HANNES Ó. Johnson lést þriðjudaginn 12. febrúar sl., 78 ára að aldri. Hannes fæddist á Blönduósi 12. september 1923, sonur hjónanna Ólafs Johnson stórkaupmanns í Reykjavík og Guðrúnar Árnadóttur Johnson.

HANNES Ó. Johnson lést þriðjudaginn 12. febrúar sl., 78 ára að aldri.

Hannes fæddist á Blönduósi 12. september 1923, sonur hjónanna Ólafs Johnson stórkaupmanns í Reykjavík og Guðrúnar Árnadóttur Johnson. Hann nam við Verzlunarskóla Íslands frá 1938-1940 og Admiral Billard Academy í Bandaríkjunum 1941-1942.

Hannes var búsettur í Bandaríkjunum 1940-1945 og vann á skrifstofu Ó. Johnson og Kaaber hf. og Innflytjendasambandsins í New York 1942-1945.

Eftir heimkomuna starfaði Hannes hjá Páli Stefánssyni 1946, Flugfélagi Íslands hf. 1947-1949 og Trolle & Rothe hf. 1950-1954. Hann var fulltrúi hjá Vátryggingarfélaginu hf. 1954 til áramóta 1955 og síðan framkvæmdastjóri hjá Tryggingu hf.

Hannes átti sæti í stjórn Sambands brunatryggjenda á Íslandi 1964-1975 og var formaður síðustu fimm árin. Þá sat hann í stjórn Sambands íslenskra tryggingafélaga 1972-1975, stjórn Verslunarráðs Íslands 1974-1976 og í stjórn Ó. Johnson og Kaaber og systurfyrirtækja þess frá 1967 til 2001.

Eftirlifandi eiginkona Hannesar er Sigríður Guðbjörg Johnson. Börn þeirra eru tvö, Hildur Elín og Agnar.