Kjartani og Huldu Björk. Með því að einskorða sig við samskipti tveggja persóna úr verkinu, elskendanna Fígarós og Súsönnu, tókst að búa flutningnum ramma sem hélt þétt utan um efnið. Greinilegt var að Ólafur Kjartan hefur margoft sungið hlutverk Fígarós og fór á kostum bæði í söng og leik. Hulda Björk fór einnig afbragðs vel með hlutverk Súsönnu og naut þess að hafa slíkt óperunáttúrutröll sér við hlið sem Ólafur Kjartan að sönnu er. Samskipti þeirra á sviðinu voru fölskvalaus og innileg; með aðstoð einfaldra leikmuna varð úr skemmtileg og lífleg sýning.

Brúðkaup Fígarós lifir á spaugilegum texta. Góður framburður er því grundvallaratriði við flutning á slíku verki. Ólafur Kjartan tók hressilega á textanum og af leikrænum tilburðum mátti greina að hann vissi nákvæmlega hvað hvert orð þýddi, jafnvel í óeiginlegri merkingu satírunnar. Hulda Björk var sér greinilega meðvituð um merkingu textans og framburður hennar var prýðilegur en kraftur orðanna náði ekki alltaf til hlustenda. Á óperusviði verða söngvarar beinlínis að þrá að sannfæra hlustendur um merkingu textans. Hulda Björk hefur frábæra rödd en að þessu leyti var nokkuð skarð fyrir skildi. Einnig var ójafnvægi milli radda þeirra Ólafs Kjartans í fyrstu senunni en síðan sótti Hulda Björk í sig veðrið og þá komst á fullur samhljómur raddanna. Sýningin reis hæst í undurfagurri aríu Súsönnu, Deh vieni, non tardar, sem Hulda Björk söng af tindrandi þokka. Mikill fengur er fyrir Íslensku óperuna að fá slíkan lýrískan sópran til liðs við sig. Steinunn Birna píanóleikari reyndist elskendunum á sviðinu traustur félagi og tók þátt í gleði þeirra og sorgum af snerpu og leikgleði.

Framburður söngvaranna í sýningunni á Brúðkaupi Fígarós var eins og áður sagði mjög góður og á köflum frábær. Það gladdi þann sem þetta skrifar en minnti hann jafnframt á þann dapurlega sið sumra hérlendra söngvara að breyta ítölskum sönglögum og aríum í einhverskonar vókalísur. Þannig má stundum aðeins greina sérhljóða í söngnum en engin orðaskil. Í sumum tilfellum kveður svo rammt að þessu að líkja mætti við meðvitaða stefnuyfirlýsingu. Söngtónlist sprettur af texta og skýr textaframburður er grundvöllur þess að hlustendur njóti flutningsins. Verst er ef ungir söngvarar lepja upp linmælgið eftir hinum eldri og reyndari þannig að úr verður íslenskt tilbrigði við ítalskan framburð sem á sér enga stoð í raunveruleikanum. Vonandi halda söngvarar vöku sinni svo hlustendur megi áfram njóta fegurðar, kliðmýktar og gáska ítalskrar tungu líkt og á hádegistónleikum Íslensku óperunnar.

Gunnsteinn Ólafsson